21.10.06

Mikill er máttur brjóstahaldara og síðra nærbuxna

Mikill er máttur brjóstahaldara. Rétt stærð af brjóstahaldara getur hækkað konur um 5 sentímetra og grennt þær um 5 kíló. Þessi frétt er í Blaðinu í dag. Í viðtali við konu sem er stílisti kemur fram að flestar konur séu óánægðar með líkama sinn en hún segir: ... að með réttu fötunum geturðu grennt þig, hækkað þig, minnkað rassinn og svo framvegis.
Í greininni er konum síðan gefin fimm góð ráð til að stækka brjóst og fjögur ráð til að minnka rass.
Klæðaburður er sjónhverfing er svo fyrirsögn greinarinnar. Já mikill er máttur brjóstahaldara.
Segjum sem svo að karl og kona felli hugi saman með þvílíkum smelli að óhjákvæmilega þurfi að fjarlægja brjóstahaldarann. Ef konan er með rétta stærð af brjóstahaldara má maðurinn búast við því að konan lækki um 5 sentímetra og þyngist um fimm kíló við þá athöfn. Slík skyndibreyting á konunni gæti komið á óvart og haft afdrifaríkar afleiðingar á sambandið. Væri því ekki bara betra fyrir konur almennt séð að ganga í vitlausri stærð af brjóstahaldara? Er ekki betra að líta út eins og maður er í raun heldur en að líta út eins og maður er ekki?
Hins vegar hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig við karlar gætum sjónhverft útlit okkar eins og konur. Hef ég komist að þeirri niðurstöðu að til að sýnast hærri en maður er í raun sé nauðsynlegt að ganga í réttri stærð af síðum nærbuxum. Til að sýnast styttri, ganga um í réttri stærð af íþróttabindi.
Önnur alvarleg líkamslýti sem stílistar kynnu að fetta fingur út í má sjálfsagt fela með ýmsu móti en stóra bumbu og rass mætti til dæmis hylja með því að læra til prests og ganga um í hempu.
Gaman væri ef lesendur legðu nú til góð til karla því hvers eiga þeir að gjalda?
Kveðja
Konni

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Bíddu, hafið þið ekki bæði Heiðar snyrti, Arnar hársnyrti og Svavar tískulöggu til að segja ykkur allt þetta. Þið hlustið bara ekki.

21 október, 2006 23:26  
Blogger Rannveig said...

Ég man að Heiðar bannaði körlum að ganga í hvítum sokkum því þá sýndust þeir lágvaxnari. Lágvaxnir karlar eiga heldur ekki að ganga i buxum með uppábroti.
En ég held að besta leiðin til að líta vel út sé að venja sig á að ganga beinn í baki. Inn með magann og rétta úr bakinu - þá held ég að sé trixið.

22 október, 2006 10:44  
Blogger Rannveig said...

æi, Konni málfarsráðunautur, þarna stendur þá í staðinn fyrir það.

22 október, 2006 10:45  

Skrifa ummæli

<< Home