14.1.07

Það er galdur að gera mikið úr litlu

Íslenska þjóðin er skrýtin eða kannski bara nýtin því hún getur gert mjög mikið úr mjög litlu. Við getum meir að segja látið líta út fyrir að þetta örsamfélag sé mun fjölmennara en það er í raun og veru. Í fyrrasumar unnum við til dæmis það afrek að tryggja Magna eitt af efstu sætunum í amerískum sjónvarpsþætti. Magni keppti við fulltrúa þjóða sem telja milljónir. En Magni sigraði því við Íslendingar getum gert mikið úr litlu. Tugþúsundir atkvæða komu frá nokkur þúsund kjósendum. Heilu fjölskyldurnar svindluðu og svindluðu kvöld eftir kvöld í þágu góðs málstaðar.
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er mynd af fólki á rýmingarsölu IKEA. Þar segir í myndatexta að 6000 manns hafi bitist um útlitsgölluð húsgögn og hluti sem höfðu verið til útstillingar. Síðan þessi verslun hóf starfsemi sína um miðjan október hefur yfir hálf milljón gesta litið þar við. Hálf milljón! Hver einasti rólfær Íslendingur hefur komið tvisvar í heimsókn til IKEA. Konni hefur ekki notið gestrisni IKEA svo einhver hefur þurft að heimsækja verslunina oftar en tvisvar til að fylla skarð Konna. Er þetta ekki flott? Er alveg öruggt að við séum bara 300 þúsund? Var ekki Hagstofan ekki einmitt með starfsmannateiti síðast þegar það var talið?
Ég legg til að næsta manntal verði gert eftir teljurunum í IKEA, Kringlunni og Smáralind, þá kemur hið sanna í ljós. Ekki telja eftir teljurunum í Listasafni Íslands, Kjarvalsstöðum eða aðsókn að Myrkum músíkdögum.
Kveðja,
Konni

6 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

what? Síðast komu nær 4000 gestir á Myrka!

14 janúar, 2007 22:52  
Blogger Þorbjörn said...

Meira en helmingur af heimsóknum í Íkea er af huldufólki. Öll þau sem koma í Íkea og kaupa ekki neitt gera það af því þau eru ekki með vísakort því þau eiga ekki kennitölur. Ég er alinn upp við hraunið sem Íkea stendur í og veit að þar er allt morandi af huldufólki, sem hefur fátt betra að gera en ganga hringinn í Íkea.

14 janúar, 2007 22:54  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl og blessuð bæði
Komu 4000 á Myrka? Það léttir nú mína lund dálítið.Hélt að þetta væru nokkrir tugir sérvitringa. Flott! Hvernig væri ef tónskáld færu að dæmi Ikea og byðu útlitsgallaða tónlist bara til að kanna hvort ekki megi höfða til Ikea-fjöldans og margfalda aðsókn.
En Þorbjörn, þetta er það sem mig grunaði. Þetta huldufólk er alltaf að þvælast fyrir okkur hinum og skekkir alla heildarmynd samfélgsins. Sennilega er það því að þakka hversu Magni náði langt. Gæti ekki huldufólk blandað sér í leik landsliðsins í handbolta til að styrkja okkar menn? Hvernig væri að það byði fram til Alþingis?
kv
Konni

15 janúar, 2007 08:45  
Anonymous Nafnlaus said...

Við erum örugglega miklu fleiri en 300.000. Þú sérð hvað það er margt af öllu, mörg moll, margir bankar, margir háskólar, margar sjónvarpsstöðvar, böns af tímaritum og slúðurblöðum. Þetta eru bara falsaðar íbúatölur.

16 janúar, 2007 23:34  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl öll
Þetta er örugglega rannsóknarefni fyrir tölfræðinga. Annars er hver Íslendingur svo margföld persóna að það gæti líka verið skýringin.
kv
Konni

17 janúar, 2007 08:36  
Blogger Konni kynlegi said...

PS
Ætlaði að benda Hildigunni á það að þrátt fyrir ánægjulega góða aðsókn að Myrkum músíkdögum þá tæki það þá ágætu tónleikaröð samt 100 ár á ná sömu aðsókn og Ikea síðan í október 2006.
kv.
Konni

17 janúar, 2007 08:38  

Skrifa ummæli

<< Home