31.12.06

"... og aldrei það kemur til baka"

Konni getur andað léttar því enn eitt ár hefur gengið áfallalaust fyrir sig. Eiginlega þakkar Konni fyrir hvern áfallalausan dag því áföllin geta dunið yfir fyrirvaralaust. Maður þarf ekki annað en að renna á hinum mörgu hálu svellum lífsins til að allt fari úr skorðum.
Þá er bara að draga andann djúpt og stinga sér inn í næsta ár.
Völvur keppast þessa dagana við að greina okkur frá því sem árið 2007 muni bera í skauti sér. Samkvæmt völvu Vikunnar á sumarið ekki að verða neitt sérstakt nema þá helst á Austurlandi. Þetta hefði nú Konni getað sagt ykkur. Völvan segir að það verði stjórnarskipti í vor. Það hefði nú Konni getað sagt ykkur líka. Konni hefði líka getað sagt ykkur að á árinu verði veisluhöld á Bessastöðum og einhver átök verði í kringum Davíð Oddsson og Ingibjörgu Sólrúnu.
Við erum öll meir eða minna skyggn á framtíðina ... að minnsta kosti á það fyrirsjáanlega. Guð einn veit allt hitt þó sem betur fer sé hann tregur til að troða upp með það á síðum Vikunnar. Ekki vil ég vita hvað næsta ár ber í skauti sér. Leyfum því bara að koma og tökum því sem að höndum ber.
Gleðilegt ár kæru vinir!
Konni

30.12.06

Fara gáfur eftir höfuðlagi?

Konni fór í leikhús í vikunni. Fyrir framan hann sátu þrír karlmenn, allir sköllóttir. Þar sem Konni var kominn tímanlega í salinn og svo sem lítið við að vera nema virða fyrir sér leikhúsgesti var Konni áður en hann vissi af kominn í djúpar pælingar um höfuðlag þessara manna. Höfuðlag þeirra var á margan hátt afar myndrænt og skoðunar virði. Konni hafði til dæmis ekki áður áttað sig á hvernig eyrun eru eins og vaxin út úr höfuðleðrinu. Eyru okkar eru mjög kynleg en falleg sköpun. En aftur að höfuðlaginu.
Einn þessara manna var með frekar kúlulaga höfuðkúpu meðan hinir tveir voru með ílanga. Sá með kúluhausinn er þekktur maður einkum og sérílagi fyrir gáfur. Konna fannst höfuðlag þessa manns bera með sér að hann hafi nóg pláss fyrir heilann. Ekkert ætti að þrengja að. Heilinn hans hefur nóg pláss. Heilar hinna mannanna hljóta að vera ílangir eins og höfuðlagið því heilinn hlýtur að fylla út í allt það rými sem hann er skapaður í. Allavega dinglar heilinn aldrei laus og aldrei hefur Konni heldur heyrt af því að heilinn sprengi af sér höfuðkúpuna.
Svona án þess að þekkja hina tvo gat Konni ekki varist þeirri hugsun að heilar þeirra hefðu ekki sama svigrúm og heili þess með kúluhausinn ... og þá vaknaði spurning sem gaman væri að fá svar við. Skyldu gáfur fara eftir höfuðlagi? Hugsanlega þrýstir þröng höfuðkúpa á einhverjar stöðvar eða kemur í veg fyrir að þær þroskist almennilega á meðan rúm höfuðkúpa leyfir heilanum að þroskast á fullkominn hátt.
Er mikið rými höfuðkúpunnar forsenda fyrir miklar gáfur?
Kæru vinir, lítið í kringum ykkur og kannið þetta nú fyrir mig.
Kveðja,
Konni

24.12.06

Karlmenn, gangið ekki í björg í Kringlunni!

