27.2.07

Gelding Laugarvegarins

Konni er einlægur vinur Laugavegarins. Nú eru blikur á lofti. Borgaryfirvöld núverandi og sérstaklega fyrrverandi hafa haft uppi áform um niðurrif gamalla húsa í stórum stíl. Þetta niðurrif mun á endanum gera Laugaveginn að náttúrulausri götu. Gelding Laugavegarins var blessuð af því fólki sem Konni hélt að hefði smekk fyrir umhverfinu þ.e. R-listanum. Konni hélt að það hefði verið einmitt það fólk sem bjargaði Grjótaþorpinu og Bernhöftstorfunni. Kannski það sé vitleysa en allavega lagði R-listinn drög að geldingu götunnar.
Hvert förum við þegar við erum stödd í borgum eða litlum bæjum á erlendri grundu? Jú, við förum í gömlu bæjarhlutana. Jafnvel borgir sem voru sprengdar í tætlur í stríðinu hafa verið endurbyggðar í gömlum stíl. Við Reykvíkingar erum hins vegar orðnir svo samdauna slömmarkitektúrnum sem marka flest ný hverfi borgarinnar að enginn segir neitt þegar rústa á þeirri götu sem ætti að vera okkur hjartfólgnust. Reyndar hefur Konni smekklausa eigendur þessara lóða grunaða að þrýsta verulega á yfirvöld en þeir sem ráða eiga að vaka yfir velferð borgarinnar. Álíka slys er að verða að veruleika á gamla slippsvæðinu. Ef til vill er ástæðuna að finna í almennu sinnuleysi okkar og smekkleysi. Fagurfræði er okkur ekki í blóð borin það eru helst bókmenntirnar sem við Íslendingar kunnum eitthvað á.
Nýju hverfi borgarinnar eru í einu orði sagt ómanneskjuleg. Ég þekki konu sem flutti úr vesturbænum og upp í Grafarholt. Hún fékk sjokk. Hver fer í bíltúr eða göngutúr upp Grafarvog? Hver sækir sér andlega upplyftingu í Breiðholtið eða Kópavog? Svo ætla menn að rústa Laugaveginum.
Konni er reiður!
Kveðja
Konni

23.2.07

Framtíð bændastéttarinnar er tryggð

Dónarnir ætla að hætta við Íslandsferðina. Íslendingar eru manna sniðugastir við að hrista af sér ósóma enda sómakær og kristin þjóð sem hefur boðorðin 10 að leiðarljósi. Dónarnir áttuðu sig ekki á þessu. Þeir héldu að við værum eins og aðrar þjóðir; orðin ónæm fyrir dónaskap. Á er Íslandi er ekki drýgður hór daginn út og daginn inn eins og í dónalöndunum. Ó, nei. Nú eru það femínistar sem fara í broddi fylkingar og hreinsa upp ósómann. Gott hjá þeim. Þær fara frá einni sjoppu til annarar, bókabúð úr bókabúð, storma um stórmarkaði og útskúfa öllum fjölmiðlum sem sýna svo mikið sem innanlærisvöðva af kvenkind. Þetta er gott.
Í beinu framhaldi af þessari vel heppnuðu aðgerð skulum við snúa okkur að öllum ferðamönnum sem lifa ókristilegu líferni. Við viljum til dæmis ekki fólk sem heldur ekki hvíldardaginn heilagann, heiðrar ekki föður sinn og móður, fólk sem stelur og fólk sem hugsar ljótar hugsanir. Burt með slíka ferðamenn.
Hverjir voru það svo sem áttu lokaorðið í þessu svæsna dónamáli?
Íslenskir bændur!
Þegar búið verður að leggja niður íslenskan landbúnað og við kaupum tómata og lambakjöt frá einhverju dónalandinu setjum við alla bændur í ferðamannavörslu. Bændakynið hefur í aldanna rás þróað með sér þann hæfileika að þefa uppi rollur og eftirlegukindur á heiðum uppi. Sá hæfileiki mun örugglega nýtast vel þegar þeir verða settir í að lúsleita að túristum í dónalegum hugleiðingum. Þá fyrst gæti nú orðið ansi fjörugt í réttunum.
Kveðja,
Konni

