Tólf tímar á tali
Enn sækir Konni yrkisefni í ríka fólkið í fjölmiðlunum. Um helgina var heil síða í Fréttablaðinu helguð stjórnarformanni West Ham. Ljósmyndari fylgdist með honum í tólf tíma einn daginn og tók myndir sem síðan voru birtar í blaðinu. Á einni þessara mynda var stjórnarformaðurinn að tala í tvo farsíma í einu og myndatexti greindi frá því að þannig hefði það nú gengið þessa tólf tíma sem ljósmyndarinn fylgdist með formanninum. Það hlýtur að vera kúnst að tala í tvo farsíma í einu í tólf tíma samfleytt. Þannig er sennilega líf fjárfesta daginn út og daginn inn, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár því starf þeirra krefst þess að vera í góðu sambandi ... annars geta þeir átt það á hættu að tapa öllu ... menn verða nefnilega að eiga fyrir Michael Jackson á næsta stórafmæli.
Hvernig liti heimurinn út í dag ef Maó formaður hefði átt tvo farsíma eins og stjórnarformaður West Ham og talað í þá báða tólf tíma á dag? Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á heimildarmyndina um Maó formann. Hann átti ekki einn einasta farsíma en stjórnaði samt með harðri hendi heilu heimsveldi. Honum tókst meir að segja að fá 800 milljónir manna til að klæðast nákvæmlega eins búningum sem er mikið afrek miðað við formanninn, manninn með símana tvo, sem aldrei nær nema ellefu strákum í eins búning og það bara í 90 mínútur í senn.
Kv.
Konni
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home