Það ber margt fyrir augu í jólaösinni. Konni var í Kringlunni í gær, að sligast undan fjórum þungum Bónuspokum. Stefnan var að koma þessum pokum sem fyrst í bílinn og flýta sér heim þegar áform Konna breyttust snarlega. Konna varð nefnilega litið inn í eina tískuverslunina, rándýra verlsun. Þar bar fyrir augu sýn sem varð til þess að að ósjálfrátt, já ósjálfrátt breytti Konni um stefnu með pokana og var áður en hann vissi af kominn inn í verslunina. Konni sá nefnilega gyðju eða dís. Gyðjan var fegurðardís frá toppi til táar og klæðnaðurinn ýtti undir allt sem hægt var að ýta undir. Konni var sem í leiðslu, alveg heillaður. Konni hélt þó stillingu sinni og prúðmennsku. Að lokum mannaði Konni sig upp og gaf sig á tal við gyðjuna. Hjarta Konna sló hratt því það er ekki á hverjum degi sem Konni kemst í tæri við dísir. Það hefði hann samt ekki átt að gera. Það er nefnilega ekki nóg fyrir gyðjur að hafa allt til alls til að dáleiða karla á löngu færi og soga þá að sér eins og segull járn ef málrómurinn er ekki líka í samræmi við útlitið. Í stað seiðandi álfkonumálróms í stíl við allt hitt var málrómur gyðjunnar eins og hver annar stelpumálrómur.
Mikil urðu vonbrigði Konna og hugsaði að hann þá með sér að betri væri venjuleg kona með fallegan málróm heldur en gella með gjallanda.
Konni kom Bónuspokunum heilu og höldnu heim.

Sögur herma að í gamla daga hafi álfkonur tælt margan prúðan piltinn til sín og ef þeir komust til aftur til mannheima voru þeir sturlaðir eða viti sínu fjær. Lítið fer fyrir slíkum sögum nú á dögum. Var þetta álfkona sem Konni sá í Kringlunni? Allavega var gyðjan ekki við afgreiðslu seinna um daginn er Konni ætlaði að kanna málið. Best að Konni kanni þetta aftur í dag.
Karlmenn, gangið ekki í björg í Kringlunni!
Gleðileg jól!
Konni

20.12.06

Lækningamáttur íslenskra karla

Meðferðarstofnun ein hefur verið svolítið í sviðsljósinu upp á síðkastið. Konni ætlar ekki að blanda sér í þá umræðu. Konni fékk hins vegar hugmynd.
Forstöðumaður stofnunarinnar segist gefa frá sér líkamsvessa sem hafi lækningamátt. Þetta er stórkostlegt og gefur tilefni til að kanna lækningamátt líkamsvessa hjá fleiri íslenskum körlum. Einu sinni var flutt út blóð úr fylfullum merum. Úr blóðinu er hægt að vinna efni í lyf. Hvers vegna ekki að kanna í alvöru lækningamátt líkamsvessa íslenskra karla? Kannski vessar fleiri karlmanna en forstöðumannsins hafi lækningamátt. Þarna er hugsanlega vannýtt auðlind. Húsvíkingar ættu að kanna þetta. Ef til vill gætu læknandi vessar íslenskra karla orðið meiriháttar iðnaður og komið í staðinn fyrir álver. Þetta yrði örugglega ekki orkufrekur iðnaður.
Kveðja,
Konni