22.2.07

Hinn endanlegi raunveruleiki

Nú er svolítið um liðið síðan Anna Nicole Smith gekk fyrir ætternisstapann. Þrátt fyrir það er hún ekki enn komin undir græna torfu. Fjölmiðlar fylgjast vel með gangi mála og birta bollaleggingar um næstu skref Önnu til himna. Það munu víst vera einhver formsatriði sem koma í veg fyrir að jarðarför geti farið fram en Konni kann ekki skil á þeim. Einmitt vegna þess að Anna er enn ofar moldu gefst nú kostur á því að framkvæma hinn fullkomna gjörning. Hann mætti kalla: Af moldu ertu komin. Þetta yrði einstakur gjörningur sem myndi ná athygli allrar heimsbyggðarinnar. Jafnvel Konni, sem ekki vildi horfa á myndbandið af Byrgismanninum hlaupa í skarðið, myndi fylgjast með af áhuga.
Af hverju er Anna ekki látin rotna í beinni útsendingu? Lík hennar gæti staðið uppi fyrir framan myndavélar svo við gætum fylgst með hvernig kynbomba verður að mold. Þetta hefur enginn séð fyrr með eigin augum. Gjörningurinn myndi verða í eðlilegu framhaldi af lífshlaupi hennar, fullkomna sýniþörfina. Hvaða raunveruleikaþáttur kæmist í hálfkvist við þennan?
Þegar kynbomban væri svo orðin að engu mætti jarða hana með pomp og prakt.
Á þessu mætti græða milljarða. Hvar eru spekúlantarnir núna?
Kveðja,
Konni

16.2.07

Varið ykkur á dónunum

Einu sinni samdi Konni gamanbrag um konu sem seldi Bleikt og blátt og önnur tímarit í símsölu. Konan sat á kvöldin við símann og vélaði landsmenn til að gerast áskrifendur. Þessi gamanbragur sem Konni samdi og flutti á þorrablóti Vallamanna dró þann dilk á eftir sér að konan, í krafti stöðu sinnar sem símsölukona, hefndi sín fyrir braginn og gerði Konna að áskrifanda að Bleiku og bláu að honum forspurðum.
Skömmu eftir blót fór tímaritið Bleikt og blátt að berast til Konna í stöflum því hann fékk nefnilega nokkra árganga í kaupbæti ... og ekki nóg með það heldur fékk hann svo með fyrsta eintakinu tæki sem var allt í senn skrúfjárn, upptakari og töng.
Þó Bleikt og blátt hafi í upphafi átt að vera kynfræðslublað til að þroska kynlíf landans og að mestu skrifað af saklausum kynhjúkrunarfræðingum þróaðist það nú þannig að dónaskapurinn varð fræðslunni yfirsterkari svo Konni sá sig knúinn til að koma sér út úr þessu klandri með því að segja blaðinu upp, sem hann og gerði.
Það eina sem er eftir af þessum hrekk símsölukonunnar er fjölnota tækið sem hann fékk með fyrsta tölublaðinu.
Nú ætla allir helstu dónar heims að flykkjast til Íslands á næstunni. Konni ráðleggur öllum að forðast í lengstu lög að semja um þá gamanbragi og verða alls ekki á vegi þeirra. Þeir gætu nefnilega flækt þig í einhvern af sínum útsmognu dónavefjum án þess að þú hafir hugmynd um. Það er ekki einu sinni víst að það fylgi töng/skrúfjárn/upptakari með í kaupbæti sem mætti þá nota til að losa sig úr ósómanum.
Verður annars búandi í höfuðborginn á næstunni þegar heimsins svæsnasti dónaskapur og sori bætist ofaná allt svifrykið?
Kveðja,
Konni

