24.10.06

Kona sem skýtur með vinstri

Samfylkingin er flokkur sem ætti að höfða til flestra. Flokkurinn er nefnilega þeirrar náttúru að vera með og á móti öllum málum. Það hentar vel okkur sem fylgjumst með hinum kynlegu hliðum tilverunnar. Nú alveg á næstunni ætlar flokkurinn að velja fólk á lista fyrir kosningarnar í vor. Reyndar er í gildi auglýsingabann hjá flokknum svo það er ekki nema á færi stjórnmálafræðinga og leyniþjónustusérfræðinga að þefa uppi hverjir vilja á þing fyrir Samfylkinguna.
Það er nú annað ástandið hjá Sjálfstæðisflokknum. Flenniauglýsingar af dásamlegu fólk.
Um daginn sá ég í eigin persónu rektor háskóla nokkurs í Reykjavík þylja lofþulu um sjálfa sig fyrir fram hóp af fólki á sjálfum Austurvelli. Fólkið var vopnað kvikmyndavél, ljósum, hljóðupptökugræjum og stórum spegli sem endurvarpa átti ljósi á skuggahlið rektorsins. Það er sko ekkert auglýsingabann á þeim bæ. Það er óskandi að auglýsing rektorsins hafi tekist vel.
En þar sem Samfylkingin vill hafa sitt fólk fyrir sig og sína og auglýsa alla jafnt sé ég mig knúinn að auglýsa einn frambjóðanda umfram aðra því sá frambjóðandi má ekki falla milli stafs og hurðar. Reyndar varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa jafnaðarmennsku hjá Samfylkingunni því ég var búinn að hanna auglýsingaherferð fyrir þá sem hér um ræðir. Herferð sem hefði örugglega skilað henni á þing. En ég verð víst að lát nægja þessa bloggsíðu Konna kynlega. Sú sem hér verður auglýst er kona, mikil kostakona og brátt alþingiskona. Kona sem er sannkallaður hvelreki fyrir flokkinn, frábær málsvari lítilmagnans og glöð kona í alla staði. Þetta er Jónína Rós,menntaskólakennari á Egilsstöðum og fyrrverandi barnakennari á Hallormsstað. Annáluð glæsikona til hugar og handa, dönsku- og stærðfræðikennari og hestakona. Nína fer ekki í grafgötur með skoðanir sínar. Nína hefur afgerandi skoðanir og mun því eiga sinn þátt í að rétta kúrs Samfylkingarinnar Jónína er nefnilega ekki með og á móti öllum málum. Þó það þyki gott að geta skotið bæði með hægri og vinstri í fótbolta hentar það ekki í stjórnmálum. Jónína skýtur bara með vinstri. Í handbolta þykir það ótvíræður kostur að geta kastað með vinstri. Skot frá vinstri kemur andstæðingunum alltaf á óvart.
Jónína Rós hefur mikla reynslu af því að koma fram og kemur vel fyrir sig orði. Hennar minnast Vallamenn af þorrablótum á Iðavöllum og fyrir mörgum árum var Nína í hlutverki Fjallkonunnar á 17. júní á Egilsstöðum fór sú athöfn fram í tjaldi í Egilsstaðaskógi.
Nýlega barst mér bréf frá Nínu. Okkar hugmyndir um störf á hinu háa Alþingi fara alveg saman svo mér er það mikið kappsmál að veldi hennar verði sem mest. Ég birti bréfið með leyfi forseta. Bréf Nínu er svohljóðandi:
Kæri Konni!
Mun innleiða hugmyndir þínar á hið háa Alþingi ef mér verður treyst til setu þar. Er innilega sammála þér um að ástríður eru eldsneyti frjórrar hugsunar og hvers kyns skemmtilegheita. Áfram Konni.
Kveðja frá Nínu í prófkjöri
Austfirðingar, í guðanna bænum kjósið Nínu á þing!
Ykkar Konni

10 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ekki spurning

24 október, 2006 15:10  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér þykir samt svolítið leiðinlegt að Nína lætur þess ekki getið þegar talin eru upp frægðarverk hennar að hún var stofnfélagi í Gleðikvennafélagi Vallahrepps. Við Nína erum báðar stofnfélagar í því ágæta félagi. Svo erum við líka báðar stofnfélagar í Soroptimistaklúbbi Austurlands og ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að Nína flaggi því meira. Samt er það félagsskapur sem var fundinn upp úti í heimi en Gleðikvennafélagið var fundið upp á milli Hallormsstaða og Egilsstaða.
En það er ekki spurning að Nína á að fara á þing.

24 október, 2006 15:52  
Blogger Konni kynlegi said...

Þið segið þetta með Gleðikvennafélagið. Ég var nærri því búinn að minnast á það en hélt að það yrði henni ekki til framdráttar. Framdráttur gleðikvenna er nefnilega svo vandmeðfarið fyrirbæri.
kv
Konni

24 október, 2006 21:09  
Anonymous Nafnlaus said...

Framdráttur, úrdráttur eða aðdráttur - hvaða dylgjur eru þetta með Gleðikvennafélagið - heiðvirður félagsskapur sem þegar hefur átt fulltrúa á Alþingi auk þess sem einn meðlimurinn er nú bara doktor við Oslóarháskóla. Þetta er ekki neinn slordónafélagsskapur.

24 október, 2006 22:53  
Anonymous Nafnlaus said...

Jón minn, þú verður ráðinn kosningastjóri minn þegar slagurinn hefst fyrir alvöru þegar snjóa fer að leysa og daginn að lengja!

25 október, 2006 15:44  
Anonymous Nafnlaus said...

En Nína mín verður þá ekki prófkjörið búið??? Og Konni kannski líka eftir að vera búinn að nota alla krafta sína á Þorrablóti Vallamanna.

25 október, 2006 17:16  
Anonymous Nafnlaus said...

Er búin að setja Konna sem stuðningsmann nr. 1 inn á síðuna mína!!
Þú ert frábær Konni.

26 október, 2006 11:49  
Blogger Konni kynlegi said...

Kæra Nína
Mikið þakka ég þér fyrir þetta. Það er mér mikil gleði að geta stutt við þig í baráttunni. Þegar þú verður orðin ráðherra vænti ég astoðarmannsembættis...ekki satt?
kv
Konni

26 október, 2006 12:18  
Blogger Tóta said...

Ég bætti frú Jónínu inn á aðdáendalistann - greinilega búin að vinna sér sess þar.

26 október, 2006 20:18  
Anonymous Nafnlaus said...

Konni er greinilegar vinsæll af kvenþjóðinni - sérstaklega tiltekinna kvenna í tilteknu kvenfélagi.

26 október, 2006 23:12  

Skrifa ummæli

<< Home