18.12.06

Öll örvun er leikur að eldi

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Konni var fyrir nokkru að segja ykkur frá því að hann ætti Shakespere komplett ónotaðan/ólesinn upp í hillu. Veldur þetta ritsafn honum nokkru hugarangri því í hvert sinn hann lítur þessar bækur er eins og hann spegli sig í eigin andleysi og heimsku.
Kannski ætti hann að láta vaða og byrja á kallinum því Konni var einmitt að lesa á mbl.is að breskir vísindamen hefðu komist að því að ritstíll Shakesperes örvi heilann. Þetta eru stórtíðindi fyrir Konna. Fyrir fram nefið á honum er sem sagt tæki til heilaörvunar og það ónotað. Með lestri ritsafnsins slær hann tvær flugur í einu höggi, yfirvinnur Shakeperes-fælnina og fær í kaupbæti ný-örvaðan heila.
Konni hefur reyndar nokkrum sinnum reynt að ná taki á meistaranum en ekki alveg áttað sig á þræðinum. Eftir nokkrar blaðsíður þarf Konni að byrja á öllu upp á nýtt því söguþráður og persónur snarsnúast í heilanum á honum.
Heili Konna er greinilega ekki nógu örvaður ... þar vantar mikið á.
Það liggur því beinast við að hefja lesturinn strax í kvöld og þræla sér í gegnum ritsafnið sem fyrst.
En ...
Hvað hefur Konni með það að gera að örva heilann? Þetta er vafasöm tilraun. Hvaða áhrif mun ný-örvaður heili hafa á Konna? Mun Konni verða betri maður, standa í stað eða jafnvel verða verri maður. Getur verið að þeir sem hafi lesið allt ritsafn Shakesperes séu oförvaðir? Hefur persónuleiki þeirra breyst? Hafa þeir farið á einhvern yfirsnúning? Hafa þeir kannski dáið af oförvun?
Allar örvanir eru að mati Konna hættulegar. Getur verið að Shakespere virki á heilann eins og dónablöð virka á önnur líffæri? Úps!
Þetta verður að rannsaka. Allavega þorir Konni ekki að byrja á Shakespere fyrr en þessum spurningum hefur verið svarað.
Kveðja,
Konni

14.12.06

Undursamlegur hárblásari

Var að horfa á Ómega. Ég var að vonast eftir innblæstri frá einhverjum innblásnum prédikara en mér til mikilla vonbrigða varð innblásturinn að sýnikennslu í hárblæstri því þarna var verðið að auglýsa hárblásara fyrir konur. Ómega-menn reka nefnilega líka sjónvarpsmarkað.
Hárgreiðslumeistarinn, sem hafði fundið upp nýja tegund af hárblásara, fór þarna fimum fingrum um hár nokkurra kvenna. Á lífi þessara kvenna hafði hvílt sá skuggi að þær voru allar með líflaust, slétt og óspennandi hár. Þær höfðu lengi þráð og óskað sér loftkennds krullaðs hárs en þrátt fyrir langa leit að rétta krullujárninu hafði þeim ekki orðið að ósk sinni. Þær voru því glaðar konurnar á Ómega sem höfðu fengið líflegt og loftkennt hár með þessu ævintýralega tæki. Svona geta hárblásarar skipt miklu máli.
Þessi auglýsing varð mér hins vegar meiri innblástur en ég átti vona á því hún sýndi svart á hvítu hvernig Guð vinnur. Hann kemur oft inn í líf okkar á óvæntan hátt og á ólíklegustu stöðum ... þarna sýndi hann þessum konum kærleika sinn gegnum fingur hárgreiðslumeistarans, mannsins sem fann upp hinn undursamlega hárblásara.
Kveðja,
Konni

