Ég fór á laugardaginn í skranbúðina sem er að selja leifar bandaríska hersins í gamla Blómavali. Mig langaði í almennilegt herdót til minningar um herinn í Keflavík. Konni hefur alltaf verið veikur fyrir herdóti síðan hann stundaði hermannaleiki í Norðurmýrinni í gamla daga og horfði á Kanasjónvarpið hjá Maju frænku. Konni öfundaði alltaf kunningja sinn sem átti alvöru bandarískan herhjálm. Móðurbróðir minn átti líka safn ýmissa merkja sem hermenn skreyttu sig með og var það flott. Annars langaði Konna á menntaskólaárunum óendanlega mikið í grænan hermannajakka. Nokkrir eðaltöffarar í MH áttu einmitt slíka jakka. Alltaf fór það samt þannig að Sölunefnd varnaliðseigna átti aldrei réttu stærðina svo draumurinn um jakkann rættist ekki.
Konni fór sem sagt í skransöluna til að verða sér úti um hermannahjálm eða eitthvert almennilegt herdót ... eða kannski bara grænan hermannajakka. Hvílík vonbrigði! Í skransölunni var ekkert sem minnti á her nema kolryðgaðir bílar merktir US Navy.
Þar voru grútskítugir lazy-boystólar, skrifborð í röðum, borðstofuhúsgön í tonnum, hjónarúm í stöflum, einn nuddbekkur og slatti af líkamsræktartækjum.
Reyndar var þarna rammgerður peningaskápur sem mig langaði dálítið í ... en Konni hefur bara því miður ekki not fyrir slíka mublu.
Enginn hjálmur, ekkert herdót enginn hermannajakki!
Hvað var herinn eiginlega að gera hérna?
Kveðja,
Konni