30.10.06

Særður kórstjóri

Kunningi minn sem er kórstjóri í virðulegum átthagakór er mjög sár þessa dagana eða eiginlega algjörlega miður sín. Ástæðan er sú að áhrifakona í tónlistarbransanum ruglar honum alltaf saman við parketlagningarmann.
Þegar kórstjórinn hittir þessa konu minnist hún aldrei á tónlistarafrek hans. Hún talar hins vegar mikið um að nú þurfi hún að fara að skipta um parket, þessi eða hin spýtan sé laus eða vill fá almennar ráðleggingar um parketlagnir. Þetta sárnar kórstjóranum.

Konan minnist ekki á tónlistarafrekin eða átthagakórinn.
Það er nú ekki svo að parketlagnir séu ekki virðingarverð atvinnugrein en það er ansi neyðarlegt þegar störf manns á sviði listarinnar eru ekki eftirminnilegri en svo að það fyrsta sem kemur upp í huga áhrifakonu í bransanum, þegar hún hittir kórstjórann sjálfan, séu parketlagnir.

Þetta ekkert annað en gengisfelling á manninum, nánast eins og spark í viðkvæman stað. Ég veit að honum hefði ekkert sárnað þó honum hefði verið ruglað saman við stjórnanda Sinfóníuhljómsveitarinnar eða einhvern frægan hljóðfæraleikara...en parketlagningarmann, verra gat það ekki verið.
Ég hef nokkra reynslu á þessu sviði því einu sinni var mér ruglað saman við frægan leikara, sjálfan Róbert Redford. Það var sko ekki gengisfelling. Að líkjast frægri persónu styrkir sjálfstraustið svo óskaplega mikið. Ég lifi enn á þessu. Þess vegna finn ég svo innilega til með kórstjóranum sem er ruglað saman við parketlagningarmann.
Kv.
Konni

28.10.06

Elskum niður verðbólguna eða er ást hagkvæm?

Að mínu mati felst mesti fjársjóður hvers samfélags í þeirri orku sem ástin er. Þess vegna hlýtur ást að vera hagkvæm fyrir þjóðarbúið. Og það sem meira er samlíf hjóna styrkir ónæmiskerfið, það hafa rannsóknir sýnt. Fólk sem iðkar samlíf af krafti þarf síður á samfélagslegri þjónustu að halda. Öflugt samlíf hjóna stórbætir andann í samfélaginu og hjón eða sambúðaraðilar af öllu tagi ættu að njóta samfélagslegrar umbunar ef sýnt er fram á líflega samlífsiðkun. Þetta ættu frjálshyggjumenn jafnt sem jafnaðarmenn að athuga.
Ef ég væri á þingi myndi ég koma á fót Samlífsstofnun sem hefði þær skyldur að mæla samlíf í samfélaginu. Daglega yrði birt vísitala samlífs sem hefði beina tengingu við stýrivexti Seðlabankans. Eftir því sem þjóðin elskaðist meira því lægri yrðu vextirnir. Þjóðin gæti sem sé elskað niður verðbólguna. Þannig yrði verðbólgan í höndum okkar allra. Einhleypt fólk gæti svo lagt sitt af mörkum með samfélagslegri ást eða kærleika af ýmsu tagi. Samlífsvísitalan yrði birt í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna þannig að öll pör landsins gætu gengið til náða vitandi til hvers væri ætlast af þeim.
Stöðvum verðbólguna!