11.12.06

Tímamót eru í nánd - Konni fékk hugmynd

Er betra að vera góður í einu en skítsæmilegur í mörgu? Konni veltir þessu nú fyrir sér því lífið er stutt. Í hvað er þess virði að eyða lífinu? Þar sem Konni trúir einlægt á framhaldslíf verður allt sem maður gerir hérna megin að miðast við væntanlega framtíðarmöguleika hinum megin. Verst er að maður veit ekki nákvæmlega hvað býðst er yfir kemur. Ef svo væri gæti maður einbeitt sér að því í þessu lífi sem ekki býðst í hinu næsta.
Af hverju fær maður ekki miklu nákvæmari útlistanir á framhaldslífinu? Til hvers eru allir þessir spekúlantar og guðfræðingar? Við viljum auðvitað vita hvernig búið er þarna fyrir handan. Ég er nú búinn að horfa mikið á Ómega, þar hefur ekkert komið fram sem hönd er á festandi, bara einhverjar pælingar um tilvist með Guði. Það er helst að Þórhallur miðill geti frætt mann um þetta. Reyndar varar Ómega mjög við heimsóknum til miðla svo þá er sú leið ófær.
Núna í þessum skrifuðu orðum fékk Konni dásamlega og dýrmæta hugmynd. Verst hvað hún kemur seint fram.
Af hverju settum við ekki peningana sem fóru í Kárahnjúkavirkjun, álverið og allt það í að rannsaka framhaldslífið?
Komast yfir landamærin.
Þá hefðu Austfirðingar nóg að gera við að leiðbeina öllum heiminum um víðlendur himnaríkis. Þetta yrði ferðaþjónusta sem myndi mala gull svo lengi sem land byggðist. Þá gæti maður líka séð hvað borgar sig að gera hérna megin grafar og hvað má geyma þar til síðar.
Austfirðingar hefðu getað unnið að þessu sjálfir og ég er viss um að þeim hefði tekist þetta með svona svakalega mikla peninga milli handanna og alla þessa verkfræðinga og guðfræðinga og ýtukalla á svæðinu.
Verst hvað Konni fékk þessa hugmynd seint. Kannski gætu Húsvíkingar notað hana. Ég las nefnilega í Morgunblaðinu að í spádómum Nostradamusar sé gert ráð fyrir að Íslendingar gegni á komandi tímum veigamiklu hlutverki sem andlegir leiðtogar heimsins og við verðum lykilþjóð við að koma á réttlátum heimi.
Áfram Austurland - stundin er upp runnin!
Kveðja
Konni

10.12.06

Listin er löng en lífð er stutt

Konni varð áþreifanlega var við í gær að honum endist greinilega ekki aldur til að komst til botns í hyldýpi listarinnar.
Konni stakk sér þó einu sinni út í hylinn. Konni keypti Íslendingasögurnar og ætlaði í skipulegt ferðalag um veröld þeirra sagna.
Hvar í ósköpunum skyldu þær bækur vera?
Einu sinni keypti Konni Shakespere komplett.
Sá bókaflokkur er ólesinn upp í hillu.
Einu sinni keypti Konni heildarútgáfu Þjóðsagna Jóns Árnasonar.
Nú eru þær að mestu ólesnar upp í hillu.
Konni fór einu sinni á námskeið í listasögu og hefur grautað í tónlistarsögunni en er samt einhvern veginn alltaf að svamla í yfirborðinu.
Konni hefur lítið lesið í Biblíunni.
Konni á líka eftir að hlusta á Niflungahringinn hans Wagners og lesa margar bækur eftir Laxnes svo ekki sé nú talað um mörg hundruð hillumetra af öðrum jöfrum bókmenntanna.

Allt þetta vitraðist Konna í gær þegar hann sá að út er komin ný matreiðslubók eftir Jóhönnu Vigdísi fréttakonu. Einu sinni hafði Konni nefnilega uppi mikil áform um að kafa djúpt í hina göfugu list matargerarðlist. Hér á heimilinu eru því til all nokkrar matreiðslubækur.
Hér sé ég Kökubók Hagkaupa, Veislubók Hagkaupa, Tertubók Hagkaupa, Eftirréttabók Hagkaupa. Matreiðslubók Nönnu sem Konni keypti af Rósu Ingólfs í gegnum síma og svo eru það margir árgangar af Gestgjafanum og norsku matreiðslubækurnar.
Þó Konni tæki sig nú til í og byrjaði á fyrstu uppskriftinni í Matreiðslubók Nönnu tæki síðan þá næstu og svo koll af kolli í gegnum allan Gestgjafann og norsku matreiðslubækurnar og Hagkaupsbækurnar og allt hitt, entist honum ekki öll ævin.
Er þetta ekki grátlegt?
Hvar fór Konni út af sporinu?
Listin er löng en lífið er svo hrikalega stutt ... sorgleg staðreynd?
Eru fleiri sem kannast við þetta vandamál?
Kveðja,
Konni

