26.3.07

Langir og leiðinlegir íþróttapakkar

Jæja, það var eitt fyrsta verk þeirra hjá RÚV ohf. að undirrita samning við menntamálaráðherra um að sú ágæta stofnun skuli gæta kynjajafnréttis í íþróttafréttum. Það er svo sem gott og blessað. Íþróttir hafa alltaf einhvern óskiljanlegan forgang í fjölmiðlum umfram allt annað sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Um daginn var í tíu fréttum sagt frá því að landsþekktir listamenn hefðu heimsótt Fjarðarbyggð og jafnvel boðið börnum upp á kennslu í list sinni. Ekkert var minnst á í texta fréttarinnar hverjir þessir listamenn voru en myndin með fréttinni upplýsti að þarna voru Diddú og Jónas Ingimundarson á ferðinni. Þessi frétt fékk sennilega svona tíu sekúndna umfjöllun en á eftir henni kom svo auðvitað langur og leiðinlegur íþróttaPAKKI eins og það er víst kallað.
Íþróttapakki! Það er látið líta svo út eins og það sé einhver gjöf til þjóðarinnar að sýna tíu mínútur frá körfubolta kvenna.
Hvernig væri að RÚV og menntamálaráðherra undirrituðu samning um að menning fengi jafn mikla umfjöllun í fréttum fyrirtækisins eins og íþróttir? Yrði ekki verulegur fengur af slíkum samningi? Hvenær fáum við langan menningarpakka?
Konni er pirraður á íþróttafréttum, íþróttamönnum og eilífum golffréttum af Birgi Leif Hafþórssyni á hinum og þessum mótum út um hvippinn og hvappinn þar sem hann er ýmist á pari eða undir pari eða yfir pari eða komst í gegnum niðurskurð eða komst ekki í gegnum niðurskurð eða golfsetinu hans var stolið.
Ætli RÚV ohf. og menntamálaráðherra skrifi svo ekki undir fleiri íþróttasamninga? Hvernig væri þá að gera samning um að jafnræði skuli vera milli landshluta í íþróttafréttum?
Nei annars, þetta var slæm hugmynd ... þá fengjum við yfir okkur endalausar fréttir af borðtennismótum á Raufarhöfn eða glímumótum í Bolungarvík eða golfmótum byrjenda, sundmótum í Vík í Mýrdal og bandýmótum í Reykjavík. Það yrðu langir og óbærilegir íþróttapakkar.
Getur ekki eitthvert framboð tekið það upp á sína arma að losa okkur við íþróttapakka.
Kv.
Konni

21.3.07

Fálkalundur - á stall með máttarstólpa samfélagsins

Konni heyrði í fréttunum að áhugi væri á því að reisa styttu af Guðmundi Jaka í Breiðholti. Þar lýst mér vel á. Hann átti víst sinn þátt í uppbyggingu hverfisins.
Reyndar finnst mér að reisa mætti miklu fleiri styttur af máttarstólpum þjóðfélagsins. Styttur eru fallegar og augnayndi og jafnvel ljótar styttur eru hvarvetna til prýði.
Það er vaxandi kynslóðum nauðsynlegt að átta sig á því að margar kynslóðir hafa lagt grunninn að því samfélagi sem við búum í. Margir einstaklingar hafa skarað fram úr, hver á sínu sviði. Þetta fólk á allt skilið komast á stall.
Ég hef alltaf verið hrifinn af Fálkaorðunni. Þar fá hvunndagshetjur stundum sína réttmætu viðurkenningu fyrir framlag til samfélagsins. Oft ber lítið á þessu fólki því ekki skartar það orðunni nema mesta lagi á 17. júní. Þess vegna fékk Konni hugmynd.
Hugmyndin er sú að hver einasti handhafi Fálkaorðunnar fái reista af sér bronsstyttu. Styttunni verði komið fyrir í sérstökum lundi í heimasveitarfélagi þess sem orðuna hlýtur. Nefna mætti slíka lundi Fálkalundi og yrði hver lundur höfuðprýði og stolt sveitarfélagsins. Slíkir höggmyndagarðar, um allt land, hefðu mikið menningarlegt og sögulegt gildi. Stytturnar yrðu síðan búnar þeirri tækni að geta talað þannig að með því að ýta á hnapp myndi styttan, með rödd fyrirmyndarinnar, segja frá þeim afrekum sem orðið hefðu til þessa að hún fékk Fálkaorðuna.
Það yrði gaman að ýta á hnapp á Guðmundi Jaka og fá nokkrar sögur úr verkfallsbaráttunni og Breiðholti. Það er bara verst hversu hátt er upp í Jón Siguðsson.
Kveðja,
Konni