26.10.06

Með nafla úr Nyloni

Nú ligg ég íðí. Ég þarf að fá mér tattú. Ástæðan er sú að ég get ekki lengur farið í sund eða afklæðast á almannafæri. Ég er nefnilega óhúðflúraður. Ég er einn af þeim fáu sem ekki hef skreytt líkamann. Hérna áður fyrr voru það bara sjóarar sem höfðu látið flúra sig í útlöndum. Ég stóð í þeirri trú að það hefðu þeir gert útúrdrukknir. Því engir nema útúrdrukknir sjóarar létu flúra sig. Þeir sátu síðan uppi með fylleríið ævilangt. Nú þarf ekki fyllerí til. Fólk á öllum aldri streymir til flúrara og lætur setja á sig tattú. Um hábjartan dag fara jafnvel huggulegustu konur og láta flúra sig. Ekki myndir af berum skvísum og akkerum eins og sjóararnir gerðu, nei nú eru það austurlensk tákn og hinar furðulegustu myndir. Ég hef meir að segja séð mann með Nike merkið á hendinni. Svo er þetta út um allt á fólki. Kínverskt tákn á ökklanum þykir sveipað einhverri dulúð og er sérlega sexý. Kínverst tákn milli herðablaðanna er líka dulúðugt en ekki eins sexý. Að sögn táttómeistaranna sjálfra, er hlúðflúr jafnvel á leyndustu stöðum líkamans.
En ég er ekki með tattú!
Úr því þarf að bæta.
Ég hef því ákveðið að láta flúra mig. Þannig verð ég aftur gjaldgengur í hvaða sundlaug sem er.
Þetta er samt ekki eins auðvelt mál og ég hafði ætlað.
Hvar ég á að láta setja flúrið og hvernig á myndin að vera? Þetta hefur valdið mér miklu hugarangri síðustu daga.
Staðsetning húðflúrs er nefnilega mjög mikilvæg.
Myndin er steitment og staðsetningin líka svo þetta verður að vera úthugsað því maður eyðir ekki tattúi með því að fara í bað. Mitt tattú á að vera á mjög áberandi stað a.m.k svo það sjáist vel í sundi og ekkert Kína-tákn.
Af hverju flúrar fólk ekki á sig umferðarmerki. Þar ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
T.d. merkið reiðmenn, eða vegur þregnist eða jarðgöng eða takmarkaður ásþungi? Þetta yrði skemmtilegt. Þessi Kínatákn eru svo ófrumleg.

Ég fékk hugmynd. Hvernig væri að flúra á mig allar stelpurnar í Nylon.
Spurningin er bara hvar á ég að koma þeim fyrir? Kannski í kringum naflann?
Kv.
Konni

24.10.06

Kona sem skýtur með vinstri

Samfylkingin er flokkur sem ætti að höfða til flestra. Flokkurinn er nefnilega þeirrar náttúru að vera með og á móti öllum málum. Það hentar vel okkur sem fylgjumst með hinum kynlegu hliðum tilverunnar. Nú alveg á næstunni ætlar flokkurinn að velja fólk á lista fyrir kosningarnar í vor. Reyndar er í gildi auglýsingabann hjá flokknum svo það er ekki nema á færi stjórnmálafræðinga og leyniþjónustusérfræðinga að þefa uppi hverjir vilja á þing fyrir Samfylkinguna.
Það er nú annað ástandið hjá Sjálfstæðisflokknum. Flenniauglýsingar af dásamlegu fólk.
Um daginn sá ég í eigin persónu rektor háskóla nokkurs í Reykjavík þylja lofþulu um sjálfa sig fyrir fram hóp af fólki á sjálfum Austurvelli. Fólkið var vopnað kvikmyndavél, ljósum, hljóðupptökugræjum og stórum spegli sem endurvarpa átti ljósi á skuggahlið rektorsins. Það er sko ekkert auglýsingabann á þeim bæ. Það er óskandi að auglýsing rektorsins hafi tekist vel.
En þar sem Samfylkingin vill hafa sitt fólk fyrir sig og sína og auglýsa alla jafnt sé ég mig knúinn að auglýsa einn frambjóðanda umfram aðra því sá frambjóðandi má ekki falla milli stafs og hurðar. Reyndar varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum með þessa jafnaðarmennsku hjá Samfylkingunni því ég var búinn að hanna auglýsingaherferð fyrir þá sem hér um ræðir. Herferð sem hefði örugglega skilað henni á þing. En ég verð víst að lát nægja þessa bloggsíðu Konna kynlega. Sú sem hér verður auglýst er kona, mikil kostakona og brátt alþingiskona. Kona sem er sannkallaður hvelreki fyrir flokkinn, frábær málsvari lítilmagnans og glöð kona í alla staði. Þetta er Jónína Rós,menntaskólakennari á Egilsstöðum og fyrrverandi barnakennari á Hallormsstað. Annáluð glæsikona til hugar og handa, dönsku- og stærðfræðikennari og hestakona. Nína fer ekki í grafgötur með skoðanir sínar. Nína hefur afgerandi skoðanir og mun því eiga sinn þátt í að rétta kúrs Samfylkingarinnar Jónína er nefnilega ekki með og á móti öllum málum. Þó það þyki gott að geta skotið bæði með hægri og vinstri í fótbolta hentar það ekki í stjórnmálum. Jónína skýtur bara með vinstri. Í handbolta þykir það ótvíræður kostur að geta kastað með vinstri. Skot frá vinstri kemur andstæðingunum alltaf á óvart.
Jónína Rós hefur mikla reynslu af því að koma fram og kemur vel fyrir sig orði. Hennar minnast Vallamenn af þorrablótum á Iðavöllum og fyrir mörgum árum var Nína í hlutverki Fjallkonunnar á 17. júní á Egilsstöðum fór sú athöfn fram í tjaldi í Egilsstaðaskógi.
Nýlega barst mér bréf frá Nínu. Okkar hugmyndir um störf á hinu háa Alþingi fara alveg saman svo mér er það mikið kappsmál að veldi hennar verði sem mest. Ég birti bréfið með leyfi forseta. Bréf Nínu er svohljóðandi:
Kæri Konni!
Mun innleiða hugmyndir þínar á hið háa Alþingi ef mér verður treyst til setu þar. Er innilega sammála þér um að ástríður eru eldsneyti frjórrar hugsunar og hvers kyns skemmtilegheita. Áfram Konni.
Kveðja frá Nínu í prófkjöri
Austfirðingar, í guðanna bænum kjósið Nínu á þing!
Ykkar Konni

