29.1.07

Látum sérfræðingana ráða

Ég sá í fjölmiðlum að nú sé einmitt verið að velja stúlkur til að taka þátt í fegurðarsamkeppnum um allt land. Það hlýtur að vera vandasamt. Þeir sem að þessu standa hljóta að hafa gríðarlega mikið vit á fegurð og óbrigðulan smekk. Í keppnunum sjálfum eru það svo dómnefndir skipaðar sérfræðingum sem velja fegurstu konur Íslands. Að mati Konna er þetta einmitt dæmigert fyrir hvernig standa á að keppnum af ýmsu tagi. Látum sérfræðingana velja ... alls ekki almenning. Afrakstur vals þessara fegurðarsérfræðinga er líka óumdeilanlega mjög góður. Við höfum átt fjórar alheimsfegurðardrottningar.
Ef almenningur hefði valið ættum við ekki eina einustu alheimsfegurðardrottningu því almenningur velur auðvitað bara frænku sína eða sveitunga en kastar lögmálum fegurðar út í hafsauga, klíkuskapur er okkar fag. Öll fjölskyldan er svo gerð út með gemmsana sína og tölvurnar til að kjósa frænkuna fram undir morgun og leitað allra leiða til að svindla samanber Magna-sumarið 2006.
Það verður ekki fyrr en sérfræðingar fara að velja Júórvísíónlagið að við eigum einhvern möguleika á vinningi, þó ekki væri annað en að komast inn í aðalkeppnina. Hættum að blanda almenningi í málið. Mér datt líka í hug hvort við ættum nokkuð að vera blanda almenningi í næstu kosningar. Getur þjóð sem ekki ber gæfu til að velja almennilegt júróvisíónlag valið sér góða stjórnendur?
Kveðja,
Konni

27.1.07

Sumir þora ... ekki ...alltaf

Formaður Samfylkingarinnar segir að sá flokkur þori meðan aðrir þora ekki. Í sömu ræðu segir formaðurinn að flokkar eigi bara að hafa svona heildar stefnu í virkjanamálum en hins vegar eigi íbúar hvers svæðis að velja hvort þeir vilji álver eða virkjun eða bæði virkjun og álver. Pólitíkusar eru að gera sér grein fyrir því að umhverfismál eru heit mál nú á dögum, sumir reyndar með brunasár eftir framgöngu sína á Austurlandi. En flokkur sem þorir að taka á öllu meðan aðrir flokkar þora ekki, samkvæmt ræðu formannsins í dag og hefur auk þess nýlega gefið út umhverfisstefnu hlýtur líka að hafa skoðun á því hvort byggja eigi álver hér og þar og allsstaðar, annað er aumingjagangur. Reyndar sýnist mér þetta vera afstaða hjá stjórnmálamönnum í fleiri flokkum sem sýnir hvað þeir eru hræddir við að hafa skoðun á þessum málum. Með því að láta íbúa þessa lands kjósa hér og þar um hitt og þetta eru stjórnmálamenn að koma sér hjá því að hafa skoðun. Það má vel efna til atkvæðagreiðslna um hin ýmsu málefni utan hefðbundinna kosninga en við eigum heimtingu á að fá fram skoðanir stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna, annars eru þeir ónytjungar. Vill formaður Samfylkingarinnar stækka álverið í Hafnarfirði eða ekki? Eða þorir hann kannski ekki .. alltaf?
Kv
Konni

24.1.07

Tólf tímar á tali

Enn sækir Konni yrkisefni í ríka fólkið í fjölmiðlunum. Um helgina var heil síða í Fréttablaðinu helguð stjórnarformanni West Ham. Ljósmyndari fylgdist með honum í tólf tíma einn daginn og tók myndir sem síðan voru birtar í blaðinu. Á einni þessara mynda var stjórnarformaðurinn að tala í tvo farsíma í einu og myndatexti greindi frá því að þannig hefði það nú gengið þessa tólf tíma sem ljósmyndarinn fylgdist með formanninum. Það hlýtur að vera kúnst að tala í tvo farsíma í einu í tólf tíma samfleytt. Þannig er sennilega líf fjárfesta daginn út og daginn inn, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár því starf þeirra krefst þess að vera í góðu sambandi ... annars geta þeir átt það á hættu að tapa öllu ... menn verða nefnilega að eiga fyrir Michael Jackson á næsta stórafmæli.
Hvernig liti heimurinn út í dag ef Maó formaður hefði átt tvo farsíma eins og stjórnarformaður West Ham og talað í þá báða tólf tíma á dag? Mér datt þetta í hug þegar ég horfði á heimildarmyndina um Maó formann. Hann átti ekki einn einasta farsíma en stjórnaði samt með harðri hendi heilu heimsveldi. Honum tókst meir að segja að fá 800 milljónir manna til að klæðast nákvæmlega eins búningum sem er mikið afrek miðað við formanninn, manninn með símana tvo, sem aldrei nær nema ellefu strákum í eins búning og það bara í 90 mínútur í senn.
Kv.
Konni