18.3.07

Listaháskóli Austurlands

Um helgina auglýsti álverið á Reyðarfirði eftir trommuleikara. Ég hélt kannski að hlutverk hans yrði það sama og trommuleikaranna á galeiðum Rómverja þ.e. slá taktinn fyrir þrælana sem réru skipunum. Er Konni leit betur á auglýsinguna sem var römmuð inn með andlistmyndum skælbrosandi álversstarfsmanna sá hann að trommuleikaranum var ætluð staða í árshátíðarhljómsveit álversins. Já það er greinilega gaman að vinna í álveri. Ef miðað er við aðrar starfsmannaauglýsingar fyrirtækisins er mér hulið hvenær álið verður brætt. Sennilega þegar árshátíðarhljómsveitin tekur pásur eða milli móta í skákklúbb fyrirtækisins eða milli laga hjá álverskórnum eða í hálfleik hjá knattspyrnuliðum Alcoa. Álverið á Reyðarfirði er sannarlega menningarfyrirtæki. Konni er reyndar dálítið svekktur að fá ekki boð um að verða fyrsti flautuleikari álversins því fyrst það hefur metnað til að koma sér upp danshljómsveit hlýtur það að ætla tónlistarmönnum fyrirtækisins að róa á ögn listrænni mið. Alcoa verður að koma sér upp sinfóníuhljómsveit. Alcoa verður líka að koma sér upp leikhúsi og Alcoa verður að koma sér upp listmálurum og ljóðskáldum. Ég vissi alltaf að álverið myndi lyfta atvinnu- og menningarlífi á Austurlandi í hæðir. Það réttlætir svo sannarlega eyðilegginguna á heiðum uppi, rafmagnsgirðingarnar sem þvera Fljótsdal og Skriðdal, endursköpun Lagarfljóts og Jökulsár og svona smá einelti.
Já, Austurland verður í framtíðinni svo sannarlega rammað inn af brosandi og glöðum starfsmönnum Alcoa sem una glaðir við listsköpun sína í faðmi álbræðslunnar. Trommuleikarinn er vonandi bara upphafið hjá þessum vísi að Listaháskóla Austurlands.

15.3.07

Konna boðið í bíó

Næst neðsti frambjóðandi á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi færði Konna í gær fyrsta áróðursbæklinginn fyrir væntanlegar kosningar. Vorið er sem sagt í nánd.
Þessi bæklingur gladdi Konna mikið enda mjög fögur fljóð í lokkandi stellingum sem prýddu framhlið bæklingsins og það sem meira var, þær buðu í bíó. ÞÉR ER BOÐIÐ Í BÍÓ! stóð stórum stöfum.
Konni hefði ekki hikað við að eiga skemmtilega bíóstund með þessum konum ef hann hefði ekki sem betur fer áttað sig á því að bíóferðin var ekki öll sem hún var séð. Á bakhlið bæklingsins, sem ekki var prýdd lokkandi fljóðum, stóð nefnilega að bíóferðin væri í raun fundur um umhverfismál.
Fundur um umhverfismál!! Ó mæ ...
Fundurinn verður hins vegar haldinn í Nýja bíói á Akureyri og boðið upp á mynd eftir Al Gore, það var þá öll bíóferðin. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir Konna því miðað við nýjustu túlkanir á myndefni auglýsingabæklinga þá fannst Konna sem þessar Samfylkingarkonur byðu upp á eitthvað meira krassandi í bíó en fund um umhverfismál. Þessar fögru konur ætluðu sem sé að véla kjósendur á fölskum forsendum í bíó og það á mynd eftir Al Gore, hefði það nú verið mynd með Ole Söltoft hefði Samfylkingin kannski krækt sér í atkvæði.
Þannig eru nú stjórnmálin orðin ... ekkert nema kynþokki ... þar erum við karlar veikir fyrir líkt og konur sem hópast nú til vinstri í einum hvínandi grænum ... en það er nú sennilega vegna kynþokka málefnanna.
Kveðja,
Konni

