Playboy-kóngur fjölgar sér með rótarskotum
Nýir möguleikar opnast við að flytja til LA, boðið að sitja fyrir í Plaboy. Þessa fyrirsögn sá ég í einhverju blaði um daginn. En þannig er að hin margumtöluðu Beckham-hjón eru að flytja til ELL-EI. Er það fréttist tók herra Heffner Playboy-kóngur mikinn fjörkipp og falaðist eftir frú Beckham á síður tímarits síns. Kallinn er ekki dauður úr öllum æðum þó mér sýnist nú þetta boð Heffners vera ótvírætt brot á tíunda boðorðinu um að engin skuli girnast konu náunga síns en það er nú önnur saga. Eðlilega sá frú Beckham í gegnum karlinn og afþakkaði "gott" boð þó hann borgar nú vel, það má hann eiga.
Hvort þessir möguleikar standi öllum til boða við flutning til LA er ósennilegt en mér finnst Byggðastofnun mætti læra af þessu. Af hverju býður hún ekki því fólki sem vill flytja út á land upp á eitthvað krassandi til dæmis eins og umfjöllun í Séð og heyrt eða Hér og nú.
En angar Playboy-veldsins teygja sig alla leið til Íslands. Hugh Heffner fjölgar sér greinilega með rótarskotum eins og öspin því nú eru að skjóta upp kollinum hér á Íslandi skilgetin afkvæmi hans. Já, sannkölluð rótarskot. Nú er verið (samkvæmt Blaðinu í dag) að skipuleggja risastórt Playboy-partí á veitingastaðnum Nasa við Austurvöll.
Samkvæmt Heffners-syni, skipuleggjanda kvöldsins, er lögð áhersla á að það verði sexý. Bara kynæsandi undirfatasýning og blautbolskeppni en ekkert klúrt þannig séð, svo vitnað sé orðrétt í fréttina.
Er öll vitleysan eins?
Ég var ekki hissa á því að talskona femínista væri ekki hrifin.
Heffners-son býst við um 1000 manns á herlegheitin. Svo er bara að vona að gestir verði ekki mjög kynæstir og yfirspenntir og geri ekkert sem Hugh Heffner hefði ekki gert eða þykir ekki boðlegt á íslensku þorrablóti. Reyndar heyrði ég í fréttum í gær að í Bolungarvík sé fráskildum meinuð þátttaka í þorrablóti, einungis pör fá aðgang. Ég var yfir mig hneykslaður í fyrstu en sé núna að þetta er af siðferðisástæðum, runnið undan rótum 10. boðorðsins og því fullkomlega réttlætanlegt. Skyldi siðferðisstaðall þorrablótsefndar Egilsstaða vera á þessu rosa-plani?
Kveðja,
Konni
4 Comments:
Nei, þorrablótsnefndin hér á Egilsstöðum er meira að segja hætt að hafa áhyggjur af því að þorrablótsgestir séu ekki með lögheimili á Egilsstöðum hinum fornu. Enda the more the merrier. Ætlar Konni ekki að skella sér austur? A.m.k. á Vallablótið?
Sæll félagi
Jú, Vallablótið er í augsýn. Þar hefur siðferði verið með besta móti svo lengi sem elstu menn muna.
kv.
Konni
...og hverjum er það að þakka ??
Sæl ungfrú d
Siðferði Vallamanna er sennilega eins gott og raun ber vitni vegna rótgróinnar virðingar fyrir boðorðunum 10 og góðs upplags og dansmenntar á heimsmælikvarða.
kv
Konni
Skrifa ummæli
<< Home