18.12.06

Öll örvun er leikur að eldi

Alltaf heyrir maður eitthvað nýtt. Konni var fyrir nokkru að segja ykkur frá því að hann ætti Shakespere komplett ónotaðan/ólesinn upp í hillu. Veldur þetta ritsafn honum nokkru hugarangri því í hvert sinn hann lítur þessar bækur er eins og hann spegli sig í eigin andleysi og heimsku.
Kannski ætti hann að láta vaða og byrja á kallinum því Konni var einmitt að lesa á mbl.is að breskir vísindamen hefðu komist að því að ritstíll Shakesperes örvi heilann. Þetta eru stórtíðindi fyrir Konna. Fyrir fram nefið á honum er sem sagt tæki til heilaörvunar og það ónotað. Með lestri ritsafnsins slær hann tvær flugur í einu höggi, yfirvinnur Shakeperes-fælnina og fær í kaupbæti ný-örvaðan heila.
Konni hefur reyndar nokkrum sinnum reynt að ná taki á meistaranum en ekki alveg áttað sig á þræðinum. Eftir nokkrar blaðsíður þarf Konni að byrja á öllu upp á nýtt því söguþráður og persónur snarsnúast í heilanum á honum.
Heili Konna er greinilega ekki nógu örvaður ... þar vantar mikið á.
Það liggur því beinast við að hefja lesturinn strax í kvöld og þræla sér í gegnum ritsafnið sem fyrst.
En ...
Hvað hefur Konni með það að gera að örva heilann? Þetta er vafasöm tilraun. Hvaða áhrif mun ný-örvaður heili hafa á Konna? Mun Konni verða betri maður, standa í stað eða jafnvel verða verri maður. Getur verið að þeir sem hafi lesið allt ritsafn Shakesperes séu oförvaðir? Hefur persónuleiki þeirra breyst? Hafa þeir farið á einhvern yfirsnúning? Hafa þeir kannski dáið af oförvun?
Allar örvanir eru að mati Konna hættulegar. Getur verið að Shakespere virki á heilann eins og dónablöð virka á önnur líffæri? Úps!
Þetta verður að rannsaka. Allavega þorir Konni ekki að byrja á Shakespere fyrr en þessum spurningum hefur verið svarað.
Kveðja,
Konni

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Sæll Konni, segjum bara eins og meistari Allen: "My brain, it's my second favorite organ"
Kveðja, Jón Gunnar og Hebbi

18 desember, 2006 22:27  
Blogger Konni kynlegi said...

Kæru félagar
Meistari Allen kemst svo oft meistaralega beint að kjarnanum.
Bið að heilsa Hebba
Konni

20 desember, 2006 14:45  

Skrifa ummæli

<< Home