21.10.06

Mikill er máttur brjóstahaldara og síðra nærbuxna

Mikill er máttur brjóstahaldara. Rétt stærð af brjóstahaldara getur hækkað konur um 5 sentímetra og grennt þær um 5 kíló. Þessi frétt er í Blaðinu í dag. Í viðtali við konu sem er stílisti kemur fram að flestar konur séu óánægðar með líkama sinn en hún segir: ... að með réttu fötunum geturðu grennt þig, hækkað þig, minnkað rassinn og svo framvegis.
Í greininni er konum síðan gefin fimm góð ráð til að stækka brjóst og fjögur ráð til að minnka rass.
Klæðaburður er sjónhverfing er svo fyrirsögn greinarinnar. Já mikill er máttur brjóstahaldara.
Segjum sem svo að karl og kona felli hugi saman með þvílíkum smelli að óhjákvæmilega þurfi að fjarlægja brjóstahaldarann. Ef konan er með rétta stærð af brjóstahaldara má maðurinn búast við því að konan lækki um 5 sentímetra og þyngist um fimm kíló við þá athöfn. Slík skyndibreyting á konunni gæti komið á óvart og haft afdrifaríkar afleiðingar á sambandið. Væri því ekki bara betra fyrir konur almennt séð að ganga í vitlausri stærð af brjóstahaldara? Er ekki betra að líta út eins og maður er í raun heldur en að líta út eins og maður er ekki?
Hins vegar hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig við karlar gætum sjónhverft útlit okkar eins og konur. Hef ég komist að þeirri niðurstöðu að til að sýnast hærri en maður er í raun sé nauðsynlegt að ganga í réttri stærð af síðum nærbuxum. Til að sýnast styttri, ganga um í réttri stærð af íþróttabindi.
Önnur alvarleg líkamslýti sem stílistar kynnu að fetta fingur út í má sjálfsagt fela með ýmsu móti en stóra bumbu og rass mætti til dæmis hylja með því að læra til prests og ganga um í hempu.
Gaman væri ef lesendur legðu nú til góð til karla því hvers eiga þeir að gjalda?
Kveðja
Konni

19.10.06

Getur maður átt mikið undir sér í sundlaugum?