14.3.07

Enginn fiskur undir steini

Þá er nóg komið af skrifum um menningarmál á Austurlandi. Þar er greinilega margt menningarlegt í deiglunni. Austfirðingar verða bara að vera duglegir að sækja þessa atburði og láta okkur hin, sem búum utan fjórðungs vita af því að þar sé enginn fiskur undir steini eins og ku hafa verið í ákveðnu bæjarfélagi suður með sjó hér í dentíð. Ef enginn nema heimamenn vita af menningaratburðum á Austurlandi þá er í hugum okkar hinna ekkert gerast þar. Við vitum af menningu í New York af því að okkur berast fréttir úr heimsborginni. Kannski er það svolítið glannalegt að nefna New York í sömu setningunni og Austurland en það er bara þannig að fréttir eru til marks um lífsmark. Ef ekkert fréttist af Austurlandi nema sögur af gangi mála við framkvæmdir þá er í vitund þjóðarinnar bara ekkert að gerast þar nema þessar framkvæmdir. Reyndar standa starfsmenn fjölmiðla sig ágætlega. Í Mogganum er oft ágætis umfjöllun og fréttir. Svæðisútvarpsmenn eru líka mikilvægir. Góðar og skemmtilegar fréttir bárust til dæmis nýlega af grafreit í kjallara íbúðarhúss út í Tungu eða Hlíð og munkaklaustur er í farvatninu á Reyðarfirði. Auk þess frétti ég af ístöltskeppni á Eiðavatni með Jónínu Rós sem kynni. Þetta var allt til vitnis um lífsmark ... ja, nema kannski fréttin um grafreitinn.
Það skiptir máli að láta vita af sér, því annars veit enginn hvort þú sért lífs eða liðinn.
Kv.
Konni

10.3.07

Fyrir hvað vill Austurland standa?

