Íþróttafréttamenn ...æ ææææ
Það er tvennt sem fer mjög í tugarnar á Konna þessa dagana hvað fréttir
varðar. Það eru fréttir af fjármálaheiminum og svo íþróttafréttir. Konni
var á sínum tíma óforbetranlegur íþróttaáhugamaður en nú er öldin önnur.
Fréttir af íþróttum eru nefnilega mjög óþarfar og þróttafréttamenn
algjörlega óþarfir fréttamenn. Íþróttafréttamenn flytja fréttir af
ómerkilegustu íþróttakeppnum eins og um heimsviðburði sé að ræða. Jafnvel
Íslandsmót í körfubolta kvenna verður tilefni til þess að þeir setja sig í
þessar leiðinda æsingastellingar, hækka róminn og fara svo í þennan
óþolandi accelerando fasa sem endar með upphrópun eða gleðistunu yfir að
einhver hafi nú komið í mark á undan einhverjum öðrum á nýju
Austurlandsmeti. Hvað kemur okkur það við?
Hvað kemur mér við þó einhver Sigríður í einhverju körfuboltaliði úti á
landi hitti tíu sinnum í körfuna en tapar samt? Hvað kemur mér það við ef
einhver kylfingur dettur úr keppni á Spáni eftir niðurskuð, hvað sem það
nú er? Það þættu meiri tíðindi ef hann dytti úr keppni eftir umskurð. Hvað
kemur mér við þó einhver fótboltamaður í KR eða Val sé búinn að vera
meiddur á ökkla í tvö ár en sé nú loksins að ná sér á strik? Hvað kemur
mér það við þó West Ham sé að falla niður í fyrstu deild á Englandi? Sama
er mér. Hvað kemur mér það við hvort skíðamenn detti á rassinn í fyrri
umferðinni í heimsbikarmótinu Garmen Partsénkirkjen? Afrek almennings eru síðan algjörlega hunsuð. Um síðustu helgi fór fram Vasagangan í Svíþjóð. Þar var fríður hópur Íslendinga. Hvergi hef ég séð minnst á afrek þeirra í íþróttapistlum fjölmiðlanna.
Ég legg til íþróttafréttir verði eingöngu birtar í textavarpinu og í
prentmiðlum því þá sleppur maður allavega við íþróttafréttamennina.
Þó eru tveir íþróttafréttamenn sem mættu alveg halda velli á skjánum eða í
útvarpinu. Það eru þeir Sigurður Sigurðsson og Bjarni Felixson. Þeir tveir
bera höfuð og herðar yfir aðra kollega sína. Sigurður er reyndar allur
fyrir mörgum árum en það eru örugglega til gamlar upptökur með honum sem
mætti endurflytja. Ég hefði einnig mjög gaman af því að heyra Bjarna Fel
lesa upp úrslit úr ensku knattspyrnunni frá tímabilinu 1988-1999, árið sem
Liverpool vann ensku deildina síðast.
Kveðja,
Konni
4 Comments:
Veistu það Konni minn að ég myndi alveg lifa góðu lífi þótt það væru ekki íþróttafréttir. Og þessi enski bolti, maður minn, fullt af fullorðnum körlum hlaupandi um og svo þegar minnst varir hoppa þeir hver upp á annana og faðmast.
Þetta hefði nú þótt frekar furðuleg framkoma í minni sveit.
Svo kaup og sala á fótboltamönnum eins og fréttir af fiskimarkaði. Hvort skyldi kg af þorski eða fótboltamanni vera hærra um þessar mundir?
sko, það má alveg segja fréttir af einhverjum íþróttum mín vegna, en að það þurfi sér tíma í hverjum einasta fréttatíma - tja, mig dreymir um daginn sem Elín Hirst lítur til hliðar og segir: Og jæja, hvað hefurðu að segja okkur úr menningunni?
Upplestur á öllum mögulegum og ómögulegum úrslitum í norsku og sænsku fótboltasparki og einhverju þaðan af fjarlægara mættu náttúrlega gersamlega missa sín. Til hvers halda þessir menn að textavarp sé?
Gott!
Sé að ég á mér marga stuðningsmenn í þessum efnum. En Hildigunnur, ég er sammála þér í þessu með menninguna. En hefur þetta fólk þekkingu til að fjalla um menningu. Það hampar bara bílskúrsböndum og menntaskólavæli í Kastljósi svo ég minnist nú á mitt áhugamál þ.e. tónlistina.
kv
Konni
já, það þyrfti náttúrlega að vera menningarfréttamaður með viti sem sæti í stólnum...
Skrifa ummæli
<< Home