Varið ykkur á dónunum
Einu sinni samdi Konni gamanbrag um konu sem seldi Bleikt og blátt og önnur tímarit í símsölu. Konan sat á kvöldin við símann og vélaði landsmenn til að gerast áskrifendur. Þessi gamanbragur sem Konni samdi og flutti á þorrablóti Vallamanna dró þann dilk á eftir sér að konan, í krafti stöðu sinnar sem símsölukona, hefndi sín fyrir braginn og gerði Konna að áskrifanda að Bleiku og bláu að honum forspurðum.
Skömmu eftir blót fór tímaritið Bleikt og blátt að berast til Konna í stöflum því hann fékk nefnilega nokkra árganga í kaupbæti ... og ekki nóg með það heldur fékk hann svo með fyrsta eintakinu tæki sem var allt í senn skrúfjárn, upptakari og töng.
Þó Bleikt og blátt hafi í upphafi átt að vera kynfræðslublað til að þroska kynlíf landans og að mestu skrifað af saklausum kynhjúkrunarfræðingum þróaðist það nú þannig að dónaskapurinn varð fræðslunni yfirsterkari svo Konni sá sig knúinn til að koma sér út úr þessu klandri með því að segja blaðinu upp, sem hann og gerði.
Það eina sem er eftir af þessum hrekk símsölukonunnar er fjölnota tækið sem hann fékk með fyrsta tölublaðinu.
Nú ætla allir helstu dónar heims að flykkjast til Íslands á næstunni. Konni ráðleggur öllum að forðast í lengstu lög að semja um þá gamanbragi og verða alls ekki á vegi þeirra. Þeir gætu nefnilega flækt þig í einhvern af sínum útsmognu dónavefjum án þess að þú hafir hugmynd um. Það er ekki einu sinni víst að það fylgi töng/skrúfjárn/upptakari með í kaupbæti sem mætti þá nota til að losa sig úr ósómanum.
Verður annars búandi í höfuðborginn á næstunni þegar heimsins svæsnasti dónaskapur og sori bætist ofaná allt svifrykið?
Kveðja,
Konni
5 Comments:
Konni minn, ekki flýja borgina þrátt fyrir klámið. Þú veist að það verða að vera einhverjir sem eru 0% dónalegir til að sporna við soranum.
Sæl
Jú það er satt ... en það er eins gott fyrir okkur höfuðborgarbúa að gleyma ekki að loka buxnaklaufinni því annars verðum við umsvifalaust taldir til dóna.
kv.
Konni
Ertu kominn með ritstíflu, Konni minn ?
Taktu gleði þína Konni minn. Dónarnir eru hættir við að koma. Og hverjum er það að þakka???? BÆNDASAMTÖKUNUM
Kæru konur og dónabanar!
Ég þakka hvatningar. Konni var ekki með ritstíflu. Tölvan er bara alltaf í notkun þegar andinn er yfir Konna. Var svo búinn að búa til pistil um daginn sem Bloggerinn vildi bara ekki. Í tvo daga reyndi ég að koma honum á vefinn en ekkert gekk. Þetta var nú reyndar ekkert sérlega góður pistill svo það gerði ekkert til. En þessi sem ég birti núna er snilld...held að allir verði sammála mér um það.
kv
Konni
Skrifa ummæli
<< Home