20.4.07

Kjósum hina velklæddu

Síðasti pistill hefur valdið Konna nokkru hugarangri. Var Konni plataður
eða ekki? Álitsgjafar síðunnar eru mjög misvísandi.
Reyndar gekk Konni aldrei svo langt að borða grænan banana með
hýðinu en það var eingöngu vegna þess að sá sem veitti Konna þessar
upplýsingar var ekki trúverðugur. Það er einmitt það sem veldur
hugarangrinu. Af hverju er venjulegur strákur sem sinnir skyldustörfum í
verslun ekki trúverðugur? Ef þetta hefði verið stelpa hefði
trúverðugleikinn aukist til muna.
Nú til dags er trúverðugleiki sumra stétta byggður upp á markvissan hátt.
Tökum til dæmis allan viðskiptabransann. Byrjendur sem ráðnir eru til
fyrirtækis fá strax birta af sér litla mynd í einhverju viðskiptablaðanna.
Þar er tíundaður ferill og menntun sem oft er, þrátt fyrir byrjanda, býsna
margslunginn. Svo koma jakkafötin og draktirnar og við fáum umsvifalaust
traust á svo vel menntuðu, margsigldu og lífsreyndu fólki sem þrátt fyrir
ungan aldur er komið í áhrifastöðu hjá fjármálafyrirtæki. Starfsfólk
viðskiptaheimsins kemur í Séð og heyrt þegar bankarnir halda árhátíðir eða
gala-veislur á borð við Stefnumót við stjörnurnar. Auglýsingar í blöðum
sýna þetta fólk alvarlegt í bragði vakandi yfir hag bankans, landsins og
allra Íslendinga. Svona fólk getur selt hverjum sem er hvað sem er.
Þetta er traust, hámenntað og umfram allt fólk með lúkkið í lagi og þið
getið verið viss um að það segir ekki miðaldra manni að borða græna banana
með hýðinu.
Nú eru einmitt að birtast heilsíðuauglýsingar frá stjórnmálaflokkunum með
fallegum myndum af frambjóðendum. Konni ráðleggur ykkur að skoða þessar
myndir vel. Hverjir koma best fyrir? Hverjum treystið þið best til að bera
hag okkar allra fyrir brjósti. Allt þetta sést á myndunum. Einhverjum
sérvitringnum kann að þykja það fullgilt að bjóða sig fram til Alþingis í
flauelsbuxum og lopapeysu en við Íslendingar viljum almennt fólk í
jakkafötum og dröktum. Hefði strákurinn í 10-11 verið í jakkafötum er
aldrei að vita nema Konni hefði bitið í grænan banana ... í einrúmi. Veika
hlið stráksins var hettupeysan. Konni ráðleggur lesendum að kjósa fólk sem
engar líkur eru á að reyna að telja ykkur trú um að borða græna banana með
hýðinu. Til þess að forða misskilningi þá er Konni ekki endilega að tala
um Vinstri græna þó þeir séu með heilsufæðislegaútlítandi konu framarlega
í flokki.
Kjósum hina velklæddu.
Kv.
Konni

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Konni! Aldrei hefði ég trúað að þú létir blekkjast af útlitinu einu saman. Og hvað svo, jakkaföt eða dragt? Brúnt eða blátt? Áberandi eða hlutlaust bindi? Ekkert bindi? Hvað með holdafarið? Dökkt, ljóst eða ekkert hár? Og ekki gleyma skónum, lykilatriði í útlitinu! Ef greyin kvefast og verða rauðnefjuð - er þá traust þitt fokið út í veður og vind? Nei, varaðu þig á villandi útliti, forðastu hvítar dragtir og dökk jakkaföt. Þetta er allt saman sviðsetning, til þess ætluð að blekkja þig. Stattu þig strákur! tími lopapeysunnar og gúmmítúttanna er runninn upp - frambjóðendur þeirra eru bara í felum vegna hópþrýstings frá þér og þínum líkum.
p.s. Gleðilegt sumar

20 apríl, 2007 08:39  
Anonymous Nafnlaus said...

hahahahahah :-D

20 apríl, 2007 09:08  
Blogger Konni kynlegi said...

Sælar
Ha, getur þetta verið? Ég held að góðhjartað fólk í lopapeysum sé allt of gott til að stjórna. Við þurfum töff fólk sem heldur aga í samfélginu. Ég held t.d. að ef kennarar færu nú að klæða sig svolítið valdsmannslega yrði tími láglauna og agaleysis senn fyrir bí... eða kannski bý. (hvort er yfsiloní í þessu eða ekki?)
En ég er alveg til í að aflétta mínum hlut í hópþrýstingnum á hið góða fólk í lopapeysum.
Góðar stundir
Konni

20 apríl, 2007 11:44  
Anonymous Nafnlaus said...

