Allir karlar verða að kunna að hnýta bindi
Eitt það mikilvægasta fyrir hvern einasta karl er að kunna hnýta bindishnút. Faðir minn kenndi mér þá list strax á unga aldri og hefur það nýst mér síðan. Konni kann meir að segja að hnýta slaufu og er það enn meiri list.
Hálsbindi er afar mikilvægt ef karlmaður ætlar sér að vera vel klæddur. Þetta sá Konni svart á hvítu síðastliðið fimmtudagskvöld. Það kvöld gerði Konni þá skissu að fara bindislaus á Sinfóníutónleika. Þegar á tónleikana kom blasti við Konna eigandi dýrustu herrafataverslunar landsins klæddur á heimsmælikvarða og að sjálfsögðu með bindi um hálsinn. Þá sá Konni að bindislaus var hann eins og buxnalaus maður. Það er orðin einhver lenska meðal karla hér á landi að ganga um bindislausir í jakkafötum. Þetta er ekki smart. Sennilega eru menn að reyna að vera frjálslegir. Við karlar eigum að taka þá sem hafa vit á klæðaburði, sbr. fyrrnefndan eiganda dýrustu tískuverslunar landsins, til fyrirmyndar og ganga með bindi.
Það er mjög mikið vandamál ef karlar kunna ekki að hnýta bindi. Verða þeir þá að leita á náðir vina og kunninga eða jafnvel eiginkvenna. Ég segi nú ekki að þetta sé jafn alvarleg vandamál og lesblinda eða getuleysi en það jaðrar við.
Ég hvet alla karla sem ekki kunna þessa list að nema hana hið fyrsta. Bindishnýtslu má auðveldlega læra. Ef Konni getur lagt sitt af mörkum þá mun hann veita ókeypis ráðgjöf hvenær sem er og hvar sem er.
Vonandi mun hæstvirtur frambjóðandi í 7. sæti Vinstri grænna í Norðurlandsumdæmi eystra nýta sér það.
Kv. Konni