22.4.07

Hvað ef grænt yrði blátt og blátt yrði grænt?

Til að ljúka við þessar pælingar mínar um útlit og traust langar mig til að velta því fyrir mér hvað myndi gerast ef Sjálfstæðismenn færu að lopapeysast eins og Vinstri grænir og Vinstri grænir færu að jakkafatast eins og Sjálfstæðismenn. Reyndar verður að taka fram eins og allir vita að útlitsmál flokkanna eru kannski ekki alveg svona svart og hvít. Ég hef t.d. ekki séð neinn Vinstri grænan í lopapeysu nýlega. Þar á bæ eru karlar almennt í jakkafötum og með bindi.
En ég veit að lesendur átta sig á hvað ég er að meina. Konni hefur ekki tekið klæðnað kvenna út á sama hátt. Kannski hafa þær frjálsari hendur?
Með útliti og klæðaburði eru frambjóðendur að höfða til sinna hópa. Þeir eru að höfða til fólks sem er með svipaðan smekk í hugsun og vilja samsama sig við stíl síns flokks. Sumum fannst t.d. töff að vera á Trabant í gamla daga á meðan öðrum fannst það alls ekki töff. Það voru meiri líkur á því að Trabanteigandi kysi Alþýðubandalagið heldur en Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem nú til dags eiga nýjan Volkswagen Golf með álfelgum eða Benz með álfelgum eru miklu líklegri til að Kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn passar miklu betur við Golfinn og Benzinn en t.d. Frjálslyndir eða Vinstri grænir. Vinstri grænir eiga miklu frekar látlausa fjölskyldubíla ekki splunkunýja en samt ekki endurunna.
Framsóknarmenn eru í augljósum vanda. Því fólki sem finnst töff að vera í Framsókn, einkum bændum og landsbyggðarfólki, fækkar alveg hrikalega ört. Þeir eru líka svo líkir Sjálfstæðimönnum og Samfylkingarfólki að kjósendur taka ekki eftir þeim. Framsóknarmenn vantar útlitslega sérstöðu ... vantar lit. Þeir skarta reyndar grænum lit að venju en hann nær bara ekki í gegnum þann bláa og þann rauða og græni litur Vinstri grænna ber með sér annað yfirbragð sem nær til fólks. Þeir skarta á einhvern hátt þroskaðri og trúverðugri grænum lit.
Það eru litirnir sem fólk tekur mark á, útlitið. Ef flokkarnir tækju sig nú saman og breyttu um stíl yrðu kjósendur kolruglaðir. Grænt yrði blátt og rautt yrði grænt.
Nú finnst mér að flokkarnir ættu að ráða Konna sem sérstakan stílista fyrir komandi kosningar ... gegn vægu gjaldi auðvitað.
Kveðja.
Konni

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home