4.12.06

Göngum veg gleðinnar með fábrotinn smekk

Mikið er Konni feginn að vera með frekar fábrotinn smekk. Hann hefur tekið eftir því að fólk með góðan smekk er eiginlega alltaf fúlt. Góður smekkur leiðir af sér svo gagnrýna hugsun að ekkert nema það besta þykir réttmæt ástæða fyrir smá gleði.
Þeir sem eru hins vegar með fábrotinn smekk gleðjast yfir litlu. Tökum nokkur dæmi.
Þeir sem eru með fábrotinn tónlistarsmekk gleðjast yfir öllu nema því sem er langt og þungt og sannarlega leiðinlegt. Þeir sem hafa fábrotinn bókmenntasmekk þurfa ekki hástemmd ljóð eða Íslendingasögurnar til að ylja sér við. Slíkt fólk gleðst yfir textum Lónlí Búbojs og Gylfa Ægissonar. Þeir sem hafa vondan myndlistarsmekk gleðjast yfir einföldum fallegum myndum og velmáluðum en þurfa ekki Feneyjarbínealinn til að stökkva hæð sína af gleði. Fólk með lélegan vínsmekk gleðst yfir ódýrum vínum. Þarf ekki að dýfa nefinu í vínið, sér engan tilgang í leikfimiskúnstum með glösin eða umhellingum og litbrigði vínsins skiptir það engu máli. Nei, þetta fólk nýtur þess að drekka ódýrt vín og gleðst. Fólk með lélegan smekk á bílum getur glaðst yfir ódýrustu gerð af Toyota eða notuðum Lada sport en þarf ekki BMW eða Bens til að koma sér milli staða. Þeir sem hafa lélegan smekk fyrir fólki geta látið sér líka vel við ljótt fólk en þurfa ekki Herra Ísland eða alheimsfegurðardrottningar til að gleðjast yfir.
Já, mikið er Konni þakklátur fyrir að hafa fábrotinn smekk. Þess vegna er Konni líka alltaf svo glaður ... þarf ekki að burðast með góðan smekk. Konni ráðleggur því fólki með dýran og góðan smekk að taka upp breytta siði og ganga gleðinnar veg með okkur hinum.
Kveðja,
Konni

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég hélt að þetta væri sjálfstæður smekkur en ekki lélegur!! kv Adda

04 desember, 2006 18:13  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl kæra Adda
Menn geta haft sjálfstæðan góðan smekk og líka sjálfstæðan lélegan smekk.
Svarar þetta spurningu þinni?
Kv.
Konni

04 desember, 2006 18:17  
Anonymous Nafnlaus said...

Hver á að dæma? Í mínum huga er fólk með sjálfstæðan smekk stórbrotið, burtséð frá því hvað mér finnst um smekk þess. Þú er sem sagt stórbrotinn í mínum augum;o) Fábrotið fólk er að mínu mati það fólk sem telur þá fábrotna sem hafa annan smekk en það sjálft;o) kv. Adda óbrotna

04 desember, 2006 19:53  
Anonymous Nafnlaus said...

Adda, þú færð prik fyrir þetta !

05 desember, 2006 08:14  
Anonymous Nafnlaus said...

Konni, teljarinn er kominn í 2000, ég hlýt að eiga orðið 2 Mozartkúlur hjá þér !

05 desember, 2006 08:17  
Blogger Konni kynlegi said...

Kæra Tóta!
Þó það nú væri, tvær Mozartkúlur eru nú í minna lagi. Kassi væri nú meira við hæfi.
Já, hún Adda hittir naglann á höfuðið ... nú sem endranær.
Kær kveðja,
Jón G

05 desember, 2006 08:21  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hef fábrotinn og einfaldan smekk og mun heimsækja Tótu þegar Mozartkúlurnar koma í hús.

05 desember, 2006 08:43  
Blogger Konni kynlegi said...

Sælar
Verst er að þið hafið allt of góðan smekk fyrir súkkulaði. Ég gæti útvegað margar plötur af suðusúkkulaði fyrir einn kassa af Mozartkúlum.
Konni

05 desember, 2006 10:17  

Skrifa ummæli

<< Home