27.4.07

Allir karlar verða að kunna að hnýta bindi

Eitt það mikilvægasta fyrir hvern einasta karl er að kunna hnýta bindishnút. Faðir minn kenndi mér þá list strax á unga aldri og hefur það nýst mér síðan. Konni kann meir að segja að hnýta slaufu og er það enn meiri list.
Hálsbindi er afar mikilvægt ef karlmaður ætlar sér að vera vel klæddur. Þetta sá Konni svart á hvítu síðastliðið fimmtudagskvöld. Það kvöld gerði Konni þá skissu að fara bindislaus á Sinfóníutónleika. Þegar á tónleikana kom blasti við Konna eigandi dýrustu herrafataverslunar landsins klæddur á heimsmælikvarða og að sjálfsögðu með bindi um hálsinn. Þá sá Konni að bindislaus var hann eins og buxnalaus maður. Það er orðin einhver lenska meðal karla hér á landi að ganga um bindislausir í jakkafötum. Þetta er ekki smart. Sennilega eru menn að reyna að vera frjálslegir. Við karlar eigum að taka þá sem hafa vit á klæðaburði, sbr. fyrrnefndan eiganda dýrustu tískuverslunar landsins, til fyrirmyndar og ganga með bindi.
Það er mjög mikið vandamál ef karlar kunna ekki að hnýta bindi. Verða þeir þá að leita á náðir vina og kunninga eða jafnvel eiginkvenna. Ég segi nú ekki að þetta sé jafn alvarleg vandamál og lesblinda eða getuleysi en það jaðrar við.
Ég hvet alla karla sem ekki kunna þessa list að nema hana hið fyrsta. Bindishnýtslu má auðveldlega læra. Ef Konni getur lagt sitt af mörkum þá mun hann veita ókeypis ráðgjöf hvenær sem er og hvar sem er.
Vonandi mun hæstvirtur frambjóðandi í 7. sæti Vinstri grænna í Norðurlandsumdæmi eystra nýta sér það.
Kv. Konni

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ætli ég hafi ekki verið eini karlinn sem var með bindi í hátíðarkvöldverði Samtaka fámennra skóla í gærkvöldi? Hmmm ... aftur á móti þegar tveir Ingólfar mættu í bleikri skyrtu gat sá þriðji ekki annað sótt bleiku skyrtuna upp á herbergi. Sá fjórði tók ekki þátt í slíkri múgsefjun :-)
IÁJ

28 apríl, 2007 19:29  
Anonymous Nafnlaus said...

Mikill lúxus er að vera kona og þurfa ekki að kunna að binda bindishnút...., að vísu þarf ég stundum að hjálpa dóttur minni að binda á sig bindið þegar hún ætlar að vera fín á hesti í hvítum reiðbuxum og með bindi, svo kannski þurfa bara allir að kunna að binda bindishnút?? Hvernig var með hugmyndir þínar um þessa list sem eitt helst verkefni lífsleiknikennslu???

29 apríl, 2007 16:41  
Anonymous Nafnlaus said...

Heyrðu Konni, ég hef séð svona bindi fyrir unga drengi sem eru tilbúin með hnút og öllu, en það er það er á teygju. Það er svo hentugt. Þú ættir að fá þér svoleiðis því þá getur þú gengið um bindislaus og frjálslegur en svo þegar þú sérð svona fína menn sem þú þarft að punta þig upp fyrir þá bara skellir þú teygjubindinu upp.

30 apríl, 2007 11:09  
Anonymous Nafnlaus said...

Konni þarf ekki teygjubindi. Fáir menn eru leiknari í þeirri kúnst að binda bindishnút en Konni. Frambjóðandinn er einn af aðdáendum Konna og þá ekki síst vegna þess hversu vel hálstau leikur honum í hendi, ekki ólíkt því er flautuleikari fer fimum fingrum um flautu sína.

Þar sem ég er ekki lengur í nábýli við Konna er ljóst að ég þarf að komast sem fyrst á námskeið hjá honum í þessum fræðum og ætla ég því að þiggja boðið við fyrsta hentugleika. Ég get ekki verið púkó framyfir fimmtugt!

Kveðja góð frá frambjóðanda VG í sjöundasæti í sveitakjördæmi Norður í landi.

03 maí, 2007 09:01  
Blogger Konni kynlegi said...

Kæru vinir
Tölvan hefur verið í lamasessi.
En frambjóðendurnir báðir eru velkomnir á námskeið ... samt ekki teygjubindanámskeið Rannveig.
kv.
Konni

03 maí, 2007 10:17  
Anonymous Nafnlaus said...

eg var ad leita ad, takk

16 janúar, 2010 14:23  

Skrifa ummæli

<< Home