4.11.06

Takið þingmannsefni í fóstur

aÍ gamla daga í sveitinni fór maður á kjörstað og skrifaði niður nöfn þeirra sem manni leist best á að myndu nú stjórna hreppnum skynsamlega. Ekki man ég eftir að nokkur maður hefði haft samband við mig og beinlínis beðið mig um að kjósa sig.
Nú er öldin önnur. Stjórnmálamenn auglýsa sig grimmt þessa dagana. Margir vilja á þing. Enginn veit hver borgar þessar auglýsingar. En að sjálfsögðu eru einhverjir sem sjá sér hag í því að þessi eða hinn komist á þing. Einn af þeim er ég. Ég vil alveg endilega að Jónína Rós komist á þing. Það er minn hagur. Þá þekki ég loksins almennilega einhvern þingmann. Þekki reyndar Össur og Þuríði og Einar Má, jú og auðvitað Kötu Ásgríms varaþingkonu, en ekki svona almennilega eins og Jónínu Rós. Það er málið.
Þegar ég er búinn að auglýsa hana svona mikið á síðunni minni, henni að kostnaðarlausu, þá á ég líka inni hjá henni stórgreiða. Allavega lít ég þannig á málið.
Ég gæti orðið söngstjóri í þingmannaveislum eða Samfylkingarpartíum samið leikrit fyrir ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, málað myndir í þingflokksherbergið, þjálfað hlaupaklúbb þingmanna eða orðið einkabílstjóri Jónínu þegar hún verður orðin ráðherra.
Enn eitt er víst að ef þið leggið ekki þingmannsefnum lið með einum eða öðrum hætti í prófkjörum missið þið af frábæru tækifæri til að komast til áhrifa.
Áskorun!
Takið þingmannsefni í fóstur eins og ég.
Ykkar Konni

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef nú reynt að hlúa að Nínu í kosningabaráttunni og minnst á hana í mínu bloggi - ég hef bara ekki fattað að ég gæti komið til áhrifa í þjóðfélaginu með því.
Kannski verður málverkasýning í þingflokksherberginu þegar þú verður búinn að hengja myndirnar upp, kannski verður hátíðleg opnun og mér boðið.
Þetta er mikið tilhlökkunarefni. Annars mættir þú alveg mála mynd af Lötu Grétu og kisu handa mér ef þig skortir verkefni. Slík mynd færi vel á heimili mínu.

04 nóvember, 2006 19:06  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl Rannveig
Hef ekki málað mynd í háa herrans tíð. Kannski þetta verði til að koma mér af stað aftur.
kv
Konni

05 nóvember, 2006 09:45  

Skrifa ummæli

<< Home