8.12.06

Bréf til tilfinningasamra Héraðsbúa

Kæra Rannveig og aðrar tilfinningaverur
Ég segi það satt. Það er allt of mikil tilfinningasemi í þessum heimi. Við Íslendingar erum fram úr hófi viðkvæmir og tilfinningasamir. Hér í Reykjavík eru til dæmis átthagafélögin gott dæmi. Húnvetningar, Breiðfirðingar, Héraðsbúar, Sunnlendingar geta bara ekki skilið við. Átthagarnir eru okkur greinilega mjög mikll fjötur um fót. Við losnum aldrei frá æskunni. Þurfum sífellt að vera með annan fótinn í hinu liðna.
Nú er að rofa til. Ný kynslóð er að koma til vits og ára. Sprengmenntaðir tilfinningaleysingjar. Skýrast kemur þetta fram í fjármálheiminum. Þar reka menn fyrirtæki með það eitt að leiðarljósi að skila hámarksgróða. Það er gott. Menn skattlegja aldraða og rýja þá inn að skinni. Það er líka gott því við þurfum að eiga fyrir friðargæslunni, tvöfölduninni, og kaupinu mínu. Menn vilja leggja niður gamla Ríkisútvarpið mitt svo Bylgjan og aðrar gleðirásir verði þrjúhundruðsextíuogfimm sinnum sterkari. Það er örugglega líka gott því þá verða eigendurnir þrjúhundruðsextíuogfimm sinnum ríkari. Það er ekki mikil tilfinningasemi á þeim bæ. Þetta er allt gott.
En kæra Rannveig ef það verður gróði af þorrablóti brottfluttra Héraðsbúa þá finnst mér bara allt í lagi að halda það ... án allrar tilfinningasemi. Þar sem nú er búið að ráða mig sem söngstjóra á það blót er alveg pottþétt að sá söngur verður ekki tilfinningaþrunginn. Hann verður praktískur ... þ.e. stefnt að hámarksgleði.
Kv
Konni

6.12.06

Sleppum allri tilfinningasemi, hún er bara ávísun á vesen

Konni var að hlusta á yfirlit hádegisfrétta. Í fréttum var það einna helst að ráðherra, ég held utanríkisráðherra, segir að baráttan gegn hvalveiðum byggist eingöngu á tilfinningarökum. Þetta er örugglega rétt og auðvitað alls ekki hægt ef fólk blandar tilfinningum í svona gríðarlegt hagsmunamál.
Tilfinningar eru að bera okkur ofurliði. Fullt af fólki er á móti hinu og þessu vegna þess að því finnst bara eitthvað vera fallegt eða gott. Þetta gengur bara ekki lengur.
Nú nálgast jólin. Margir eru farnir að hlakka til jólanna. Gæti verið að fólk hlakki til jólanna á tilfinningalegum forsendum? Það er hið versta mál. Konni hlakkar til jólanna vegna þess að þá fær hann smá frí. Þá fær Konni líka gott að borða og fullt af gjöfum. Þetta er praktísk jólatilhlökkun. Tilfinningar Konna koma þar hvergi nærri.
Tilfinningar koma allt of víða við sögu. Tökum til dæmis hugtökin ást og fegurð. Þessi hugtök eru alltaf tengd tilfinningum. Menn hafa ást á hinu og þessu og jafnvel fallegu landi. Þetta er ekki gott eins og sýndi sig í Kárahnjúkmálinu. Menn mega bara ekkert gera vegna tilfinninga fólks út í bæ.
Nei, farsælast væri ef við gætum útlokað eins mikið af tilfinningum og hægt er því þá gætum við loksins stjórnað þessum heimi alveg tilfinningalaust og drepið alla hvali þess vegna.
Utanríkisáðherra er á réttri leið.
Kveðja,
Konni

