1.4.07

Ætlum við virkilega að lifa á fjallagrösum?

Konni fór í Laugardalslaugina í morgun. Nokkuð hressileg umræða í heita pottinum. Kona og maður á besta aldri rifust þar af kappi um álver. Maðurinn var auðvitað talsmaður álvers og virkjana en kona varðist fimlega enda á bandi þeirra sem vilja fara ögn hægar í álmálin. En haldið þið ekki að gamla fjallagrasaklisjan hafa ekki skotið þarna upp kollinum því þegar karlinn var kominn út í horn (reyndar er nú potturinn hringlaga) þá hóf hann gagnsókn með þeirri snjöllu spurningu hvort við ætlum þá bara að lifa á fjallagrösum og ganga í lopapeysum niður Laugaveginn. Kona svaraði þessu af fullum krafti og hló að karlinum. Sagði að þetta væri gamalt bragð sem ekki dygði lengur. Við það færðist karlinn allur í aukna og það síðasta sem ég heyrði af viðureign þeirra var að karlinn öskraði að konan væri lygari. Þá var ég nú reyndar kominn í annan pott. Konni er reyndar búinn að fá nóg af öskrum og illindum vegna umræðna um virkjana og álmál. Ástandið fyrir austan í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar var ekki alltaf skemmtilegt. Konni hitti mann að austan um daginn sem beitti sér mjög gegn öllum þeim framkvæmdum. Hann fullyrti að hann hefði alltaf verið látinn borga meira en aðrir hjá ýmsum einkareknum þjónustufyrirtækjum á Egilsstöðum. En nú hefur áliðnaðurinn náð kverkataki á Austurlandi. Hvernig verður brugðist við þar ef Alcoa hótar að loka álverinu eftir 40 ár ... nema það fái að stækka. Sem betur fer er atvinnuástand á Suðvestuhorninu betra og fjölbreyttara. Ekkert eitt fyrirtæki hefur þar tangarhald á atvinnulífinu eins og nú mun gerast á Austurlandi. Vonandi að það ævintýri gangi vel. Þetta voru góð úrslit í Hafnarfirði í gær nú gefst tími til að pæla.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Er eitthvað að því að lifa á fjallagrösum?

02 apríl, 2007 10:36  
Blogger Konni kynlegi said...

Kæra Rannveig
Við erum alveg sammála um það að gott sé að lifa af fjallagrösum og taka örlítið lýsi með. En ef ég heyri aftur þessi snilldarlegu rök gegn okkur sem viljum fara varlega í virkjanamálum þá ærist Konni.
kv
Konni

03 apríl, 2007 22:28  

Skrifa ummæli

<< Home