13.5.07

Snjöll aðferð til að klekkja á einhverjum

Jæja, þá er búið að kjósa á báðum vígstöðvum þ.e.a.s. til Alþingis og líka í Júróvisjón. Auðvitað kusum við eins og og fyrir okkur var lagt. Við kusum Finnland og Svíþjóð í söngvakeppninni eins og Eiríkur Hauksson lagði svekktur til. Með því klekktum við illilega á Austur-Evrópu. Við kusum líka Sjálfstæðisflokkinn eins og Jóhannes í Bónus stakk svekktur upp á til að klekkja á Birni Bjarnasyni.
Eru ekki fleiri svekktir einstaklingar í samfélaginu sem þjóðin getur gert smá greiða? Hverjum eigum við að klekkja á næst?
Kveðja
Konni

11.5.07

Förum að ráðum Jóhannesar

Nú er Jóhannes í Bónus búinn að gefa línuna. Ég kaupi inn til heimilisins í Bónus og er Jóhannesi óendanlega þakklátur fyrir lágt vöruverð. Þetta lága vöruverð hefur gert mér kleift að nota restina af peningunum mínum í menningu, nýtt hljóðfæri og sinna ýmsum góðverkum. Ég vil geta þess sérstaklega að ég gaukaði hundraðkalli að rúmenskum harmónikkuleikara á Laugaveginum í vetur. Ég man hvað ég gladdist með öllum Héraðsbúum þegar fréttist að Bónus ætlaði að opna verslun á Egilsstöðum. Þá var kátt á hverjum bæ. Bónus hefur sannarlega auðgað mitt líf. Takk fyrir það og ég ætla svo sannarlega að fara að ráðum Jóhannesar. Það er líka búið að fara illa með hann og hans fyrirtæki síðustu misseri. Gangi honum vel.
Kv.
Konni

9.5.07

Lögreglan stendur sig með prýði

Vinir Konna muna örugglega vel eftir því þegar harmónikkufélag nokkurt á landsbyggðinni hafnaði tónverki sem hann hafði sent til flutnings í sérstaka harmónikkulagakeppni á Egilsstöðum.
Síðan þá hefur Konna verið í nöp við harmónikkuleikara hvar sem er í heiminum. Það gladdi því Konna mjög er lögreglan tók sig til í gær og smalaði saman rúmenskum harmónikkuleikurum sem dvalist hafa á landinu að undanförnu og sendi þá til síns heima. Við Íslendingar höfum svo sannarlega ekkert að gera við fleiri harmónikkuleikara. Ég styð eindregið öryggisaðgerðir lögreglunnar gagnvart útlendum harmónikkuleikurum og væri jafnvel til í að kjósa Frjálslynda flokkin til að koma í veg fyrir frekari heimsóknir útlendinga sem kunna á harmónikku.
Kv.
Konni

4.5.07

Bindi og sinfóníutónleikar

Konni fór á alveg frábæra sinfóníutónleika áðan og nú voru engar feilnótur slegnar í klæðaburði eins og á síðustu tónleikum. Jakkaföt og bindi voru það og hvítvín fyrir frúna í hléi. Hljómsveitin spilaði frábærlega vel. Bindið gerði hins vegar gæfumuninn. Þarna voru reyndar mjög margir vel klæddir karlar og enn fleiri vel klæddar konur. Bindi og Beethoven/Brahms fara vel saman. Reyndar var ég að heyra það í útvarpinu að bindi geti verðið smitberar. Einhver rannsókn sem gerð var í Tælandi gaf það til kynna að bindi séu sjaldan þvegin. Læknar ættu því alls ekki að bera bindi er þeir fara milli sjúklinga á stofugangi. Bakteríur og veirur eins sjúklings geta loðað við bindið og smellt sér á næsta sjúkling sem síðan gefur frá sér smit á bindi læknisins sem hoppar svo á þriðja sjúklinginn. Þannig gengur þetta koll af kolli þangað til læknirinn hefur smitað allan spítalann með bindinu. Reyndar skyldi maður ætla að þetta væri atvinnuskapandi fyrir lækna.
Þá er betra að vera með slaufur eins og karlkyns meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það er mjög ólíklegt að bakteríur og veirur hoppi á milli þar á bæ. Allavega voru engin veikindamerki á meðlimum hljómsveitarinnar í kvöld. Hins vegar slitnaði strengur í sellói en tæpast verður það rakið til hálstaus hljómsveitarmeðlima.
Kveðja,
Konni