4.12.06

Göngum veg gleðinnar með fábrotinn smekk

Mikið er Konni feginn að vera með frekar fábrotinn smekk. Hann hefur tekið eftir því að fólk með góðan smekk er eiginlega alltaf fúlt. Góður smekkur leiðir af sér svo gagnrýna hugsun að ekkert nema það besta þykir réttmæt ástæða fyrir smá gleði.
Þeir sem eru hins vegar með fábrotinn smekk gleðjast yfir litlu. Tökum nokkur dæmi.
Þeir sem eru með fábrotinn tónlistarsmekk gleðjast yfir öllu nema því sem er langt og þungt og sannarlega leiðinlegt. Þeir sem hafa fábrotinn bókmenntasmekk þurfa ekki hástemmd ljóð eða Íslendingasögurnar til að ylja sér við. Slíkt fólk gleðst yfir textum Lónlí Búbojs og Gylfa Ægissonar. Þeir sem hafa vondan myndlistarsmekk gleðjast yfir einföldum fallegum myndum og velmáluðum en þurfa ekki Feneyjarbínealinn til að stökkva hæð sína af gleði. Fólk með lélegan vínsmekk gleðst yfir ódýrum vínum. Þarf ekki að dýfa nefinu í vínið, sér engan tilgang í leikfimiskúnstum með glösin eða umhellingum og litbrigði vínsins skiptir það engu máli. Nei, þetta fólk nýtur þess að drekka ódýrt vín og gleðst. Fólk með lélegan smekk á bílum getur glaðst yfir ódýrustu gerð af Toyota eða notuðum Lada sport en þarf ekki BMW eða Bens til að koma sér milli staða. Þeir sem hafa lélegan smekk fyrir fólki geta látið sér líka vel við ljótt fólk en þurfa ekki Herra Ísland eða alheimsfegurðardrottningar til að gleðjast yfir.
Já, mikið er Konni þakklátur fyrir að hafa fábrotinn smekk. Þess vegna er Konni líka alltaf svo glaður ... þarf ekki að burðast með góðan smekk. Konni ráðleggur því fólki með dýran og góðan smekk að taka upp breytta siði og ganga gleðinnar veg með okkur hinum.
Kveðja,
Konni

2.12.06

Bókaverslunarpælingar

Gaman, gaman ... nú streyma bækurnar úr prentvélunum. Mér finnst dálítið skemmtilegt að rangla inn í bókabúðir á þessum árstíma því þar svigna borðin undan bókastöflunum. Það er gaman að kanna þessa stafla.
Bókabúðir eru menningarstofnanir. Þar er rétta stemningin til að skoða bækur.
Ég á mjög erfitt með að kaupa bækur í Bónus og öðrum matvöruverslunum þó verð bóka þar sé oft mun lægra en í bókabúðunum, hvernig sem nú á því stendur. Ef til vil erum við að greiða niður bækurnar með matvöruverðinu. Ef til vill erum við að borga Bónus-bækurnar niður allt árið svona smátt og smátt. Það finnur enginn fyrir hundraðkalli hér og hundraðkalli þar. Kannski eru Bónuskallarnir bara svona góðir við okkur og alla hina. Sletta ódýrum bókum í okkur fyrir jólin og nokkrum milljónum í UNICEF og þá eru allir ánægðir. Að kaupa bók í Bónus er eiginlega hálfgert framhjáhald.
Sem betur fer virðast bókabúðir lifa sæmilegu lífi þrátt fyrir þessa samkeppni um jólin. Eða skiptir það kannski engu máli hvar maður kaupir hvað svo framarlega að maður fái það ódýrt? Væri samt ekki svolítið kynlegt að kaupa ódýran hamborgarahrygg í Máli og menningu?
Kveðja
Konni