19.1.07

Forstöðumenn ættu ekki að eiga upptökutæki

Konni lenti í ægilegri klemmu í dag, lengi vel vissi hann ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga.
En eins og alþjóð veit mun fyrrverandi forstöðumaður trúarheilbrigðisstofnunar austur í sveitum hafa stundað leiki sem ekki eru kenndir á leikjanámskeiðum Æskulýðs- og tómstundaráða víða um land.
Forstöðumaðurinn mun hafa tekið þessa leiki upp á myndband og er svo sem ekkert óeðlilegt við það því fólki finnst yfirleitt gaman að varðveita minningar frá ýmsu sprelli í faðmi góðra vina.
Myndbönd verða nefnilega frábær heimild seinna meir um liðna tíð sem gaman verður að orna sér við í ellinni og sýna barnabörnunum.
Eitt þessara fjölskyldu-kynningarmyndbanda forstöðumannsins hefur nú ratað á netið og klemma Konna var sú að honum bauðst að skoða það í dag. Konna finnst yfirleitt ekkert gaman að horfa á fjölskyldumyndir frá fólki sem hann þekkir ekki neitt, en þetta myndband kitlaði svolítið.
Átti Konni að horfa á myndbandið eða átti Konni ekki að horfa? Þetta var meiriháttar klemma því honum var sagt að forstöðumaðurinn hefði kannski ekki átta að ýta á record-takkann við þessar kringumstæður því hann mun einmitt hafa verið að hlaupa svolítið í skarðið... eða var það fram fram fylking?
Eftir langa umhugsun, því Konna langaði í aðra röndina að skoða forstöðumanninn í leikjum sínum, ákvað Konni að leiðast ekki í freistni.
Mikið er Konni glaður núna að vera laus við að eiga einhversstaðar í skúmaskotum hugans, minningar um forstöðumann í fullorðinsleik.
Kv.
Konni

17.1.07

Playboy-kóngur fjölgar sér með rótarskotum

Nýir möguleikar opnast við að flytja til LA, boðið að sitja fyrir í Plaboy. Þessa fyrirsögn sá ég í einhverju blaði um daginn. En þannig er að hin margumtöluðu Beckham-hjón eru að flytja til ELL-EI. Er það fréttist tók herra Heffner Playboy-kóngur mikinn fjörkipp og falaðist eftir frú Beckham á síður tímarits síns. Kallinn er ekki dauður úr öllum æðum þó mér sýnist nú þetta boð Heffners vera ótvírætt brot á tíunda boðorðinu um að engin skuli girnast konu náunga síns en það er nú önnur saga. Eðlilega sá frú Beckham í gegnum karlinn og afþakkaði "gott" boð þó hann borgar nú vel, það má hann eiga.
Hvort þessir möguleikar standi öllum til boða við flutning til LA er ósennilegt en mér finnst Byggðastofnun mætti læra af þessu. Af hverju býður hún ekki því fólki sem vill flytja út á land upp á eitthvað krassandi til dæmis eins og umfjöllun í Séð og heyrt eða Hér og nú.
En angar Playboy-veldsins teygja sig alla leið til Íslands. Hugh Heffner fjölgar sér greinilega með rótarskotum eins og öspin því nú eru að skjóta upp kollinum hér á Íslandi skilgetin afkvæmi hans. Já, sannkölluð rótarskot. Nú er verið (samkvæmt Blaðinu í dag) að skipuleggja risastórt Playboy-partí á veitingastaðnum Nasa við Austurvöll.
Samkvæmt Heffners-syni, skipuleggjanda kvöldsins, er lögð áhersla á að það verði sexý. Bara kynæsandi undirfatasýning og blautbolskeppni en ekkert klúrt þannig séð, svo vitnað sé orðrétt í fréttina.
Er öll vitleysan eins?
Ég var ekki hissa á því að talskona femínista væri ekki hrifin.
Heffners-son býst við um 1000 manns á herlegheitin. Svo er bara að vona að gestir verði ekki mjög kynæstir og yfirspenntir og geri ekkert sem Hugh Heffner hefði ekki gert eða þykir ekki boðlegt á íslensku þorrablóti. Reyndar heyrði ég í fréttum í gær að í Bolungarvík sé fráskildum meinuð þátttaka í þorrablóti, einungis pör fá aðgang. Ég var yfir mig hneykslaður í fyrstu en sé núna að þetta er af siðferðisástæðum, runnið undan rótum 10. boðorðsins og því fullkomlega réttlætanlegt. Skyldi siðferðisstaðall þorrablótsefndar Egilsstaða vera á þessu rosa-plani?
Kveðja,
Konni

