27.4.07

Allir karlar verða að kunna að hnýta bindi

Eitt það mikilvægasta fyrir hvern einasta karl er að kunna hnýta bindishnút. Faðir minn kenndi mér þá list strax á unga aldri og hefur það nýst mér síðan. Konni kann meir að segja að hnýta slaufu og er það enn meiri list.
Hálsbindi er afar mikilvægt ef karlmaður ætlar sér að vera vel klæddur. Þetta sá Konni svart á hvítu síðastliðið fimmtudagskvöld. Það kvöld gerði Konni þá skissu að fara bindislaus á Sinfóníutónleika. Þegar á tónleikana kom blasti við Konna eigandi dýrustu herrafataverslunar landsins klæddur á heimsmælikvarða og að sjálfsögðu með bindi um hálsinn. Þá sá Konni að bindislaus var hann eins og buxnalaus maður. Það er orðin einhver lenska meðal karla hér á landi að ganga um bindislausir í jakkafötum. Þetta er ekki smart. Sennilega eru menn að reyna að vera frjálslegir. Við karlar eigum að taka þá sem hafa vit á klæðaburði, sbr. fyrrnefndan eiganda dýrustu tískuverslunar landsins, til fyrirmyndar og ganga með bindi.
Það er mjög mikið vandamál ef karlar kunna ekki að hnýta bindi. Verða þeir þá að leita á náðir vina og kunninga eða jafnvel eiginkvenna. Ég segi nú ekki að þetta sé jafn alvarleg vandamál og lesblinda eða getuleysi en það jaðrar við.
Ég hvet alla karla sem ekki kunna þessa list að nema hana hið fyrsta. Bindishnýtslu má auðveldlega læra. Ef Konni getur lagt sitt af mörkum þá mun hann veita ókeypis ráðgjöf hvenær sem er og hvar sem er.
Vonandi mun hæstvirtur frambjóðandi í 7. sæti Vinstri grænna í Norðurlandsumdæmi eystra nýta sér það.
Kv. Konni

22.4.07

Hvað ef grænt yrði blátt og blátt yrði grænt?

Til að ljúka við þessar pælingar mínar um útlit og traust langar mig til að velta því fyrir mér hvað myndi gerast ef Sjálfstæðismenn færu að lopapeysast eins og Vinstri grænir og Vinstri grænir færu að jakkafatast eins og Sjálfstæðismenn. Reyndar verður að taka fram eins og allir vita að útlitsmál flokkanna eru kannski ekki alveg svona svart og hvít. Ég hef t.d. ekki séð neinn Vinstri grænan í lopapeysu nýlega. Þar á bæ eru karlar almennt í jakkafötum og með bindi.
En ég veit að lesendur átta sig á hvað ég er að meina. Konni hefur ekki tekið klæðnað kvenna út á sama hátt. Kannski hafa þær frjálsari hendur?
Með útliti og klæðaburði eru frambjóðendur að höfða til sinna hópa. Þeir eru að höfða til fólks sem er með svipaðan smekk í hugsun og vilja samsama sig við stíl síns flokks. Sumum fannst t.d. töff að vera á Trabant í gamla daga á meðan öðrum fannst það alls ekki töff. Það voru meiri líkur á því að Trabanteigandi kysi Alþýðubandalagið heldur en Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem nú til dags eiga nýjan Volkswagen Golf með álfelgum eða Benz með álfelgum eru miklu líklegri til að Kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn passar miklu betur við Golfinn og Benzinn en t.d. Frjálslyndir eða Vinstri grænir. Vinstri grænir eiga miklu frekar látlausa fjölskyldubíla ekki splunkunýja en samt ekki endurunna.
Framsóknarmenn eru í augljósum vanda. Því fólki sem finnst töff að vera í Framsókn, einkum bændum og landsbyggðarfólki, fækkar alveg hrikalega ört. Þeir eru líka svo líkir Sjálfstæðimönnum og Samfylkingarfólki að kjósendur taka ekki eftir þeim. Framsóknarmenn vantar útlitslega sérstöðu ... vantar lit. Þeir skarta reyndar grænum lit að venju en hann nær bara ekki í gegnum þann bláa og þann rauða og græni litur Vinstri grænna ber með sér annað yfirbragð sem nær til fólks. Þeir skarta á einhvern hátt þroskaðri og trúverðugri grænum lit.
Það eru litirnir sem fólk tekur mark á, útlitið. Ef flokkarnir tækju sig nú saman og breyttu um stíl yrðu kjósendur kolruglaðir. Grænt yrði blátt og rautt yrði grænt.
Nú finnst mér að flokkarnir ættu að ráða Konna sem sérstakan stílista fyrir komandi kosningar ... gegn vægu gjaldi auðvitað.
Kveðja.
Konni