Draumurinn um græna hermannajakkann

Ég fór á laugardaginn í skranbúðina sem er að selja leifar bandaríska hersins í gamla Blómavali. Mig langaði í almennilegt herdót til minningar um herinn í Keflavík. Konni hefur alltaf verið veikur fyrir herdóti síðan hann stundaði hermannaleiki í Norðurmýrinni í gamla daga og horfði á Kanasjónvarpið hjá Maju frænku. Konni öfundaði alltaf kunningja sinn sem átti alvöru bandarískan herhjálm. Móðurbróðir minn átti líka safn ýmissa merkja sem hermenn skreyttu sig með og var það flott. Annars langaði Konna á menntaskólaárunum óendanlega mikið í grænan hermannajakka. Nokkrir eðaltöffarar í MH áttu einmitt slíka jakka. Alltaf fór það samt þannig að Sölunefnd varnaliðseigna átti aldrei réttu stærðina svo draumurinn um jakkann rættist ekki.
Konni fór sem sagt í skransöluna til að verða sér úti um hermannahjálm eða eitthvert almennilegt herdót ... eða kannski bara grænan hermannajakka. Hvílík vonbrigði! Í skransölunni var ekkert sem minnti á her nema kolryðgaðir bílar merktir US Navy.
Þar voru grútskítugir lazy-boystólar, skrifborð í röðum, borðstofuhúsgön í tonnum, hjónarúm í stöflum, einn nuddbekkur og slatti af líkamsræktartækjum.
Reyndar var þarna rammgerður peningaskápur sem mig langaði dálítið í ... en Konni hefur bara því miður ekki not fyrir slíka mublu.
Enginn hjálmur, ekkert herdót enginn hermannajakki!
Hvað var herinn eiginlega að gera hérna?
Kveðja,
Konni

27.4.07

Allir karlar verða að kunna að hnýta bindi

Eitt það mikilvægasta fyrir hvern einasta karl er að kunna hnýta bindishnút. Faðir minn kenndi mér þá list strax á unga aldri og hefur það nýst mér síðan. Konni kann meir að segja að hnýta slaufu og er það enn meiri list.
Hálsbindi er afar mikilvægt ef karlmaður ætlar sér að vera vel klæddur. Þetta sá Konni svart á hvítu síðastliðið fimmtudagskvöld. Það kvöld gerði Konni þá skissu að fara bindislaus á Sinfóníutónleika. Þegar á tónleikana kom blasti við Konna eigandi dýrustu herrafataverslunar landsins klæddur á heimsmælikvarða og að sjálfsögðu með bindi um hálsinn. Þá sá Konni að bindislaus var hann eins og buxnalaus maður. Það er orðin einhver lenska meðal karla hér á landi að ganga um bindislausir í jakkafötum. Þetta er ekki smart. Sennilega eru menn að reyna að vera frjálslegir. Við karlar eigum að taka þá sem hafa vit á klæðaburði, sbr. fyrrnefndan eiganda dýrustu tískuverslunar landsins, til fyrirmyndar og ganga með bindi.
Það er mjög mikið vandamál ef karlar kunna ekki að hnýta bindi. Verða þeir þá að leita á náðir vina og kunninga eða jafnvel eiginkvenna. Ég segi nú ekki að þetta sé jafn alvarleg vandamál og lesblinda eða getuleysi en það jaðrar við.
Ég hvet alla karla sem ekki kunna þessa list að nema hana hið fyrsta. Bindishnýtslu má auðveldlega læra. Ef Konni getur lagt sitt af mörkum þá mun hann veita ókeypis ráðgjöf hvenær sem er og hvar sem er.
Vonandi mun hæstvirtur frambjóðandi í 7. sæti Vinstri grænna í Norðurlandsumdæmi eystra nýta sér það.
Kv. Konni

22.4.07

Hvað ef grænt yrði blátt og blátt yrði grænt?