14.1.07

Það er galdur að gera mikið úr litlu

Íslenska þjóðin er skrýtin eða kannski bara nýtin því hún getur gert mjög mikið úr mjög litlu. Við getum meir að segja látið líta út fyrir að þetta örsamfélag sé mun fjölmennara en það er í raun og veru. Í fyrrasumar unnum við til dæmis það afrek að tryggja Magna eitt af efstu sætunum í amerískum sjónvarpsþætti. Magni keppti við fulltrúa þjóða sem telja milljónir. En Magni sigraði því við Íslendingar getum gert mikið úr litlu. Tugþúsundir atkvæða komu frá nokkur þúsund kjósendum. Heilu fjölskyldurnar svindluðu og svindluðu kvöld eftir kvöld í þágu góðs málstaðar.
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er mynd af fólki á rýmingarsölu IKEA. Þar segir í myndatexta að 6000 manns hafi bitist um útlitsgölluð húsgögn og hluti sem höfðu verið til útstillingar. Síðan þessi verslun hóf starfsemi sína um miðjan október hefur yfir hálf milljón gesta litið þar við. Hálf milljón! Hver einasti rólfær Íslendingur hefur komið tvisvar í heimsókn til IKEA. Konni hefur ekki notið gestrisni IKEA svo einhver hefur þurft að heimsækja verslunina oftar en tvisvar til að fylla skarð Konna. Er þetta ekki flott? Er alveg öruggt að við séum bara 300 þúsund? Var ekki Hagstofan ekki einmitt með starfsmannateiti síðast þegar það var talið?
Ég legg til að næsta manntal verði gert eftir teljurunum í IKEA, Kringlunni og Smáralind, þá kemur hið sanna í ljós. Ekki telja eftir teljurunum í Listasafni Íslands, Kjarvalsstöðum eða aðsókn að Myrkum músíkdögum.
Kveðja,
Konni

13.1.07

Tískan verður að eiga greiða leið um allt land

Og ég sem hélt að á landsbyggðinni byggju bara hagyrðingar og harmónikkuleikarar í kraftgöllum. Nú hefur annað komið í ljós því í Fréttablaðinu í dag er eftirfarndi yfirlýsing: Húsvíkingar eru vel meðvitaðir um það sem er í gangi, hvort sem það snýst um hár eða tísku. (bls. 6 í allt-tíska og fleira)
Landsbyggðarfólk er sem sagt með á nótunum. Þetta eflir mjög traust mitt á landsbyggðinni. Samt sem áður fullyrði ég það að tískan berst fyrst til Reykjavíkur. Þeirri staðreynd verður ekki haggað. Þegar hún hefur sannað sig þar og fest rætur, berst hún um þjóðvegi landsins og tekur fyrst að grassera í Hvergerði og Borgarnesi. Síðan berst tískan norður og suður um landið og á endanum mætast tískustraumarnir að norðan og sunnan á Egilsstöðum. Það er ástæðan fyrir þessari miklu gerjun sem er á Austurlandi. Á Egilsstöðum safnast tískan síðan upp því þaðan getur hún ekkert farið. Tískan fer nefnilega aldrei til baka. Hún á reyndar eftir að renna sér á Borgarfjörð-eystri og niður á firði en þau byggðarlög eru bara yfirfall fyrir tískubylgjurnar sem skella á Egilsstöðum.
En athugið það að þegar bylgjan skellur á Egilsstöðum er komin ný í Reykjavík og þar með eru Héraðsmenn alltaf pínulítið á eftir okkur hinum. Húsvíkingar rétt sleppa fyrir horn (hvort sem um er að ræða hár eða tísku) samkvæmt Fréttablaðinu í dag. Það er sennilega vegna þess að þeir eru örlítið nær Reykjavík.
Þetta sýnir hvað bættar samgöngur eru mikilvægar fyrir Fljótsdalshérað og Austurland allt. Kannski var það einmitt tískan sem formaður Samfylkingarinnar var að hugsa um þegar hún sagði að háhraðatenging alls landsins væri eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar ... hver vill vera púkó?
Kv.
Konni