Hér á Akureyri eru gefin út tvö blöð í anda Dagsskrár Prentarans. Nú síðast voru heilsíðuauglýsingar frá öllum fjórflokkunum þar sem sjá mátti efstu menn á lista hvers framboðs á hópmynd. Þó að engar vísbendingar hefðu verið frá hvaða flokki myndirnar væru og ef maður hefði ekki kannast við andlitin þá hefði samt verið hægur vandi að sjá hvaða flokkur átti hvaða auglýsingu. Fötin skapa framboðin.

Kveðja frá frambjóðandi í 7. sæti lopapeysuflokks sem auk þess reynir að fá fólk til að éta græna banana með lygasögum um siglda Íslendinga og simpasa.

20 apríl, 2007 13:21  
Blogger Konni kynlegi said...

Kæri frambjóðandi!
Þar sem ég vil með engu móti verða samfélgslegt afl með þessari bloggsíðu þá bið ég alla kjósendur í nafni hlutleysis að kjósa nú þá frambjóðendur sem koma vel fyrir á mynd en alls ekki á grundvelli málefna.Auðvitað verður hver kjósandi að fara eftir sínum eigin smekk á fólki og fötum við valið. Þetta er nefnilega hárrétt hjá frambjóðandanum í 7.þ sæti hver flokkur hefur sinn smekk eða sitt lúkk. Fólk velst í flokka eftir smekk. Það samsamar sig við hvort sem er innra eða ytra útlit flokksins. Hippar kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn og hvítflibbafólk kýs ekki Vinstri græna. Þetta fólk hefur bara ekki sama smekk. Samfylkingin er þarna mitt á milli. Þar reyna karlar t.d. að sýnast frjálslyndir með því að sleppa bindinu. Ef þú hefur smekk fyrir bindisleysi kýst þú Samfylkinguna. Framsóknarmenn eru ekki alveg nógu afgerandi í klæðaburði, ekki það að þeir séu ekki fínir og flottir í tauinu, það vantar bara sérkennið.
Þið sjáið af þessu að fólk kýs mikið eftir smekk á mönnum og málefnum.
Kv.
Konni

20 apríl, 2007 16:27  
Anonymous Nafnlaus said...

Nú er það svo að frambjóðandinn kann ekki að binda bindishnút og því eins gott að hann er ekki í fínuflokkunum.

Eitt sinn bjó frambjóðandinn í afskektum dal úti á landi. Hvað bindismál varðar þá var það einhver besti tími frambjóðandans því í næsta húsi bjó sjálfstæður barnakennari sem hnýtti bindishnjúta öðrum betur. Frambjóðandinn naut góðs af því og hefur ekki í annan tíma verið flottari í tauinu eins og með þennan faglega hnýtta bindishnút.

20 apríl, 2007 21:26  
Anonymous Nafnlaus said...

Er ekki bara eins með banana og menn, ef hýðið er orðið einlitt og dökkt eru þeir pottþétt farnir að rotna innan frá?

21 apríl, 2007 11:14  
Anonymous Nafnlaus said...

Ja, ég man þá tíð þegar Eiríkur í Dagverðargerði fékk starf á því háa Alþingi - reyndar þurfti hann ekki að ganga í gegnum eldraunir frambjóðenda - en samt sem áður sendi Sverrir Hermanns hann í bað og lét hann fara í betri gallann áður en hann tæki við starfinu.
Það er því greinilegt að við Austurvöll eru gerðar ákveðnar klæðakröfur og eins gott að menn venji sig bara strax á að fara reglulega í bað og klæða sig þokkalega ef þeir hyggjast sækja eftir störfum í Alþingishúsinu.

21 apríl, 2007 17:16  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl öll
Það kemur auðvitað ekki fram í auglýsingunum hversu hreinlegir frambjóðendur eru. Eiríkur bauð örugglega af sér betri þokka eftir baðið en fyrir bað. Traust hans margfaldaðist. Það hefði verið sómi af honum hvaða lista sem er í þá daga ... en ætli han hafi kunnað að hnýta bindishnút?
Meira um binidshnúta og einlitt og dökkt útlit í næstu pistlum. Adda kom þarna fram með athyglisverðan punkt. það er nú meira hvað þessi banana-pæling getur enst mér vel við pistlaskrif.
kv.
Konni

22 apríl, 2007 15:39  

Skrifa ummæli

<< Home