20.4.07

Kjósum hina velklæddu

Síðasti pistill hefur valdið Konna nokkru hugarangri. Var Konni plataður
eða ekki? Álitsgjafar síðunnar eru mjög misvísandi.
Reyndar gekk Konni aldrei svo langt að borða grænan banana með
hýðinu en það var eingöngu vegna þess að sá sem veitti Konna þessar
upplýsingar var ekki trúverðugur. Það er einmitt það sem veldur
hugarangrinu. Af hverju er venjulegur strákur sem sinnir skyldustörfum í
verslun ekki trúverðugur? Ef þetta hefði verið stelpa hefði
trúverðugleikinn aukist til muna.
Nú til dags er trúverðugleiki sumra stétta byggður upp á markvissan hátt.
Tökum til dæmis allan viðskiptabransann. Byrjendur sem ráðnir eru til
fyrirtækis fá strax birta af sér litla mynd í einhverju viðskiptablaðanna.
Þar er tíundaður ferill og menntun sem oft er, þrátt fyrir byrjanda, býsna
margslunginn. Svo koma jakkafötin og draktirnar og við fáum umsvifalaust
traust á svo vel menntuðu, margsigldu og lífsreyndu fólki sem þrátt fyrir
ungan aldur er komið í áhrifastöðu hjá fjármálafyrirtæki. Starfsfólk
viðskiptaheimsins kemur í Séð og heyrt þegar bankarnir halda árhátíðir eða
gala-veislur á borð við Stefnumót við stjörnurnar. Auglýsingar í blöðum
sýna þetta fólk alvarlegt í bragði vakandi yfir hag bankans, landsins og
allra Íslendinga. Svona fólk getur selt hverjum sem er hvað sem er.
Þetta er traust, hámenntað og umfram allt fólk með lúkkið í lagi og þið
getið verið viss um að það segir ekki miðaldra manni að borða græna banana
með hýðinu.
Nú eru einmitt að birtast heilsíðuauglýsingar frá stjórnmálaflokkunum með
fallegum myndum af frambjóðendum. Konni ráðleggur ykkur að skoða þessar
myndir vel. Hverjir koma best fyrir? Hverjum treystið þið best til að bera
hag okkar allra fyrir brjósti. Allt þetta sést á myndunum. Einhverjum
sérvitringnum kann að þykja það fullgilt að bjóða sig fram til Alþingis í
flauelsbuxum og lopapeysu en við Íslendingar viljum almennt fólk í
jakkafötum og dröktum. Hefði strákurinn í 10-11 verið í jakkafötum er
aldrei að vita nema Konni hefði bitið í grænan banana ... í einrúmi. Veika
hlið stráksins var hettupeysan. Konni ráðleggur lesendum að kjósa fólk sem
engar líkur eru á að reyna að telja ykkur trú um að borða græna banana með
hýðinu. Til þess að forða misskilningi þá er Konni ekki endilega að tala
um Vinstri græna þó þeir séu með heilsufæðislegaútlítandi konu framarlega
í flokki.
Kjósum hina velklæddu.
Kv.
Konni

16.4.07

Af hverju treystir Konni ekki starfsmönnum Tíu - ellefu?