Sundlaugar eru kynlegir staðir. Þar eru allir jafnir. Fólk í sturtu er alveg umbúðalaust þ.e. eins og það er af guði gert. Í sturtum er alveg vonlaust að sjá hversu mikið fólk á undir sér. Það vantar umbúðirnar. Um daginn dormaði ég í heitum potti með manni sem ég þekkti ekki neitt. Þessi maður skar sig ekkert úr hópi sundlaugargesta. Hins vegar þegar hann var alklæddur og einkum og sérílagi þegar ég var samferða honum út og sá í hvers konar bíl hann settist upp í rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði setið í potti með forríkum manni. Þetta var maður í miklum umbúðum, flottum og dýrum fötum og dýrum og flottum bíl.
Ríkt fólk hefur þá tilhneigingu til að skera sig úr. Það klæðir sig í rándýr föt, á rándýra bíla, býr í rándýrum húsum, kaupir sér jarðir og byggir rándýra sumarbústaði auk allra utanlandsferðanna og hins ljúfa lífs. Auk þess nýtur það þeirra forréttinda að komast í Séð og heyrt, Mannlíf, viðtal við Jón Ársæl og Gestgjafann.
Í sundlaugunum er það hins vegar gersamlega eins og ég og þú.
Þá er það spurning vikunnar:
Getur forrík allsber manneskja, eða bara maður í sundskýlu eða kona í sundbol borið með sér ríkidæmi sitt?
Kv
Konni

Jónas frá Hriflu endurborinn í vinnu hjá Sjóvá

Það er ekkert sem fer meira í taugarnar á okkur í kynlegheitunum en plebbar. Plebbar geta verið af ýmsum toga. Það eina sem sameinar þá er heimska og sérílagi þröngsýni. Plebbar halda að nútíminn hafi hafist þegar þeir fæddust. Þetta er yfirleitt hámenntað fólk en er samt að hluta til fávíst. Einn plebbin talar í Fréttablaðinu í gær og vinnur hann hjá Sjóvá. Sjóvá ætlar nefnilega að fara að kaupa listaverk af okkar yngri listamönnum. Það er auðvitað gott. Það ætla þeir að gera með því að selja verk eftir eldri myndlistarmenn jafnvel þá sem eru taldir til okkar gömlu meistara. Þetta er allt gott og blessað. En hver er ástæðan? Jú, verk gömlu meistaranna passa ekki inn í þá ímynd sem Sjóvá vill sýna. Starfsmaðurinn segir: ...okkur þótti rétt að endurskoða í leiðinni (þ.e. í leiðinn og þeir endurhönnuðu skrifstofurnar, insk. Konna) hvernig myndlist við viljum hafa í kringum okkur. Í nýja húsinu er mikið um opin rými, létt er yfir öllu og einfaldleikinn ríkir. Myndlist sendir mjög sterk skilaboð og okkur fannst þau klassíksu verk sem við áttum ekki eiga við þá ímynd sem við viljum skapa." Sem sagt, þetta snýst allt um ímynd. Plebbinn er að kaupa veggfóður af íslenskum myndlistarmönnum. Plebbinn hefur ekki hundsvit á list því fyrir honum er list húsgagn eða mubbla. Skyldi hann hafa kynnt sér list eitthvað sérstaklega, það efast ég um, en hann horfir örugglega á þáttinn Innlit-útlit. Ætli starfsfólkið verði ekki líka hannað, auðvitað verður enginn gamall meistari þar á meðal. Sem sagt list á að selja tryggingar rétt eins og tónlistin frá Mjúsakk átti að örva sölu í stórmörkuðum eða láta fólki líða vel í flugstöðvum.
Á sínum tíma hélt Jónas frá Hriflu sýningu á myndlist sem honum geðjaðist ekki að. Nú er Jónas, endurborinn kominn í vinnu hjá Sjóvá. Við bíðum eftir sýningu á myndlist sem ekki er í tísku. Eða kannski verði hlegið að þessum verkum í næsta þætti af Innliti-útliti.

