"... og aldrei það kemur til baka"
Konni getur andað léttar því enn eitt ár hefur gengið áfallalaust fyrir sig. Eiginlega þakkar Konni fyrir hvern áfallalausan dag því áföllin geta dunið yfir fyrirvaralaust. Maður þarf ekki annað en að renna á hinum mörgu hálu svellum lífsins til að allt fari úr skorðum.
Þá er bara að draga andann djúpt og stinga sér inn í næsta ár.
Völvur keppast þessa dagana við að greina okkur frá því sem árið 2007 muni bera í skauti sér. Samkvæmt völvu Vikunnar á sumarið ekki að verða neitt sérstakt nema þá helst á Austurlandi. Þetta hefði nú Konni getað sagt ykkur. Völvan segir að það verði stjórnarskipti í vor. Það hefði nú Konni getað sagt ykkur líka. Konni hefði líka getað sagt ykkur að á árinu verði veisluhöld á Bessastöðum og einhver átök verði í kringum Davíð Oddsson og Ingibjörgu Sólrúnu.
Við erum öll meir eða minna skyggn á framtíðina ... að minnsta kosti á það fyrirsjáanlega. Guð einn veit allt hitt þó sem betur fer sé hann tregur til að troða upp með það á síðum Vikunnar. Ekki vil ég vita hvað næsta ár ber í skauti sér. Leyfum því bara að koma og tökum því sem að höndum ber.
Gleðilegt ár kæru vinir!
Konni
5 Comments:
Æ, hvað ég er sammála þér Konni. Maður myndi ekki fara á fætur 15. maí ef það lægi ljóst fyrir að þetta er dagurinn þegar maður misstígur sig á þröngum vegi dyggðarinnar. Svo til öryggis myndi maður ekkert fara út úr húsi vikuna á undan ef spádómurinn væri ekki alveg réttur. Loks getur maður líka spurt hvort maður myndi bara nokkuð læra á lífinu ef maður hefði tök á að forðast öll mistökin sem maður gerir.
En takk fyrir skrifin þín á árinu og ef það varst þú sem sendir mér hjartalaga Mozartkonfektið þá þakka ég þér fyrir það.
Sæll Konni. Vikan er vont blað. Þessar spurningar, hver ert þú, svaraðu ABCD, ertu góð í rúminu, ertu góð vinkona eru kannski í lagi fyrir 14-16 ára stúlkur, en enga aðra. Stjörnuspeki, Völvan o.s.frv. er álíka þvættingur. Fólk sem hefur gaman að þessari vitleysu svo maður tali nú ekki um trúir henni ætti að athuga tilveru sína alvarlega. Kveðja Jón Gunnar
Já, gleðilegt ár bæði tvö og öll hin. Sammála!
Ekkert að þakka Rannveig.
Kv.
Konni
Sæll Konni minn og gleðilegt ár ! Það hefur komið mér verulega á óvart hversu LÍTIÐ ég hef þurft að ritskoða skrif þín hér. Þori samt ekki að hætta eftirliti alveg strax, aldrei að vita hvenær menn lenda út af sporinu.
Sæl frú Drönkenbolt
Nei, sem betur fer hefur Konni kunnað sig þokkalega. En gott er að hafa vökul augu sem fylgjast með skrifunum ef svo skyldi fara að Konni færi út af sporinu.
kv.
Konni
Skrifa ummæli
<< Home