26.11.06

Það rignir ekki alveg jafnt á réttláta og hina ranglátu

Nú eru menn heldur betur farnir að leika sér með milljarðana. Tveir íslenskir bubbar keyptu enskt knattspyrnufélag. Menn eru orðnir svo ríkir að þeir geta bókstaflega leikið sér með peninga. Kaup á knattspyrnufélagi eru í mínum huga ekkert annað en fjárhættuspil því öll vitum við að gengi slíkra félaga er fallvalt jafnvel þó íslensk ofursnilli sé í spilinu.
Hér í gamla daga var til hugtak sem var mikið notað en það er hugtakið arðrán. Alþýðan vissi að það var hún sem borgaði fyrir flottræfilshátt og bruðl yfirstéttarinnar. Alþýðan gerði svo byltingar til að rétta kúrsinn. Hugtakið arðrán er sjaldan eða aldrei notað nú á dögum jafnvel þó yfirstéttin á Íslandi leiki sér með milljarðana á hugvitsamlegan hátt. Fljúgi um á einkaþotum, aki um á rándýrum sérvöldum bifreiðum, byggi sér sumarbústaði á stærð við villur í Arnarnesinu, byggi sér hallir, kaupi upp sveitir landsins og eigi fiskinn í sjónum.
Hugtakið arðrán dúkkar aldrei upp á yfirborðið. Nei, alþýðan fagnar og gleðst yfir dugnaði og snilli yfirstéttarinnar.
Mikið hefur breyst síðan í gamla daga þegar menn gerðu franskar og rússneskar byltingar. Þá var svo augljóst hvar uppspretta auðsins var. Nú fagnar alþýðan því það er eins og auður þessara manna rigni af himnum ofan. Fyrst það hellirignir á hina réttlátu þá gætu líka nokkrir dropar fallið á hina ranglátu. Það er von alþýðunnar árið 2006.

Kveðja,
Konni
PS. Hvaðan koma svo milljarðarnir sem yfirstéttin leikur sér með?

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ertu að verða kommúnisti, Konni minn ?

26 nóvember, 2006 14:48  
Blogger Konni kynlegi said...

Meir en það! Ég er að breytast í byltingarsegg.
kv.
Konni

26 nóvember, 2006 15:00  
Blogger Rannveig said...

Æi, Konni minn farðu nú ekki að gera byltingu, þú veist að byltingin étur börnin sín og ég myndi sakna þín ef svo færi.

26 nóvember, 2006 20:58  
Anonymous Nafnlaus said...

Hún þakkar það líka að geta keypt í matinn í Bónus, hver myndi annars gefa henni að borða?

Ég skal taka með þér eina byltu!

Kerla

26 nóvember, 2006 21:47  
Blogger Konni kynlegi said...

Ég þakka Kerlu fyrir samstöðuna og býst jafnvel við Tótu og Rannveigu í byltuna. Eftir það verður bara sjá hvern byltingin éti.
Kv
Konni

27 nóvember, 2006 15:52  

Skrifa ummæli

<< Home