Þannig er því miður afstaða plebbana til tónlistar og sennilega allra lista sem varð til fyrir þeirra tíð. Hún passar ekki við lúkkið. Þeir fara á örugglega Icelandic Airwaves en slepptu Jóni Leifs. Ætli þeir hafi heyrt af Bach? kv. Kobbi

17.10.06

Íslenska er kynlegt tungumál

Margt er það í íslensku máli sem lýkst upp fyrir manni seint og um síðir. Hver man ekki eftir textanum í Heims um ból eða Þorraþrælnum 1866 eða Öxar við ána svo eitthvað sé nefnt. Í æsku og lengi fram eftir aldri var margt í þessum textum mér alveg óskiljanlegt. Hvað þýddi til dæmis Öxar við ána árdags í ljóma....eða signuð mær son guðs ól?
Nú nýlega birtist á vef Morgunblaðsins, mbl.is frétt sem einmit opnaði fyrir mér nokkuð sem ég hef aldrei skilið fyllilega en það er orðtakið "...að hafa á klæðum..." Sagt er að konur hafi á klæðum og klæði eru höfð í fleirtölu þágufalli. Þökk sé þessari frétt á vef Morgunblaðsins að nú skil ég þetta orðtak fullkomlega. Í fréttinni segir: "SÁLFRÆÐINGAR við Kaliforníuháskóla halda því fram að konur klæði sig í djarfari föt eða "flottari" á mælikvarða tískunnar á þeim tíma tíðahrings þegar egglos er." Þarna er skýringin komin. Er þetta ekki einmitt að hafa á klæðum?
kv.
Konni

15.10.06

Það er svo margt kynlegt

Mér finnst svo margt kynlegt þessa dagana. Það er eins og það kynlega sé á einhverskonar uppleið í samfélaginu og við sem erum sérstakir áhugamenn um hið kynlega kippumst við yfir undarlegheitunum þó við séum nú öllu vanir.
Kynlegheit nr. 1
Í gær fór ég á magnaðan flutning á Eddunni hans Jóns Leifs og hafði af því mikla unun. Mér finnst ekki viðeigandi að kalla það beint gaman því það hugtak nær ekki yfir þessa upplifun. Það kynlega var að ekki var uppselt á tónleikana. Eiginlega finnst mér að tvennir þrennir tónleikar á verkinu hefðu ekki verið óeðlilegir miðað við hversu mikill viðburður þetta var. Jæja, sem sagt ekki uppselt. Kynlegt!
Kynlegheit nr. 2
Í dag fór ég svo á þá merkilegu sýningu Pakkhús postulana í Listasafni Reykjavíkur og svo á Kjarvalsstaði á aðra merkilega sýningu á verkum Þórdísar Aðalsteinsdóttur auk smá innlits á gömlu meistarana. Það kynlega var að það var sko svo sannarlega ekki uppselt á þessi söfn í dag. Þó rigndi og rigndi og alveg upplagt að skella sér á listsýningar. Nei, segja má að ég hafi geta talið samtals gesti á báðum söfnunum á tám og fingrum. Þetta fannst mér líka kynlegt!
Kynlegheit nr. 3
Hvar vour allir? Jú, þeir voru að skoða nýja vöruhúsið hjá IKEA og á afmæli Smáralindarinnar. Er það ekki absúrd?
Spurning dagsins:
Er andleg krísa í landinu?
Kv.
Konni

Konur og freyðiböð

Hámarksunaður margra kvenna er að fara í gott freyðibað, unaðurinn er því meiri því þykkari sem froðan er. Þetta finnst mér afar merkilegt fyrirbæri. Hvers vegna þykir konum gott að fara í freyðibað? Af hverju kunna karlar ekki á freyðiböð?
Ég þekki engan karl sem fer í freyðibað og finnst það gott. Eina froðan sem ég sé karla njóta er froðan sem myndast ofan á bjór. Því mætti segja að eini líkamshlutinn sem körlum finnst gott að baða í froðu séu varirnar.
Konur vilja hins vegar liggja í froðu. Ég fór í freyðibað um daginn bara til að prófa auðvitað. Hvað haldið þið að hafi gerst? Froðan varð að engu. Þegar ég lá þarna í baðkarinu froðulaus datt mér í hug hvort froðan væri bara ekki til að hylja nekt og veita öryggi því maður er ansi allsber í baðkari án froðu.
Konni

