26.3.07

Langir og leiðinlegir íþróttapakkar

Jæja, það var eitt fyrsta verk þeirra hjá RÚV ohf. að undirrita samning við menntamálaráðherra um að sú ágæta stofnun skuli gæta kynjajafnréttis í íþróttafréttum. Það er svo sem gott og blessað. Íþróttir hafa alltaf einhvern óskiljanlegan forgang í fjölmiðlum umfram allt annað sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Um daginn var í tíu fréttum sagt frá því að landsþekktir listamenn hefðu heimsótt Fjarðarbyggð og jafnvel boðið börnum upp á kennslu í list sinni. Ekkert var minnst á í texta fréttarinnar hverjir þessir listamenn voru en myndin með fréttinni upplýsti að þarna voru Diddú og Jónas Ingimundarson á ferðinni. Þessi frétt fékk sennilega svona tíu sekúndna umfjöllun en á eftir henni kom svo auðvitað langur og leiðinlegur íþróttaPAKKI eins og það er víst kallað.
Íþróttapakki! Það er látið líta svo út eins og það sé einhver gjöf til þjóðarinnar að sýna tíu mínútur frá körfubolta kvenna.
Hvernig væri að RÚV og menntamálaráðherra undirrituðu samning um að menning fengi jafn mikla umfjöllun í fréttum fyrirtækisins eins og íþróttir? Yrði ekki verulegur fengur af slíkum samningi? Hvenær fáum við langan menningarpakka?
Konni er pirraður á íþróttafréttum, íþróttamönnum og eilífum golffréttum af Birgi Leif Hafþórssyni á hinum og þessum mótum út um hvippinn og hvappinn þar sem hann er ýmist á pari eða undir pari eða yfir pari eða komst í gegnum niðurskurð eða komst ekki í gegnum niðurskurð eða golfsetinu hans var stolið.
Ætli RÚV ohf. og menntamálaráðherra skrifi svo ekki undir fleiri íþróttasamninga? Hvernig væri þá að gera samning um að jafnræði skuli vera milli landshluta í íþróttafréttum?
Nei annars, þetta var slæm hugmynd ... þá fengjum við yfir okkur endalausar fréttir af borðtennismótum á Raufarhöfn eða glímumótum í Bolungarvík eða golfmótum byrjenda, sundmótum í Vík í Mýrdal og bandýmótum í Reykjavík. Það yrðu langir og óbærilegir íþróttapakkar.
Getur ekki eitthvert framboð tekið það upp á sína arma að losa okkur við íþróttapakka.
Kv.
Konni

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

RÚVSPORT er lausnin ! Sér rás fyrir allar íthróttir.

kvedja frá T&S

26 mars, 2007 15:03  

Skrifa ummæli

<< Home