3.1.07

Konni og Þórður vinur hans

Það bendir margt til þess að Konni sé illa innrættur. Konni hefur af því nokkrar áhyggjur. Þetta vonda innræti á sér ýmsar birtingarmyndir. Ein þeirra er sú að Konni getur ekki varist talsverðri gleði þegar enska kanttspyrnuliðið West Ham tapar. Þessi tegund gleði er stundum kölluð Þórðargleði. Það er ekki það að Konni hafi haft horn í síðu þessa félags í gegnum tíðina. Þessar kenndir komu fyrst fram eftir að tveir íslenskir kaupsýslumenn keyptu félagið fyrir marga marga milljarða.
Af hverju getur Konni ekki staðið með þessum tveimur löndum sínum og haldið með West Ham? Þetta eru duglegir menn. Þeir hafa orðið ríkir fyrir eigin tilverknað. Ekki hafa þeir tekið neitt frá Konna. Ekki á Konni neitt sökótt við þá.
Samt sem áður stekkur Konni hæð sína er West Ham tapar.
Konni hefur reynt að komast til bonts í þessu vegna þessa að Þórðargleðin er byggð á öfund og vondu innræti og vont innræti veikir sennilega ónæmiskerfið, styttir lífið og er örugglega synd þar að auki.

Mikið óskaplega hlakkaði í Konna er West Ham tapaði sex núll núna um daginn.
Kannski er þetta samneyti Konna við Þórð vin sinn komið til af því að Konni er pirraður á auðmönnum sem spreða peningum í heimskuleg verkefni. Kaupin á West Ham var heimskulegt verkefni. Það kostaði þessa gæja tíu milljarða, í það minnsta, að kaupa sér aðgang að heldrimannaklúbbum í London. Síðan ætluðu þeir með sínum íslensku töfrafingrum að breyta vatni í vín og gera West Ham að svokölluðu Meistaradeildarliði á nokkrum árum. Það er hlaupin einhver oftrú í kollinn á sumum íslenskum fjármálaspekúlöntum.
Kæru vinir, ef illa fer, hver borgar þá brúsann?
VIÐ!
Þrátt fyrir það að vitleysan lendi á mér sem viðskiptavini Landsbankans, ætlum við Þórður að fagna vel og innilega við hvert tap West Ham.
Já, Konni er illa innrættur.
Kveðja,
Konni

3 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Fyrir rúmum tíu árum man ég eftir manni í krísu vegna þess að Liverpool tapaði 6-0. Kannski á einhver í svipaðri krísu núna út af West Ham !!

Annars er ég eiginlega sammála þér - þeir hefðu frekar átt að lækka hjá okkur vextina, eða hjálpa einhverjum sem þurfa á því að halda.

05 janúar, 2007 10:56  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl
Man nú reyndar ekki eftir þessu 6núll tapi Liverpool svo ég á erfitt með að setja mig í spor WH-manna núna. En vorkenni stuðningsmönnunum ... ekki eigendunum. Þeir halda að allt verði að gulli sem þeir snerta.
kv
K-Onni

05 janúar, 2007 13:26  
Anonymous Nafnlaus said...

Veistu það Konni að það lýsir bara eigin vanlíðan að hlakka yfir óförum annarra. Reyndu að hressa þig við og þú átt að gleðjast þegar öðrum gengur vel, þá kannski gengur þér líka vel.
Hvað heldur þú að þeim í WH sé ekki líka slétt sama hvað þér finnst? Þú ert bara að sóa tíma þínum í neikvæðar hugsanir.
Hugsaðu frekar um komandi Vallablót, láttu tilhlökkunina flæða um sálina og þú ert á grænni grein.

08 janúar, 2007 08:53  

Skrifa ummæli

<< Home