13.2.07

Menningarkona við töskufæriband

Um daginn var ég staddur á Reykjavíkurflugvelli nýlentur frá Egilsstöðum og beið við færibandið eftir töskunni minni. Við hlið mér stendur kona sem var líka að koma frá Egilsstöðum. Hún heilsar þar annarri konu og segir stundarhátt að mikið finnist henni nú gott að vera komin aftur í menninguna.
Eitthvað hefur dvölin á Austurlandi farið illa í konuna eða kannski er hún bara einlæg menningaráhugakona með ástríðu fyrir í fögrum listum.
Við þessi orð konunnar þarna við færibandið fór Konni að velta því fyrir sér hvort konan hefði bara ekki rétt fyrir sér. Er Reykjavík ekki sá staður á Íslandi þar sem menningin er mest og best?
Er ekki staðreynd að það er meiri menning í Reykjavík en á Austurlandi? Er ekki líka meiri menning á Egilsstöðum en Borgarfirði eystri. Er þá ekki enn meiri menning í Kaupmannahöfn en í Reykjavík og enn meiri menning í New York en í Köben?
Hvar skyldi svo hápunktur menningar heimsins vera? Hvert ætti menningarkonan við færibandið á Reykjavíkurflugvelli að beina sjónum sínum þegar höfuðborgin fær ekki lengur fullnægt hennar menningarlegu fýsnum?
Var þessi kona kannski menningarfíkill?
Gaman væri að vita hvar hún skyldi vera núna? Á listasöfnum borgarinnar? Að sökkva sér niður í Hómer og Sókrates á Borgarbókasafninu? Í miðri níundu sinfóníu Beethovens? Á óperu Stravinskys í íslensku óperunni. Í nýlistinni hjá þeim í Klink og Bank? Í heimsókn á Gljúfrasteini eða á spjalli í Reykjavíkurakademíunni ... eða ... er hún kannski einmitt núna í Bónus að kaupa snakk og popp og dæetkók fyrir júróvisijónteitið á laugardaginn?
Kveðja,Konni

12.2.07

Konni yrkir minningarljóð

Vegna fjölda áskoranna birti ég hér með ljóð það er ég flutti á Vallablótinu í minningu þess að í ár eru átján ár síðan við Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi og nuddari, upplesari og leikari stigum fyrst saman á svið Iðavalla. Síðan þá hef ég flutt ýmsa bragi um bónda þennan og hefur yrkisefnið verið sótt í búskaparhætti í Vallanesi jafnt sem kvennamál.

Einu sinni var ort:
Í Vallanesi var hér áður voða mikið fjör
Þar voru kýr og hænugrey
og ein og ein jarðarför....

Þess verður að geta að hugtakið hýr sem kemur fyrir í ljóðinu er eingöngu notað til að ríma á móti hugtakinu kýr. Hugtakið hýr verður að skilja í þessu samhengi sem glaðvær persóna en alls ekki samkynhneigð.

Minningarljóð

Ó, minn kæri Eymi
aldrei þér ég gleymi
á Iðavöllum forðum,
er fólk sat undir borðum,
við fórum fyrst á svið.

Þú í grænum jakka
og ég í svörtum frakka
hjörtu allra unnum,
það ennþá báðir kunnum
að kæta kvenfólkið.

Nú göngum við á gleðifund
og gott er nú að vera hýr.
Í Vallanesi engar kýr
nú spígspora um grund.
En lerkilundur grænkar brátt
í skauti þínu sig hefur hátt
Héraðsskógur hlýr.

Ég vona að allir ljóðaunnendur sérstaklega í hópi Vallamanna muni hafa lúmskt gaman af kvæðinu. Síðan á ég þá ósk að við Eymundur í Vallanesi munum eiga önnur góð átján ár saman á þorrablóti Vallamanna.
Kveðja,
Konni

7.2.07

Konni er orðinn samfélagslegt afl!

Konni er yfir sig glaður þessa stundina því svo virðist vera að áhrif pistla hans nái jafnvel inn á hið háa Alþingi.
Fyrir nokkru spurði Konni hver væri afstaða formanns Samfylkingarinnar til stóriðjumála í Hafnarfirði. Konni bjóst ekki við því, er þessi spurning var borin fram, að henni yrði svarað úr ræðustól Alþingis. Það er greinilegt að formaðurinn les Konna.
Konni hefur greinilega áhrif á gang mála í landinu.
Auðvitað hefði verið skemmtilegara hefði formaðurinn svarað spurningunni hér á síðunni, hún gerir það bara næst. Konni þakkar hér með formanni Samfylkingarinnar fyrir að gefa sér tíma til að svara Konna úr ræðustól Alþingis.
Og það sem meira er, svarið var gott.
Kveðja til Ingibjargar Sólrúnar,
Konni

