Tískan verður að eiga greiða leið um allt land
Og ég sem hélt að á landsbyggðinni byggju bara hagyrðingar og harmónikkuleikarar í kraftgöllum. Nú hefur annað komið í ljós því í Fréttablaðinu í dag er eftirfarndi yfirlýsing: Húsvíkingar eru vel meðvitaðir um það sem er í gangi, hvort sem það snýst um hár eða tísku. (bls. 6 í allt-tíska og fleira)
Landsbyggðarfólk er sem sagt með á nótunum. Þetta eflir mjög traust mitt á landsbyggðinni. Samt sem áður fullyrði ég það að tískan berst fyrst til Reykjavíkur. Þeirri staðreynd verður ekki haggað. Þegar hún hefur sannað sig þar og fest rætur, berst hún um þjóðvegi landsins og tekur fyrst að grassera í Hvergerði og Borgarnesi. Síðan berst tískan norður og suður um landið og á endanum mætast tískustraumarnir að norðan og sunnan á Egilsstöðum. Það er ástæðan fyrir þessari miklu gerjun sem er á Austurlandi. Á Egilsstöðum safnast tískan síðan upp því þaðan getur hún ekkert farið. Tískan fer nefnilega aldrei til baka. Hún á reyndar eftir að renna sér á Borgarfjörð-eystri og niður á firði en þau byggðarlög eru bara yfirfall fyrir tískubylgjurnar sem skella á Egilsstöðum.
En athugið það að þegar bylgjan skellur á Egilsstöðum er komin ný í Reykjavík og þar með eru Héraðsmenn alltaf pínulítið á eftir okkur hinum. Húsvíkingar rétt sleppa fyrir horn (hvort sem um er að ræða hár eða tísku) samkvæmt Fréttablaðinu í dag. Það er sennilega vegna þess að þeir eru örlítið nær Reykjavík.
Þetta sýnir hvað bættar samgöngur eru mikilvægar fyrir Fljótsdalshérað og Austurland allt. Kannski var það einmitt tískan sem formaður Samfylkingarinnar var að hugsa um þegar hún sagði að háhraðatenging alls landsins væri eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar ... hver vill vera púkó?
Kv.
Konni
5 Comments:
Allt er þetta nú satt og rétt hjá þér Konni minn en ég held reyndar að formaður Samfylkingarinnar viti aldrei hvað hún meinar með orðum sínum, a.m.k. eru þau yfirleitt óskiljanleg. En þetta með tískuna er afar djúp og gáfuleg pæling. Á Egilsstöðum hefur alltaf verið suðupottur, tískunnar sem annars.
Heyrðu Konni, það er flogið oft á dag frá Reykjavík til Egilsstaða þannig að við þurfum nú ekki að bíða eftir að tískan tölti þjóðveg 1. Svo má ekki gleyma að vikulega berast nýjustu tískustraumar frá Þórshöfn í Færeyjum til Seyðisfjarðar þannig að Austfirðingar eru nú bara vel staddir með tískustrauma að austan og vestan.
Bráðum fáum við líka beint flug í Nonnabúð við Kóngsins Nýjatorg og það er nú ekki slordónalegt innlegg í götutískuna á Egilsstöðum.
Blessaðar!
Já, formaðurinn er stundum svolítið sunnan við sig. Ég sagði líka "Kannski var hún að meina..." Þetta "kannski" hafði djúpa skírskotun.
En þetta með að tíska berist með flugi. Það getur ekki verið því mér skilst að það séu bara ríkisstarfsmenn og erlendt vinnuafl og verkfræðingar sem fylli flugvélar til Egilsstaða nú til dags, aallt karlar. Mjög fáir karlkyns ríkisstarfsmenn eru töff, helst ein og ein kona. Tíska berst heldur ekki frá Færeyjum svo mikið er víst. Ég hef bara séð Færeyinga í úlpum.
kv.
Konni
Konni minn ! Konur geta verið verkfræðingar, opinberir starfsmenn og jafnvel erlent vinnuafl !
Þú ert nú dálítl karlremba, er það ekki ?
Sæl Miss d.
Karlremba og ekki karlremba. Síðast þegar ég flaug austur voru þetta allt karlar. Konni er sér fullkomlega meðvitaður um að konur eru allt milli himins og jarðar.Ég var að ræða um tískubylgjur. Þessir karlar sem ég sá í þessu flugi voru ekki boðberar tískunnar.
Kv
Konni
Skrifa ummæli
<< Home