19.1.07

Forstöðumenn ættu ekki að eiga upptökutæki

Konni lenti í ægilegri klemmu í dag, lengi vel vissi hann ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga.
En eins og alþjóð veit mun fyrrverandi forstöðumaður trúarheilbrigðisstofnunar austur í sveitum hafa stundað leiki sem ekki eru kenndir á leikjanámskeiðum Æskulýðs- og tómstundaráða víða um land.
Forstöðumaðurinn mun hafa tekið þessa leiki upp á myndband og er svo sem ekkert óeðlilegt við það því fólki finnst yfirleitt gaman að varðveita minningar frá ýmsu sprelli í faðmi góðra vina.
Myndbönd verða nefnilega frábær heimild seinna meir um liðna tíð sem gaman verður að orna sér við í ellinni og sýna barnabörnunum.
Eitt þessara fjölskyldu-kynningarmyndbanda forstöðumannsins hefur nú ratað á netið og klemma Konna var sú að honum bauðst að skoða það í dag. Konna finnst yfirleitt ekkert gaman að horfa á fjölskyldumyndir frá fólki sem hann þekkir ekki neitt, en þetta myndband kitlaði svolítið.
Átti Konni að horfa á myndbandið eða átti Konni ekki að horfa? Þetta var meiriháttar klemma því honum var sagt að forstöðumaðurinn hefði kannski ekki átta að ýta á record-takkann við þessar kringumstæður því hann mun einmitt hafa verið að hlaupa svolítið í skarðið... eða var það fram fram fylking?
Eftir langa umhugsun, því Konna langaði í aðra röndina að skoða forstöðumanninn í leikjum sínum, ákvað Konni að leiðast ekki í freistni.
Mikið er Konni glaður núna að vera laus við að eiga einhversstaðar í skúmaskotum hugans, minningar um forstöðumann í fullorðinsleik.
Kv.
Konni

7 Comments:

Blogger Hildigunnur said...

ég horfði ekki heldur og sé ekki eftir því.

20 janúar, 2007 12:42  
Blogger Rannveig said...

Konni minn, ég ætla bara að biðja þig að vera ekki að góna á eitthvað mannskemmandi áður en þú kemur austur. Þú veist að við hér fyrir austan vonumst til að sjá þig kátan og glaðan á Vallablóti en ekki niðurdreginn eftir ósiðlegt vídeógláp.
Þú manst nú líka hvernig fór fyrir vini þínum Jóni Guðmundssyni fyrrum barnakennara í fyrra þegar siðgæðisvörðurinn rak hann af sviðinu fyrir klámkendan kveðskap.

21 janúar, 2007 21:49  
Blogger Konni kynlegi said...

Já, það var nú meiri skandallinn og verður ekki endurtekið. Þess í stað hef ég frétt að söngstjórinn ætli að sýna á sér nýja og frelsaðri hlið.
En það er gott að allavega við þrjú þ.e. ég, Rannveig og Hildigunnur höldum þó sönsum í þessu ölduróti.
En af hverju kom ekki Elton John á Egilsstaðablótið?
kv.
Konni

22 janúar, 2007 09:36  
Anonymous Nafnlaus said...

Það var haldið fast í þá venju á Egilsstaðablóti að nýta heimafengna skemmtikrafta, eins og venja er á blótum hér eystra. Held að þið borgarbúar ættuð að reyna að gera slíkt hið sama.
Ég nenni nú ekki að fara að hlusta á einhverja helgislepju á þorrablóti Vallamanna og mun gera uppreisn og verða með ólæti í sal ef svo verður. Viltu skila því til Jóns, Konni. Þið virðist vera í góðu sambandi.

22 janúar, 2007 09:52  
Blogger Konni kynlegi said...

Sæl Tóta
Það er vandlifað í veröldinni. Á þá söngstjórinn að hætta við að vera ekki dónalegur og verða aftur dónalegur? Söngstjórinn sér engan skynsamlegan meðalveg í þessu máli. Þó væri kannski lausnin að lesa upp úr Fréttabréfum úr Skriðdal.
kv.
Konni

22 janúar, 2007 11:16  
Anonymous Nafnlaus said...

Heyrðu, skyldi Tóta hafa legið yfir einhverju vafasömu vídeóglápi? Ég bara spyr.
Hér á Fljótsdalshéraði er svo mikið af góðum skemmtikröftum og við bara verslum í okkar heimabyggð, í mesta lagi að við verslum við brottflutta en alls ekki innflutta - ekki það samt að við séum fylgismenn Frjálslynda flokksins.

22 janúar, 2007 15:41  
Anonymous Nafnlaus said...

Konni, á síðasta blóti þurfti siðgæðisvörð á söngstjórann. Svona svipað og Miss D. gerir með þína ágætu síðu. Það þýðir þó ekki að allt sé bannað. Hæfileg tvíræðni er bara til bóta.

23 janúar, 2007 08:43  

Skrifa ummæli

<< Home