2.12.06

Bókaverslunarpælingar

Gaman, gaman ... nú streyma bækurnar úr prentvélunum. Mér finnst dálítið skemmtilegt að rangla inn í bókabúðir á þessum árstíma því þar svigna borðin undan bókastöflunum. Það er gaman að kanna þessa stafla.
Bókabúðir eru menningarstofnanir. Þar er rétta stemningin til að skoða bækur.
Ég á mjög erfitt með að kaupa bækur í Bónus og öðrum matvöruverslunum þó verð bóka þar sé oft mun lægra en í bókabúðunum, hvernig sem nú á því stendur. Ef til vil erum við að greiða niður bækurnar með matvöruverðinu. Ef til vill erum við að borga Bónus-bækurnar niður allt árið svona smátt og smátt. Það finnur enginn fyrir hundraðkalli hér og hundraðkalli þar. Kannski eru Bónuskallarnir bara svona góðir við okkur og alla hina. Sletta ódýrum bókum í okkur fyrir jólin og nokkrum milljónum í UNICEF og þá eru allir ánægðir. Að kaupa bók í Bónus er eiginlega hálfgert framhjáhald.
Sem betur fer virðast bókabúðir lifa sæmilegu lífi þrátt fyrir þessa samkeppni um jólin. Eða skiptir það kannski engu máli hvar maður kaupir hvað svo framarlega að maður fái það ódýrt? Væri samt ekki svolítið kynlegt að kaupa ódýran hamborgarahrygg í Máli og menningu?
Kveðja
Konni

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Veistu það Konni ég held ég gæti aldrei keypt mér bók í Bónus. Mér finnst betra að kaupa bók í Kaupfélaginu þó svo að ég geti keypt mér hangilæri í leiðinni. Veist af hverju mér finnst þetta? Það er af því að ég get keypt bækur allan ársins hring í Kaupfélaginu, ekki bara á "bókavertíðinni" en í Bónus get ég bara keypt bækur rétt í há vertíðinni.
Ég segi eins og þú þetta er hálfgert framhjáhald. Kannski er ég of mörkuð af því að ganga um í Mál og Menning eða Eymundson og skoða bækur og þá ekkert endilega í desember. Alveg eins bara í maí.
Svo held ég að hún Gunnhildur dóttir mín myndi fá slag ef hún fengi frá mér Bónusbók í jólagjöf.

03 desember, 2006 18:45  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl Rannveig
Ég vissi að hjörtu okkar myndu slá í takt í þessu máli. Kaupfélagið er menningarverslun sem bækur eru kaupandi í líkt og Mál og menning og Eymundsson. Bónus er bara ekki rétti staðurinn fyrir bókakaup. Bónus sinnir ágætlega sínu hlutverki sem matvörubúð og þvottaefnisbúð.
Kv.
Konni

04 desember, 2006 09:15  

Skrifa ummæli

<< Home