Síðasti pistill hefur valdið Konna nokkru hugarangri. Var Konni plataður
eða ekki? Álitsgjafar síðunnar eru mjög misvísandi.
Reyndar gekk Konni aldrei svo langt að borða grænan banana með
hýðinu en það var eingöngu vegna þess að sá sem veitti Konna þessar
upplýsingar var ekki trúverðugur. Það er einmitt það sem veldur
hugarangrinu. Af hverju er venjulegur strákur sem sinnir skyldustörfum í
verslun ekki trúverðugur? Ef þetta hefði verið stelpa hefði
trúverðugleikinn aukist til muna.
Nú til dags er trúverðugleiki sumra stétta byggður upp á markvissan hátt.
Tökum til dæmis allan viðskiptabransann. Byrjendur sem ráðnir eru til
fyrirtækis fá strax birta af sér litla mynd í einhverju viðskiptablaðanna.
Þar er tíundaður ferill og menntun sem oft er, þrátt fyrir byrjanda, býsna
margslunginn. Svo koma jakkafötin og draktirnar og við fáum umsvifalaust
traust á svo vel menntuðu, margsigldu og lífsreyndu fólki sem þrátt fyrir
ungan aldur er komið í áhrifastöðu hjá fjármálafyrirtæki. Starfsfólk
viðskiptaheimsins kemur í Séð og heyrt þegar bankarnir halda árhátíðir eða
gala-veislur á borð við Stefnumót við stjörnurnar. Auglýsingar í blöðum
sýna þetta fólk alvarlegt í bragði vakandi yfir hag bankans, landsins og
allra Íslendinga. Svona fólk getur selt hverjum sem er hvað sem er.
Þetta er traust, hámenntað og umfram allt fólk með lúkkið í lagi og þið
getið verið viss um að það segir ekki miðaldra manni að borða græna banana
með hýðinu.
Nú eru einmitt að birtast heilsíðuauglýsingar frá stjórnmálaflokkunum með
fallegum myndum af frambjóðendum. Konni ráðleggur ykkur að skoða þessar
myndir vel. Hverjir koma best fyrir? Hverjum treystið þið best til að bera
hag okkar allra fyrir brjósti. Allt þetta sést á myndunum. Einhverjum
sérvitringnum kann að þykja það fullgilt að bjóða sig fram til Alþingis í
flauelsbuxum og lopapeysu en við Íslendingar viljum almennt fólk í
jakkafötum og dröktum. Hefði strákurinn í 10-11 verið í jakkafötum er
aldrei að vita nema Konni hefði bitið í grænan banana ... í einrúmi. Veika
hlið stráksins var hettupeysan. Konni ráðleggur lesendum að kjósa fólk sem
engar líkur eru á að reyna að telja ykkur trú um að borða græna banana með
hýðinu. Til þess að forða misskilningi þá er Konni ekki endilega að tala
um Vinstri græna þó þeir séu með heilsufæðislegaútlítandi konu framarlega
í flokki.
Kjósum hina velklæddu.
Kv.
Konni