18.3.07

Listaháskóli Austurlands

Um helgina auglýsti álverið á Reyðarfirði eftir trommuleikara. Ég hélt kannski að hlutverk hans yrði það sama og trommuleikaranna á galeiðum Rómverja þ.e. slá taktinn fyrir þrælana sem réru skipunum. Er Konni leit betur á auglýsinguna sem var römmuð inn með andlistmyndum skælbrosandi álversstarfsmanna sá hann að trommuleikaranum var ætluð staða í árshátíðarhljómsveit álversins. Já það er greinilega gaman að vinna í álveri. Ef miðað er við aðrar starfsmannaauglýsingar fyrirtækisins er mér hulið hvenær álið verður brætt. Sennilega þegar árshátíðarhljómsveitin tekur pásur eða milli móta í skákklúbb fyrirtækisins eða milli laga hjá álverskórnum eða í hálfleik hjá knattspyrnuliðum Alcoa. Álverið á Reyðarfirði er sannarlega menningarfyrirtæki. Konni er reyndar dálítið svekktur að fá ekki boð um að verða fyrsti flautuleikari álversins því fyrst það hefur metnað til að koma sér upp danshljómsveit hlýtur það að ætla tónlistarmönnum fyrirtækisins að róa á ögn listrænni mið. Alcoa verður að koma sér upp sinfóníuhljómsveit. Alcoa verður líka að koma sér upp leikhúsi og Alcoa verður að koma sér upp listmálurum og ljóðskáldum. Ég vissi alltaf að álverið myndi lyfta atvinnu- og menningarlífi á Austurlandi í hæðir. Það réttlætir svo sannarlega eyðilegginguna á heiðum uppi, rafmagnsgirðingarnar sem þvera Fljótsdal og Skriðdal, endursköpun Lagarfljóts og Jökulsár og svona smá einelti.
Já, Austurland verður í framtíðinni svo sannarlega rammað inn af brosandi og glöðum starfsmönnum Alcoa sem una glaðir við listsköpun sína í faðmi álbræðslunnar. Trommuleikarinn er vonandi bara upphafið hjá þessum vísi að Listaháskóla Austurlands.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home