4.5.07

Bindi og sinfóníutónleikar

Konni fór á alveg frábæra sinfóníutónleika áðan og nú voru engar feilnótur slegnar í klæðaburði eins og á síðustu tónleikum. Jakkaföt og bindi voru það og hvítvín fyrir frúna í hléi. Hljómsveitin spilaði frábærlega vel. Bindið gerði hins vegar gæfumuninn. Þarna voru reyndar mjög margir vel klæddir karlar og enn fleiri vel klæddar konur. Bindi og Beethoven/Brahms fara vel saman. Reyndar var ég að heyra það í útvarpinu að bindi geti verðið smitberar. Einhver rannsókn sem gerð var í Tælandi gaf það til kynna að bindi séu sjaldan þvegin. Læknar ættu því alls ekki að bera bindi er þeir fara milli sjúklinga á stofugangi. Bakteríur og veirur eins sjúklings geta loðað við bindið og smellt sér á næsta sjúkling sem síðan gefur frá sér smit á bindi læknisins sem hoppar svo á þriðja sjúklinginn. Þannig gengur þetta koll af kolli þangað til læknirinn hefur smitað allan spítalann með bindinu. Reyndar skyldi maður ætla að þetta væri atvinnuskapandi fyrir lækna.
Þá er betra að vera með slaufur eins og karlkyns meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það er mjög ólíklegt að bakteríur og veirur hoppi á milli þar á bæ. Allavega voru engin veikindamerki á meðlimum hljómsveitarinnar í kvöld. Hins vegar slitnaði strengur í sellói en tæpast verður það rakið til hálstaus hljómsveitarmeðlima.
Kveðja,
Konni

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert svo yfirmenningarlegur Konni minn að ég veit ekki alveg hvernig ég á að ávarpa þig.
Komið þér sælir herra Konráð kynlegi von Reykjavík - er þetta ekki bara í áttina.
Ég hlusta bara á vindinn í trjánum, fulgasöng og mjálmið í kisu.

06 maí, 2007 12:19  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl Rannveig
það er nú ekk slæmt að una sér við fuglasöng og vindganginn á Héraði. Hér í bænum eru mótórhjólin að vakna til lífsins. Niðurinn frá þeim hefur vissan sjarma. Þú ætti að fá þér mótorhjól og þá er ég ekki að meina neina skellinöðru. Fína fólkið hér ekur um á fimmmilljónafákum ... minnst. Þú yrðir nú flott á Vallaveginum á fimmmilljónafák. Þá gætir þú kannski skákað hrossunum hans Magnúsar á Úlfsstöðum og löggurnar með sínar hraðmyndavélar gætu tekið af þér góðar hraðamyndir.
Kv.
Konni

07 maí, 2007 08:27  

Skrifa ummæli

<< Home