30.12.06

Fara gáfur eftir höfuðlagi?

Konni fór í leikhús í vikunni. Fyrir framan hann sátu þrír karlmenn, allir sköllóttir. Þar sem Konni var kominn tímanlega í salinn og svo sem lítið við að vera nema virða fyrir sér leikhúsgesti var Konni áður en hann vissi af kominn í djúpar pælingar um höfuðlag þessara manna. Höfuðlag þeirra var á margan hátt afar myndrænt og skoðunar virði. Konni hafði til dæmis ekki áður áttað sig á hvernig eyrun eru eins og vaxin út úr höfuðleðrinu. Eyru okkar eru mjög kynleg en falleg sköpun. En aftur að höfuðlaginu.
Einn þessara manna var með frekar kúlulaga höfuðkúpu meðan hinir tveir voru með ílanga. Sá með kúluhausinn er þekktur maður einkum og sérílagi fyrir gáfur. Konna fannst höfuðlag þessa manns bera með sér að hann hafi nóg pláss fyrir heilann. Ekkert ætti að þrengja að. Heilinn hans hefur nóg pláss. Heilar hinna mannanna hljóta að vera ílangir eins og höfuðlagið því heilinn hlýtur að fylla út í allt það rými sem hann er skapaður í. Allavega dinglar heilinn aldrei laus og aldrei hefur Konni heldur heyrt af því að heilinn sprengi af sér höfuðkúpuna.
Svona án þess að þekkja hina tvo gat Konni ekki varist þeirri hugsun að heilar þeirra hefðu ekki sama svigrúm og heili þess með kúluhausinn ... og þá vaknaði spurning sem gaman væri að fá svar við. Skyldu gáfur fara eftir höfuðlagi? Hugsanlega þrýstir þröng höfuðkúpa á einhverjar stöðvar eða kemur í veg fyrir að þær þroskist almennilega á meðan rúm höfuðkúpa leyfir heilanum að þroskast á fullkominn hátt.
Er mikið rými höfuðkúpunnar forsenda fyrir miklar gáfur?
Kæru vinir, lítið í kringum ykkur og kannið þetta nú fyrir mig.
Kveðja,
Konni

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Forfeður okkar hafa líka velt þessu fyrir sér en ekki komist að niðurstöðu, sbr. heimskur er jafnan höfuðstór, lítið vit í litlum kolli. En þarna er það stærðin en ekki höfuðlagið sem menn setja sem orsakavald.
Konni, ef þú heyrir orðin hjartalaga Mozartkonfekt, hvað dettur þér þá í hug?

30 desember, 2006 10:17  
Blogger Konni kynlegi said...

Ja, þú segir það ...heimskur er höfuðstór!
Mozart var séní kannski hann hafi verið með hjartalaga heila.
Kv.
Konni

30 desember, 2006 12:15  

Skrifa ummæli

<< Home