5.2.07

Jökuldælsk daðurfræði

Konni fór á þorrablót og skemmti sér vel. Það kom að því að Konni fór að lýjast svona upp úr klukkan þrjú um nóttina enda búinn að vera vakandi frá því hálf sjö um morguninn, fljúga yfir landið þvert og endilangt, vísitera Hallormsstað og Egilsstaði og stjórna söng fyrir glaða Vallamenn.
Er líða tók á blótið settist Konni sem sagt niður í arinstofu Iðavalla, dasaður með krosslagðar hendur, teygði úr sér og geispaði. Spratt þar þá upp Jökuldælingur einn sem sagðist ekki geta horft upp á Konna. Jökuldælingurin benti honum á að hann sæti milli fagurra meyja. Eftir því hafði Konni nefnilega ekki tekið. Jökuldælingurinn átti ekki orð yfir hversu lélegur Konni væri til kvenna. Karl milli tveggja fagurra blómarósa á ekki að sitja með krosslagðar hendur og geispa. Við þannig aðstæður á karl sem einhver töggur er í að efna til heiðarlegs daðurs og nota hendurnar til einhvers sem vit er í. Konni náði nú áttum eftir orrahríð Jökuldælingsins, tjáði honum að þetta væru giftar konur og minnti hann á 10. boðorðið. Sagði Jökuldælingurinn að þetta tíunda boðorð hefði aldrei aftrað Jökuldælingum frá því að nálgast konur og það stæði alls ekki í vegi fyrir daðri ef það væri framkvæmt af fagmennsku. Daður er nefnilega ekki það sama og daður sagði hann.
Nú þarf Konni nokkurn tíma til að nema jökuldælsk daðurfræði þannig að aldrei aftur geispi hann með krosslagðar hendur milli föngulegra meyja á þorrablótum.
Kv.
Konni

1.2.07

Hvers eiga harmónikkuleikarar að gjalda?

Kátt var á hjalla við veitingu tónlistarverðlaunanna í gærkvöldi. Ekki er hægt að segja annað en fulltrúar unglingatónlistarinnar hafi gengið frá borði með fangið fullt af verðlaunum. Það virðist því miður vera þannig þessi árin að bernskuæfingar unglinganna eru taldar hápunktur listrænna afreka okkar í tónlist. Þó voru þar undantekningar á sem betur fer því skipuleggjendur báru gæfu til að kjósa alvöru tónlistarmann, fiðluleikara, sem björtustu vonina og Skúli Sverrisson hlaut verðlaun fyrir frábæra plötu. Þetta fólk kemur ekki reglulega fram á Bylgjunni, X-97.7 eða FM- 105.5 og hinum unglingastöðvunum svo almenningur kemst aldrei í tæri við þeirra tónlist og fer á mis við mikið. Ólafur Gaukur hefur líka verið minn maður frá því í gamla daga svo hann var vel að sínum heiðursverðlaunum kominn.
Þegar tilnefnt er til íslensku bókmentaverðlaunanna er ekki grautað saman unglingasprikli og alvöru bókmenntum. Þegar vín er vegið og metið er Bláa nunnan skilin eftir heima þó svo okkur unglingunum hafi þótt það ódýrt og svalandi hér í dentíð. Þegar kemur að tónlist er öllu hrært saman. Allt þykir jafngilt. Myndum við til dæmis setja Halldór Laxness og Andrés Önd saman í flokk klassískra bókmennta?
En varðandi þessi tónlistarverðlaun ætla ég að stinga upp á nokkrum flokkum til viðbótar. Í fyrsta lagi besti kirkjukórinn. Í öðru lagi besti blandaði kórinn utan Reykjavíkur. Í þriðja lagi besti Húnvetningakórinn. Í fjórða lagi besti kórinn sem tengist íþróttafélagi. Í fimmta lagi besti gítarleikarinn í hópi leikskólakennara. Í sjötta lagi besti tónmenntakennarinn. Í áttunda lagi besti útfararkórinn. Í níunda lagi besti besti blokkflautuhópurinn og í tíunda lagi besti harmónikkuleikarinn af landsbyggðinni ... því hvers eiga harmónikkuleikarar að gjalda?
Þá fyrst myndi nú færast fjör í leikinn.
Kveðja,Konni