Konni er sólginn í banana og í gær ætlaði hann að kaupa slatta í Tíu-ellefu. Strákur einn, starfsmaður verslunarinnar, var að hlaða bönunum á stand en Konna til hrellingar voru bananarnir sem komu upp úr kassa stráksins fagurgrænir ... vanþroska bananar. Konni sagði sem svo við strákinn að þessir bananar yrðu ekki borðaðir alveg á næstunni. En þá sagði stráksi að þetta væri einmitt rétta þroskastig banana til að borða þá með hýðinu. Með hýðinu hváði Konni. Þá fullyrti strákurinn og var sérlega sannfærandi að það sé einmitt sérlega gómsætt og hollt sé að borða fagurgræna banana ... með hýðinu.
Hverju á maður að trúa?
Ef þetta hefði verið heilsufæðislegaútlítandi kona í einhverri lífrænni heilsubúð hefði Konni tekið hana alvarlega, farið heim og borðað grænan banana með hýðinu. En af því að þetta var barar strákur í Tíu-ellefu þá datt Konna ekki í hug að taka mark á ráðum hans. Eru þetta fordómar?
Var strákurinn að grínast?
Ef einhver lesandi er til í að gera tilraun með að borða fagugrænan banana með hýðinu skal Konni borga bananann.
Kveðja,Konni

12.4.07

Litlir kassar á Kirkjusandi

Þeir voru sannspáir Þokkabótarmenn þegar þeir sungum um litlu kassana forðum. Það er eins og þeir hafi séð fyrir nýju höfuðstöðvar Glitnis sem nú eiga að rísa á Kirkjusandi. Samkvæmt mynd sem birtist í Morgunblaðinu af þessum svokölluðu höfuðstöðvum eru þær bara þyrping húskassa sem hver krakki hefði getað rissað upp. Þetta er víst einhver verðlaunaútfærsla danskrar arkitektastofu. Hvílíkt andleysi! Hvert stefnir arkitektúr? Stefnir hann að litlum kössum hingað og þangað um bæinn. Ef flugvallarsvæðið verður byggt upp á þennan hátt erum við fagurfræðilega miklu betur stödd með það eins og það er. Hleypum allavega ekki dönskum verðlaunaarkitektum í það.
Þegar væntanlegar höfuðstöðvar Glitnis eru skoðaðar betur líkjast byggingarnar í þyrpingunni mjög peningatanki Onkel Jóakims í Andrési Önd.
Kannski er ekki vanþörf á því Glitnir græðir svo rosalega þessa dagana.
Já, þeir voru framsýnir félagarnir í Þokkabót enda af Seyðfirsku bergi brotnir.
Kveðja,
Konni

9.4.07

Konni gefur atkvæði sitt til að bjarga þjóðinni

Nú hefst kosningabaráttan.
Tíu, níu, átta, sjö, sex, fimm, fjórir, þrír tveir, einn og BANG. Baráttan er hafin.
Eftir fjórar vikur fær Konni í hendur kjörseðil sem hann veit ekkert hvað á að gera við. Á fólk eins og Konni að hafa kosningarétt? Getur verið að fullt af fólki ætti bara alls ekki að hafa kosningarétt einfaldlega vegna þess að það hefur ekki vit á stjórnmálum. Konni þekkir fullt af fólki sem hefur mikið vit á því hvernig stjórna eigi landinu. Slíkt fólk á hiklaust að fá að kjósa. Það er eindregið í sinni afstöðu. Öll pólitísk skoðun önnur en sú sem það sjálft aðhyllist er nánast landráð eða aðför að fjölskyldunni eða framförum, náttúrunni, jafnrétti eða heimsfriði.
Konni segir bara jamm og já og fyllist vanmætti. Af hverju getur hann ekki hugsað svona djúpt og reiknað skák stjórnmálanna jafn listilega út?
Konni er að hugsa um að gefa atkvæði sitt einhverjum sem hefur raunverulega vit á stjórnmálum. Atkvæði í höndum Konna er sama og byssa í höndum óvita. Skotið getur farið í hvaða átt sem er.
Sumir eru svo rausnarlegir að gefa úr sér líffæri svo bjarga megi lífi annarrar manneskju. Það er göfug og mikil gjöf.
Miðað við það er bara smámál að gefa eitt atkvæði til að bjarga þjóð.
Kveðja
Konni