Ég þakka viðbrögð við síðasta pistli. Tóta settist niður og setti saman ágætan pistil og Rannveig benti mér á að listi minn yfir menningarstofnanir sem skipta máli á Austurlandi var ekki tæmandi. Það var gott. En nú þegar hinum verklega þætti endurreisnar Austurlands er nánast lokið hljóta sveitastjórnarmenn og íbúar að fá svigrúm til að huga að uppbyggingu kraftmikils menningarsamfélags. Þá er ég að meina að menning verði jafn mikilvæg útflutningsgrein og álið. Ég hef verið að spyrja samstarfsfólk mitt hér í Reykjavík, sem ekki þekkir til á Austurlandi,hvort það muni eftir einhverju eða kannist við eitthvað menningartengt sem þaðan er runninið. Enginn mundi eftir neinu nema Keith Reed skaut upp kollinum. Ég hef verið að tala við ungt listafólk sem býr nú hér í Reykjavík og á rætur sínar að rekja til Austurlands af hverju það flytji nú ekki austur og taki til hendinni á þeim sviðum sem það hefur þekkingu á. Þetta unga fólk sér enn sem komið er ekki kostina við það það vill heldur búa í höfuðborginni. Reyndar eru undantekningar frá þessu sbr. forstöðukona Skaftfells er borinn og barnfæddur Vallamaður og forstöðumaður Gunnarstofnunar er Héraðsmaður.
Það skiptir okkur Íslendinga máli að eiga Laxness, Ólaf Elíasson, Björk, Sigurrós, Austfirðinginn Stefán Höskuldsson, Helga ballettdansara og aðra listamenn sem brotist hafa til heimsfrægðar. Þetta skiptir máli fyrir sjálfsvitund okkar allrar. Hugsið ykkur Íslendinga án þessa fólks. Hugsið ykkur ef enginn Íslendingur hefði nokkurn tímann gert neitt sem skipti máli fyrir aðrar en okkur sjálf. VilhjálmurEinarsson skiptir Austurland miklu máli því hann er Silfurmaðurinn.Vilhjálmur skiptir máli fyrir sjálfsmynd þeirra sem á Austurlandi búa sömuleiðis Gunnar Gunnarsson rithöfundur. Það sem meira er, þeir skipta alla þjóðina miklu. Það hlýtur að skipta máli fyrir þennan landsfjórðung að geta sýnt öðrum landsmönnum og ef til vill umheiminum að þar fari fram vitrænt starf sem skipti máli. Af hverju getur Austurland ekki orðið jafnöflug menningarbræðsla eins og álbræðsla. Í Lesbók Morgunblaðsins í dag er viðtal við bandaríska rithöfundinn Jonathan Franzen. Í kynningu er hann sagður ein umtalaðasti rithöfundur sinnar kynslóðar. Jonathan segir að fyrir sér sé Ísland Sjálfstætt fólk og Sykurmolarnir. Fyrir hvað villAusturland standa?
Svo vil ég taka fram til að forðast misskilning að í öllum sveitum og líka í Reykjavík er stunduð alþýðumenning sem er vissulega gríðarlega mikilvæg og skemmtileg. Við hana er ekkert að athuga. Konni hefur sjálfur tekið þátt í slíku og gerir enn og telur sig betri mann fyrir vikið. En menningarleg nýsköpun er samt það sem fleytir okkur áfram. Hvar værum við í dag án Bítlanna, SÚM eða Jóns Leifs? Danshljómsveit Eyþórs skiptir okkurÍslendinga ekki eins miklu máli þó hún sé góð.
Kv.
Konni

8.3.07

Er uppgangur á Austurlandi?

Það er enginn vafi á því að það er uppgangur á Austurlandi. Byggingar þjóta upp á Egilsstöðum og víðar, margra tuga kílómetra göng eru grafin fyrir rennandi vatn í gegnum Fljótsdalsheiði. Línur eru lagðar, hafnir byggðar og álverið á Reyðafirði fer bráðum að mala gull.
Þrátt fyrir allt læðist að manni sá grunur að þetta sé allt og sumt. Allt og sumt kynnu einhverjir að spyrja ... er þetta ekki nóg?
Mitt svar er nei. Á Austurlandi er ekkert að gerast sem í frásögur er færandi utan þessar framkvæmdir. Það er nú það sorglega við þetta allt. Veislugleði verktakanna er svo mikil að uppbygging mannlífsins hefur gleymst. Menning er í besta falli á sama plani og fyrir uppgang. Uppgangurinnhefur ekki fært menn skrefinu nær kreatívu samfélgi. Auðvitað eru sett upp leikrit og einhverjar myndlistarsýningar. Kórar, hagyrðingar og harmónikkumenn koma saman og skemmta sér og öðrum. Það er hið besta mál. En það sem ég á við er það að enginn lítur á Austurland sem svæði þar sem fram fer menningarleg nýsköpun. Reyndar eru þar undantekningar á. Starfsemi Skaftfells á Seyðisfirði, Skriðuklausturs og mér sýnist Kirkjumiðstöðin á Eskifirði vera að gera sitt. Staðreyndin er samt sú að á Austurland er engin menningarleg uppspretta. Þar fer ekki fram nýsköpun sem skiptir máli fyrir Ísland. Næstum öll slík starfsemi fer fram í Reykjavík og í mesta lagi á Akureyri. Ástæðan kann að vera sú að allt unga fólkið fer burt. Að minnsta kosti sú tegund af ungu fólki sem er skapandi eða leitandi og ef til vill ögrandi. Það er einmitt slíkt fólk sem Austurland þarfnast sem mótvægi við framkvæmdasnillingana.
Kveðja,
Konni

