4.3.07

Um neyðarlega útrás

Um daginn skrifaði Konni pistil um kaup Íslendinga á West Ham. Svo virðist vera að þessi leikur þeirra með milljarða sé að verða eitt neyðarlegasta fyrirbæri svokallaðrar útrásar íslenskra auðmanna. Reyndar var frétt um það í blöðunum í gær að Bakkavararbræður séu nú ekki allir þar sem þeir eru séðir. Framkoma bræðranna við verkafólk sem starfar í verksmiðjum þeirra á erlendri grundu er kennd við nútíma þrælahald. Bakkavararbræður eru bara svo góðlegir menn af myndum að sjá, að ég trúi þessu ekki á þá.
En eigendur West Ham eru aldeilis í vondum málum því það er ekki nóg með að kaupa þeirra á félaginu hafi nú lyktað af leik með peninga þ.e. fjárhættuspili heldur logar allt félagið af slíkri iðju. Tveir leikmenn félagsins hafa þurf að leita sér hjálpar vegna spilafíknar og jafnvel í rútunni á leið í leiki er spilað upp á peninga. Okkar maður, stjórnarformaður West Ham, sem einu sinni bakaði Frón-kex hefði bara átt að halda sig við baksturinn því samkvæmt grein í breska blaðinu Observer á hann ekki sjö dagana sæla, einangraður frá leikmönnum, knattspyrnustjórinn í öngum sínum og ekkert blasir við nema fall um deild og stórtap á fjárfestingunni. Að kaupa fótboltafélag er ekkert annað en fjárhættuspil þeirra sem eiga svo mikla peninga að Lottóið dugar þeim ekki. Við hin fáum þó allavega smá útrás við að spila í Lóttóinu í von um fyrsta vinning ... dagslaun einhvers West Ham-leikmannsins.
Við föllum allavega ekki um deild þó við vinnum ekki ... bara nokkrir hundraðkallar hafa þá runnið óskiptir til íþróttamála. Er það ekki göfugt? Íþróttir eru svo mikil forvörn.
Kveðja,
Konni

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home