7.4.07

Fordómar Vantrúar

Félag sem kalla sig Vantrú, samtök trúleysingja, stóð fyrir bingói á Austurvelli á föstudaginn langa. Það mun víst vera bannað samkvæmt helgidagalöggjöf Þjóðkirkjunnar að stunda bingó þennan dag. Með löggjöfinni finnst Vantrúarmönnum að brotið sé gegn athafnafrelsi. Í Textavarpinu segir að félagið ætli sér að berjast gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Ekki er hægt að skilja þetta á annan veg en hindurvitnin sem Vantrú ætli sér að berjast á móti sé hin kristna trú. Ef hópur manna hefði farið á Austurvöll til að berjast gegn múslimum hefði allt orðið vitlaust í samfélaginu og viðkomandi hefðu verið sakaðir um fordóma, mannvonsku og rasimsa. Skyldi vandamálaherdeildin rísa upp á afturlappirnar og saka Vantrú um fordóma gagnvart kristnu fólki? Konni er vantrúaður á það.
Kveðja,
Konni

6.4.07

Eílíft stuð í þessu lífi eða því næsta

Umsjónarmaður keppninnar um fyndnasta mann Íslands og fleiri sjá ekkert athugavert við það að föstudagurinn langi sé sami stuð-dagurinn og allir hinir dagarnir í árinu. Það er greinilega mikil fórn að slappa af einn dag á ári og ef til vill leiða hugann dálítið að tilefni hans.
Nei, umsjónarmaður keppninnar segir á sinn hrokafulla hátt:

Ég sé ekkert óviðeigandi við að fyndnasti maður Íslands sé krýndur á sama degi og Kristur var krýndur sinni kórónu. Ég er viss um, að hann hefði komið á keppnina sjálfur hefði hann ekki verið örlítið bundinn.

Það virðist afar óþægilegt fyrir suma að lifa föstudaginn langa af. Við þurfum stuð hvern einasta dag. Leiðist fólki? Af hverju er sumt fólk hrætt við að pæla aðeins í eilífðarmálunum? Það er meir eða minna búið að afhelga jólin og nú er næsta takmark stuðmanna Íslands að sjá til þess að enginn þurfi að leiða hugann að Jesú á krossinum á föstudaginn langa. Slíkar hugsanir gætu kannski truflað stuðið og gleðina rétt sem snöggvast. Í hvaða liði er umsjónarmaður keppninnar um fyndnasta mann ársins? Hví ríkir þessi Jesú-hræðsla?
Verum svo öll í stuði með Guði og í botni með drottni.
Gleðilega páska
Kv.
Konni

1.4.07

Ætlum við virkilega að lifa á fjallagrösum?

Konni fór í Laugardalslaugina í morgun. Nokkuð hressileg umræða í heita pottinum. Kona og maður á besta aldri rifust þar af kappi um álver. Maðurinn var auðvitað talsmaður álvers og virkjana en kona varðist fimlega enda á bandi þeirra sem vilja fara ögn hægar í álmálin. En haldið þið ekki að gamla fjallagrasaklisjan hafa ekki skotið þarna upp kollinum því þegar karlinn var kominn út í horn (reyndar er nú potturinn hringlaga) þá hóf hann gagnsókn með þeirri snjöllu spurningu hvort við ætlum þá bara að lifa á fjallagrösum og ganga í lopapeysum niður Laugaveginn. Kona svaraði þessu af fullum krafti og hló að karlinum. Sagði að þetta væri gamalt bragð sem ekki dygði lengur. Við það færðist karlinn allur í aukna og það síðasta sem ég heyrði af viðureign þeirra var að karlinn öskraði að konan væri lygari. Þá var ég nú reyndar kominn í annan pott. Konni er reyndar búinn að fá nóg af öskrum og illindum vegna umræðna um virkjana og álmál. Ástandið fyrir austan í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar var ekki alltaf skemmtilegt. Konni hitti mann að austan um daginn sem beitti sér mjög gegn öllum þeim framkvæmdum. Hann fullyrti að hann hefði alltaf verið látinn borga meira en aðrir hjá ýmsum einkareknum þjónustufyrirtækjum á Egilsstöðum. En nú hefur áliðnaðurinn náð kverkataki á Austurlandi. Hvernig verður brugðist við þar ef Alcoa hótar að loka álverinu eftir 40 ár ... nema það fái að stækka. Sem betur fer er atvinnuástand á Suðvestuhorninu betra og fjölbreyttara. Ekkert eitt fyrirtæki hefur þar tangarhald á atvinnulífinu eins og nú mun gerast á Austurlandi. Vonandi að það ævintýri gangi vel. Þetta voru góð úrslit í Hafnarfirði í gær nú gefst tími til að pæla.