Íþróttafréttamenn ...æ ææææ

Það er tvennt sem fer mjög í tugarnar á Konna þessa dagana hvað fréttir
varðar. Það eru fréttir af fjármálaheiminum og svo íþróttafréttir. Konni
var á sínum tíma óforbetranlegur íþróttaáhugamaður en nú er öldin önnur.
Fréttir af íþróttum eru nefnilega mjög óþarfar og þróttafréttamenn
algjörlega óþarfir fréttamenn. Íþróttafréttamenn flytja fréttir af
ómerkilegustu íþróttakeppnum eins og um heimsviðburði sé að ræða. Jafnvel
Íslandsmót í körfubolta kvenna verður tilefni til þess að þeir setja sig í
þessar leiðinda æsingastellingar, hækka róminn og fara svo í þennan
óþolandi accelerando fasa sem endar með upphrópun eða gleðistunu yfir að
einhver hafi nú komið í mark á undan einhverjum öðrum á nýju
Austurlandsmeti. Hvað kemur okkur það við?
Hvað kemur mér við þó einhver Sigríður í einhverju körfuboltaliði úti á
landi hitti tíu sinnum í körfuna en tapar samt? Hvað kemur mér það við ef
einhver kylfingur dettur úr keppni á Spáni eftir niðurskuð, hvað sem það
nú er? Það þættu meiri tíðindi ef hann dytti úr keppni eftir umskurð. Hvað
kemur mér við þó einhver fótboltamaður í KR eða Val sé búinn að vera
meiddur á ökkla í tvö ár en sé nú loksins að ná sér á strik? Hvað kemur
mér það við þó West Ham sé að falla niður í fyrstu deild á Englandi? Sama
er mér. Hvað kemur mér það við hvort skíðamenn detti á rassinn í fyrri
umferðinni í heimsbikarmótinu Garmen Partsénkirkjen? Afrek almennings eru síðan algjörlega hunsuð. Um síðustu helgi fór fram Vasagangan í Svíþjóð. Þar var fríður hópur Íslendinga. Hvergi hef ég séð minnst á afrek þeirra í íþróttapistlum fjölmiðlanna.
Ég legg til íþróttafréttir verði eingöngu birtar í textavarpinu og í
prentmiðlum því þá sleppur maður allavega við íþróttafréttamennina.
Þó eru tveir íþróttafréttamenn sem mættu alveg halda velli á skjánum eða í
útvarpinu. Það eru þeir Sigurður Sigurðsson og Bjarni Felixson. Þeir tveir
bera höfuð og herðar yfir aðra kollega sína. Sigurður er reyndar allur
fyrir mörgum árum en það eru örugglega til gamlar upptökur með honum sem
mætti endurflytja. Ég hefði einnig mjög gaman af því að heyra Bjarna Fel
lesa upp úrslit úr ensku knattspyrnunni frá tímabilinu 1988-1999, árið sem
Liverpool vann ensku deildina síðast.
Kveðja,
Konni