Golf er sannarlega tilvalin íþrótt fyrir hjón

Kæru lesendur.
Golf er mjög skemmtileg íþrótt fyrir hjón eða sambúðaraðila af öllu tagi. Nú þegar haustar og golfáhugamenn þurfa að leggja kylfunum er ekki úr vegi að líta á ýmis tækifæri sem golfáhugamenn gætu nýtt sér til að viðhalda áhuganum yfir veturinn því ekki eru allir golfspilarar svo stöndugir að þeir geti leikið sínar átján holur í fjarlægum löndum.
Það sem ég á einkum við er að hugtök og hugtakanotkun íþróttarinnar á vel við bak við luktar dyr hjónaherbergisins. Þannig geta hjón sem leika saman golf notað hugtök íþróttarinnar sér til gleði og ánægju uns sól hækkar á lofti á ný. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að sjá tækifærin. Tökum til dæmis hugtökin kylfa, hola, teigur og pútter. Öll þessi hugtök geta golfhjón notað sér til skemmtunar í skammdeginu undir hlýju hjónasængur. Já, fjölskrúðugt táknmál ástarinnar getur auðgað hjónabönd og viðhaldið ástinni. Sem betur fer iðka hjón afar sjaldan saman knattspyrnu því hugtök knattspyrnunnar eiga afar illa við í ástarlífinu. Hugtök eins og vítateigur, útspark, varamaður og innkast.
Af þessu má sjá hversu heppileg golfíþróttin er fyrir hjón.
Kveðja,
Konni

13.10.06

Ástríður á Alþingi

Ýmsir vilja á þing ef miða má við alla þá sem taka þátt í prófkjörunum. Frambjóðendur keppast við að kynna sig. Þeir tíunda baráttumál og kynna sína persónu í viðamiklum auglýsingum. En er ekki kominn tími til að við kynnumst stjórnmálamönnum okkar frá nýrri hlið. Viljum við ekki öll einmitt kynnast ástríðum stjórnmálmanna? Er ekki afleitt ef á þing velst ástríðulaust fólk? Viljum við þannig fólk á þing? Hér með skorar Konni á þjóðina að sameinast um að kjósa á þing fólk með ástríður. Ef þingmenn nytu ásta af meiri krafti er ég viss um að lagasetningar og svo staða þjóðarbúsins gengi betur fyrir sig. Þá yrði til dæmis aldrei þæft fram undir morgun um ýmis leiðindamál því þingmenn væru löngu komnir heim til að njóta ásta. Þetta gæfi þjóðinni allri gott fordæmi rétt eins og Davíð Oddson sýndi er hann gekk um bæinn með bundið fyrir augu í einn dag í þágu blindra. Hefði ekki líka verið snjallt af honum að vera heima eða í faðmi konunnar í sumarbústaðnum eins og einn dag. Fjölmiðlar myndu safnast saman við heimilið eða sumarbústaðinn og að kvöldi kæmi ráðherrann og eiginkonan út í silkisloppum og ráðherrann lofaði meyna sem dæsti af ánægju. Þannig stjórnmálamann vil ég fá á þing. Kjósum ástríður á þing.

Konni kynlegi kynnir sig

Þá er loksins komið að því að ég, vegna fjölda áskorana, hef ákveðið að verða við beiðni ýmissa kvenna á besta aldrei að veita þeim þá ánægju að uppfræða þær um kynleg fræði. Einkum verður höfðað til kvenna á Fljótsdalshéraði því þær hafa sýnt málinu sérstakan áhuga. Vonandi sýna aðrar konur viðlíka þroska og fróðleiksfýsn og þær. Gleðikvennafélag Vallahrepps verður stuðningsaðili minn við þessi skrif og þigg ég frá þeim góð ráð. Kynleg fræði eru skilgreind sem þau vísindi sem höfða til kynlegheita. Þetta eru ekki bein kynfræði, samanber hugtakið kynfræðsla heldur miklu dýpra og hnitmiðaðra hugtak sem engum hefur tekist að komast til botns í ennþá. Öllum er velkomið að beina spurningum til mín og mun ég reyna eftir bestu getu að fullnægja fyrirspyrjendum. Mér til halds og traust er siðgæðisvörður sem gengur undir því vafasama og villandi dulnefni miss Drunkenboldt. Hún hefur heitið því að standa vörð um siðgæði síðunnar því ég á það til að fara yfir strikið. Þeir sem óska eftir að verða skráðir á aðdáendalistann þurfa að senda mér línu eða kommennt. Kær kveðja til ykkar allra Konni kynlegi.