Til að ljúka við þessar pælingar mínar um útlit og traust langar mig til að velta því fyrir mér hvað myndi gerast ef Sjálfstæðismenn færu að lopapeysast eins og Vinstri grænir og Vinstri grænir færu að jakkafatast eins og Sjálfstæðismenn. Reyndar verður að taka fram eins og allir vita að útlitsmál flokkanna eru kannski ekki alveg svona svart og hvít. Ég hef t.d. ekki séð neinn Vinstri grænan í lopapeysu nýlega. Þar á bæ eru karlar almennt í jakkafötum og með bindi.
En ég veit að lesendur átta sig á hvað ég er að meina. Konni hefur ekki tekið klæðnað kvenna út á sama hátt. Kannski hafa þær frjálsari hendur?
Með útliti og klæðaburði eru frambjóðendur að höfða til sinna hópa. Þeir eru að höfða til fólks sem er með svipaðan smekk í hugsun og vilja samsama sig við stíl síns flokks. Sumum fannst t.d. töff að vera á Trabant í gamla daga á meðan öðrum fannst það alls ekki töff. Það voru meiri líkur á því að Trabanteigandi kysi Alþýðubandalagið heldur en Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem nú til dags eiga nýjan Volkswagen Golf með álfelgum eða Benz með álfelgum eru miklu líklegri til að Kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn passar miklu betur við Golfinn og Benzinn en t.d. Frjálslyndir eða Vinstri grænir. Vinstri grænir eiga miklu frekar látlausa fjölskyldubíla ekki splunkunýja en samt ekki endurunna.
Framsóknarmenn eru í augljósum vanda. Því fólki sem finnst töff að vera í Framsókn, einkum bændum og landsbyggðarfólki, fækkar alveg hrikalega ört. Þeir eru líka svo líkir Sjálfstæðimönnum og Samfylkingarfólki að kjósendur taka ekki eftir þeim. Framsóknarmenn vantar útlitslega sérstöðu ... vantar lit. Þeir skarta reyndar grænum lit að venju en hann nær bara ekki í gegnum þann bláa og þann rauða og græni litur Vinstri grænna ber með sér annað yfirbragð sem nær til fólks. Þeir skarta á einhvern hátt þroskaðri og trúverðugri grænum lit.
Það eru litirnir sem fólk tekur mark á, útlitið. Ef flokkarnir tækju sig nú saman og breyttu um stíl yrðu kjósendur kolruglaðir. Grænt yrði blátt og rautt yrði grænt.
Nú finnst mér að flokkarnir ættu að ráða Konna sem sérstakan stílista fyrir komandi kosningar ... gegn vægu gjaldi auðvitað.
Kveðja.
Konni

20.4.07

Kjósum hina velklæddu

Síðasti pistill hefur valdið Konna nokkru hugarangri. Var Konni plataður
eða ekki? Álitsgjafar síðunnar eru mjög misvísandi.
Reyndar gekk Konni aldrei svo langt að borða grænan banana með
hýðinu en það var eingöngu vegna þess að sá sem veitti Konna þessar
upplýsingar var ekki trúverðugur. Það er einmitt það sem veldur
hugarangrinu. Af hverju er venjulegur strákur sem sinnir skyldustörfum í
verslun ekki trúverðugur? Ef þetta hefði verið stelpa hefði
trúverðugleikinn aukist til muna.
Nú til dags er trúverðugleiki sumra stétta byggður upp á markvissan hátt.
Tökum til dæmis allan viðskiptabransann. Byrjendur sem ráðnir eru til
fyrirtækis fá strax birta af sér litla mynd í einhverju viðskiptablaðanna.
Þar er tíundaður ferill og menntun sem oft er, þrátt fyrir byrjanda, býsna
margslunginn. Svo koma jakkafötin og draktirnar og við fáum umsvifalaust
traust á svo vel menntuðu, margsigldu og lífsreyndu fólki sem þrátt fyrir
ungan aldur er komið í áhrifastöðu hjá fjármálafyrirtæki. Starfsfólk
viðskiptaheimsins kemur í Séð og heyrt þegar bankarnir halda árhátíðir eða
gala-veislur á borð við Stefnumót við stjörnurnar. Auglýsingar í blöðum
sýna þetta fólk alvarlegt í bragði vakandi yfir hag bankans, landsins og
allra Íslendinga. Svona fólk getur selt hverjum sem er hvað sem er.
Þetta er traust, hámenntað og umfram allt fólk með lúkkið í lagi og þið
getið verið viss um að það segir ekki miðaldra manni að borða græna banana
með hýðinu.
Nú eru einmitt að birtast heilsíðuauglýsingar frá stjórnmálaflokkunum með
fallegum myndum af frambjóðendum. Konni ráðleggur ykkur að skoða þessar
myndir vel. Hverjir koma best fyrir? Hverjum treystið þið best til að bera
hag okkar allra fyrir brjósti. Allt þetta sést á myndunum. Einhverjum
sérvitringnum kann að þykja það fullgilt að bjóða sig fram til Alþingis í
flauelsbuxum og lopapeysu en við Íslendingar viljum almennt fólk í
jakkafötum og dröktum. Hefði strákurinn í 10-11 verið í jakkafötum er
aldrei að vita nema Konni hefði bitið í grænan banana ... í einrúmi. Veika
hlið stráksins var hettupeysan. Konni ráðleggur lesendum að kjósa fólk sem
engar líkur eru á að reyna að telja ykkur trú um að borða græna banana með
hýðinu. Til þess að forða misskilningi þá er Konni ekki endilega að tala
um Vinstri græna þó þeir séu með heilsufæðislegaútlítandi konu framarlega
í flokki.
Kjósum hina velklæddu.
Kv.
Konni