27.2.07

Gelding Laugarvegarins

Konni er einlægur vinur Laugavegarins. Nú eru blikur á lofti. Borgaryfirvöld núverandi og sérstaklega fyrrverandi hafa haft uppi áform um niðurrif gamalla húsa í stórum stíl. Þetta niðurrif mun á endanum gera Laugaveginn að náttúrulausri götu. Gelding Laugavegarins var blessuð af því fólki sem Konni hélt að hefði smekk fyrir umhverfinu þ.e. R-listanum. Konni hélt að það hefði verið einmitt það fólk sem bjargaði Grjótaþorpinu og Bernhöftstorfunni. Kannski það sé vitleysa en allavega lagði R-listinn drög að geldingu götunnar.
Hvert förum við þegar við erum stödd í borgum eða litlum bæjum á erlendri grundu? Jú, við förum í gömlu bæjarhlutana. Jafnvel borgir sem voru sprengdar í tætlur í stríðinu hafa verið endurbyggðar í gömlum stíl. Við Reykvíkingar erum hins vegar orðnir svo samdauna slömmarkitektúrnum sem marka flest ný hverfi borgarinnar að enginn segir neitt þegar rústa á þeirri götu sem ætti að vera okkur hjartfólgnust. Reyndar hefur Konni smekklausa eigendur þessara lóða grunaða að þrýsta verulega á yfirvöld en þeir sem ráða eiga að vaka yfir velferð borgarinnar. Álíka slys er að verða að veruleika á gamla slippsvæðinu. Ef til vill er ástæðuna að finna í almennu sinnuleysi okkar og smekkleysi. Fagurfræði er okkur ekki í blóð borin það eru helst bókmenntirnar sem við Íslendingar kunnum eitthvað á.
Nýju hverfi borgarinnar eru í einu orði sagt ómanneskjuleg. Ég þekki konu sem flutti úr vesturbænum og upp í Grafarholt. Hún fékk sjokk. Hver fer í bíltúr eða göngutúr upp Grafarvog? Hver sækir sér andlega upplyftingu í Breiðholtið eða Kópavog? Svo ætla menn að rústa Laugaveginum.
Konni er reiður!
Kveðja
Konni

7 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

ég er reyndar hætt við að vera á móti breytingum á Frakkastígsreit. Þar gæti nefnilega átt eftir að koma bygging sem yrði gríðarleg lyftistöng fyrir miðborgina...

28 febrúar, 2007 09:22  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl
Já, það getur verið en ég er fyrst og fremst að hugsa um fagurfræðina eða arkitektúrinn. Það er gott ef líf færist í borgina. Ég veit reyndar ekki enn hvort mér finnst ráðhúsið passa. Það hefur sína góðu og slæmu hliðar. TM-húsið sem reis á grunni Fjalarkattarins er dæmi um slæm skipti. Hins vegar pirrar hótelið sem er hægra megin við Morgunblaðshúsið mig ekki eins mikið.
Nýja hotelið á horni Aðalstrætis og Túngötu er í lagi ja nema Túngötuhliðin.
Kv.
Konni

28 febrúar, 2007 10:14  
Anonymous Nafnlaus said...

Æ, hvað það var gott að fá pistil frá þér Konni minn ! Hélt þú værir steinhættur öllum vangaveltum um lífið og tilveruna, Laugaveginn og almennan dónaskap. En veistu nokkuð hver keypti Hvítasunnudaginn eftir Kjarval ?

01 mars, 2007 15:59  
Anonymous Nafnlaus said...

Elsku Konni minn ekki vera reiður, það er svo mannskemmandi. Veistu hvað þú getur gert? Þú getur bara farið upp í Árbæ og skoðað gömlu húsin sem hafa verið sett þar í formalín.
Heyrðu, svo kemur þú bara austur og kíkir á Djúpavog. Þar er ekki stefnan að rífa gömlu húsin.

01 mars, 2007 18:01  
Blogger Konni kynlegi said...

Sælar
Ekki veit ég hver keypti Kjarval. Sá á allavega mikla peninga. Hann hefur líka meira veggpláss en Konni sem ekki kemur öllum Kjarvölunum sínum fyrir. En af hverju eru ekki frægir Íslendingar smurðir eins og Lenín og hafðir til sýnis á Árbæjarsafninu?
Kv.
Konni

02 mars, 2007 08:20  
Blogger Hildigunnur said...

hmmm, Rannveig, gott að það er ekki verið að rífa hús á Djúpavogi. En það að fara á safn og skoða gömul hús kemur aldrei í staðinn fyrir lifandi fallegan miðbæ sem fær að halda gömlu húsunum sínum. Safn er bara safn.

02 mars, 2007 08:25  
Blogger Konni kynlegi said...

Sammála! Safn er bara safn.
kv
Konni

02 mars, 2007 11:27  

Skrifa ummæli

<< Home