28.10.06

Elskum niður verðbólguna eða er ást hagkvæm?

Að mínu mati felst mesti fjársjóður hvers samfélags í þeirri orku sem ástin er. Þess vegna hlýtur ást að vera hagkvæm fyrir þjóðarbúið. Og það sem meira er samlíf hjóna styrkir ónæmiskerfið, það hafa rannsóknir sýnt. Fólk sem iðkar samlíf af krafti þarf síður á samfélagslegri þjónustu að halda. Öflugt samlíf hjóna stórbætir andann í samfélaginu og hjón eða sambúðaraðilar af öllu tagi ættu að njóta samfélagslegrar umbunar ef sýnt er fram á líflega samlífsiðkun. Þetta ættu frjálshyggjumenn jafnt sem jafnaðarmenn að athuga.
Ef ég væri á þingi myndi ég koma á fót Samlífsstofnun sem hefði þær skyldur að mæla samlíf í samfélaginu. Daglega yrði birt vísitala samlífs sem hefði beina tengingu við stýrivexti Seðlabankans. Eftir því sem þjóðin elskaðist meira því lægri yrðu vextirnir. Þjóðin gæti sem sé elskað niður verðbólguna. Þannig yrði verðbólgan í höndum okkar allra. Einhleypt fólk gæti svo lagt sitt af mörkum með samfélagslegri ást eða kærleika af ýmsu tagi. Samlífsvísitalan yrði birt í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna þannig að öll pör landsins gætu gengið til náða vitandi til hvers væri ætlast af þeim.
Stöðvum verðbólguna!

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hver ætti að fylgjast með og mæla ? Yrði ekki að koma á fót einhvers konar "Perrastofnun" til að fylgjast með athöfnum fólks ?
Ný stétt yrði til, menn sem áður voru utangarðs, fengju nú löggildingu starfs síns. Perri, deildarperri eða yfirperri !!

29 október, 2006 13:18  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef heyrt um nokkrar svona perra í Hlíðunum, þeir gætu orðið nýtir samborgarar.
Annars er ég að spá í hvort ást á gæludýrum gæti valdið verðbólguhjöðnun. Hvað með ást á sjálfum sér? Matarást?

29 október, 2006 16:03  
Anonymous Nafnlaus said...

Frábær hugmynd Jón, þegar ég kemst á þing, legg ég fram frumvarp til laga um Samlífsstofnun sem hefði svipað lagaumhverfi og Skipulagsstofnun og mælistikurnar hannaðar eftir svipuðu kerfi. Væri ekki fínt fyrir þig að verða forstöðumaður Samlífsstofnunarinnar?

30 október, 2006 13:55  
Blogger Konni kynlegi said...

Sælar allar
Þakka góð viðbrögð...sérstaklega verðandi þingkonu.
Hver á að mæla? Perrar? Ja, ég var nú meira að hugsa um stafræna útfærslu t.d. mælitæki tengd við t.d. hjónarúm...órekjanlega að sjálfsögðu.
En perrar gætu þarna fengið löggildingu starfsheitis t.d. Samlífsskoðunarmaður.
kv
Konni

30 október, 2006 18:54  

Skrifa ummæli

<< Home