4.3.07

Um neyðarlega útrás

Um daginn skrifaði Konni pistil um kaup Íslendinga á West Ham. Svo virðist vera að þessi leikur þeirra með milljarða sé að verða eitt neyðarlegasta fyrirbæri svokallaðrar útrásar íslenskra auðmanna. Reyndar var frétt um það í blöðunum í gær að Bakkavararbræður séu nú ekki allir þar sem þeir eru séðir. Framkoma bræðranna við verkafólk sem starfar í verksmiðjum þeirra á erlendri grundu er kennd við nútíma þrælahald. Bakkavararbræður eru bara svo góðlegir menn af myndum að sjá, að ég trúi þessu ekki á þá.
En eigendur West Ham eru aldeilis í vondum málum því það er ekki nóg með að kaupa þeirra á félaginu hafi nú lyktað af leik með peninga þ.e. fjárhættuspili heldur logar allt félagið af slíkri iðju. Tveir leikmenn félagsins hafa þurf að leita sér hjálpar vegna spilafíknar og jafnvel í rútunni á leið í leiki er spilað upp á peninga. Okkar maður, stjórnarformaður West Ham, sem einu sinni bakaði Frón-kex hefði bara átt að halda sig við baksturinn því samkvæmt grein í breska blaðinu Observer á hann ekki sjö dagana sæla, einangraður frá leikmönnum, knattspyrnustjórinn í öngum sínum og ekkert blasir við nema fall um deild og stórtap á fjárfestingunni. Að kaupa fótboltafélag er ekkert annað en fjárhættuspil þeirra sem eiga svo mikla peninga að Lottóið dugar þeim ekki. Við hin fáum þó allavega smá útrás við að spila í Lóttóinu í von um fyrsta vinning ... dagslaun einhvers West Ham-leikmannsins.
Við föllum allavega ekki um deild þó við vinnum ekki ... bara nokkrir hundraðkallar hafa þá runnið óskiptir til íþróttamála. Er það ekki göfugt? Íþróttir eru svo mikil forvörn.
Kveðja,
Konni

2.3.07

Japanskur dónaskapur fyrir menningarvita

Kvikmyndaklúbburinn Fjalakötturinn er nú að hefja göngu sína á ný. Það er hið besta mál ... eða hvað? Konni fór stundum á sýningar klúbbsins hér í denn. Miðað við bækling frá Fjalakettinum sem Konna áskotnaðist þá gæti bara verið gaman að fara í bíó á næstunni. Svo dæmi séu tekin af væntanlegum kvikmyndum þá verða allar myndir James Dean sýndar. Gefið verður yfirlit yfir rússneska kvikmyndasögu og sýndar áhugaverðar myndir frá Þýskalandi.
En vitið þið hvað?
Haldið þið ekki að nú í vor eigi að gefa bíóáhugamönnum og menningarspekúlöntum kost á að kynnast japönskum erótískum myndum. Í bæklingnum segir: Á sjöunda- og áttunda áratugnum var slíkt neyðarástand hjá stóru japönsku framleiðslufyrirtækjunum að risasteypurnar brugðu á það ráð að nýta sér nýlegan geira bleikra kvikmynda til að laða áhorfendur aftur í kvikmyndahúsin. Þessar kvikmyndir voru opinskáar, kynferðislegar og ljósbláar en aldrei jafn grófar og klám. Tilvitnun lýkur.
Hver dæmir svo hvað er klám og hvað er bara saklaust mennignarpornó?
Ég bara ætla að vona að það fólk sem barðist hvað harðast gegn dónafundinum á Hótel Sögu um daginn láti nú til sín taka og kynni sér vel þessar menningarmyndir og költfyrirbæri. Það er von Konna að þessi fyrirætlan Fjalakattarins verði ekki tekin neinum vettlingatökum og samtakamáttur femínista, Alþingis, Þjóðkirkjunnar, borgarstjórnar Reykjavíkur, íþróttahreyfingarinnar og félags púrítana verði virkjaður gegn þessum ljósbláu japönsku myndum.
Einnig hvetur Konni þessa sömu aðila að koma í veg fyrir að Ole Söltoft, sem frægur varð fyrir að leika í dönsku rúmstokksmyndunum, geti nokkurn tímann leikið hér lausum hala sem ferðamaður. Hver myndi vilja hitta Ole Söltoft í heitum potti í myrkri eða við Gullfoss eða Geysi? Hver veit nema Ole myndi þá grípa til kunnuglegra hvílubragða? Konna er ekki kunnugt um að íslensk glíma bjóði upp á öruggar varnir gegn svoleiðis fantaskap.
Hunsum Fjalaköttinn!
Bendi svo á þessa síðu fyrir alla áhugasama um Ole Söltoft.
Kveðja,
Konni