11.1.07

Maðurinn sem sá tvær halastjörnur

Jæja, nú hljóp á snærið hjá Konna. Konni sá halastjörnuna, hina einu og sönnu og það með eigin augum ofan af Öskjuhlíð í morgun. Nú hefur Konni séð hvorki meira né minna en tvær halastjörnur. Þessa og svo Halleys-stjörnuna fyrir nokkrum árum. Konni stendur í þeirri trú að mjög fáir hafi sé svo margar halastjörnur með eigin augum og þess vegna er Konni sperrtur þessa stundina.
Þá vaknar spurningin, eru ekki þeir sem hafa séð meira en annað fólk á einhvern hátt merkilegra og lífsreyndari mannskepnur? Er sá sem hefur séð tvær halastjörnur ekki helming merkilegri en sá sem hefur bara séð eina? Hann hlýtur þá líka að vera tvisvar sinnum merkilegri en sá sem ekki hefur séð eina einustu halastjörnu.
Konni þekkir fólk sem hefur séð svo miklu meira en hann. Þetta er langförult fólk sem hefur ferðast til fáfarinna staða innanlands og utan og séð ýmislegt með eigin augum sem Konni hefur varla séð á mynd.
Konni finnur alltaf til vanmáttar gagnvart slíku fólki.
Konni hefur bara komið til örfárra landa, Danmerkur og Legolands og svo smávegis til Noregs.
Núna hefur Konni séð tvær halastjörnur. Í miningagreinum um Konna verður tekið fram að hann hafi einmitt verið einn þeirra fáu sem sáu með eigin augum ... TVÆR halastjörnur og það bara í einu lífi.
Geri aðrir betur.
Kveðja,
Konni

8.1.07

Tröppur, skemmtilegt innlegg í trúarlífið

Ég var að bíða eftir sjónvarpsfréttunum áðan og smellti mér rétt sem snöggvast á Ómega. Lítið fór fyrir prédikun þá stundina því hin trúarlega verslun Skjákaup var í fullum gangi. Það er alveg merkilegt hvað hversdagslegir hlutir fá nýja merkingu bara við það að vera til sölu í Skjákaupum.
Nú voru þeir að selja stiga eða tröppur. Við fyrstu sýn voru þetta venjulegar tröppur til notkunar í heimahúsum.
En hvað kemur í ljós þegar betur er að gáð?
Þessi tröppusala er kænskubragð þeirra Ómegamanna, hluti trúboðsins?
Heimiliströppur er hjálpartæki trúarlífsins?
Stigi eða trappa eru þegar öllu er á botninn hvolft gríðarlega merkilegt trúartæki.
Stigi er tákrænt tæki því með hjálp stiga kemst maður nær almættinu. Hærra minn guð til þín, segir í sálminum. Led Zeppelin sungu um Stairway to heaven og prestar stíga upp í prédikunarstólinn og svífa yfir höfðum kirkjugesta.
Þeir hjá Ómega eru snillingar að sýna okkur fram á að nánast allt sem við gerum hefur trúarlega merkingu og tilgang. Jafnvel að klifra upp í skáp er skemmtilegt innlegg í trúarlífið.
Já, enginn verður svikinn af innliti á Ómega.
Gefum öll hjálpartækjum trúarlífsins meiri gaum.
Svo voru þeir farnir að selja naglalakk en þá skipti ég yfir á fréttirnar. Vonandi verður það endursýnt.
Kveðja,Konni

3.1.07

Konni og Þórður vinur hans

Það bendir margt til þess að Konni sé illa innrættur. Konni hefur af því nokkrar áhyggjur. Þetta vonda innræti á sér ýmsar birtingarmyndir. Ein þeirra er sú að Konni getur ekki varist talsverðri gleði þegar enska kanttspyrnuliðið West Ham tapar. Þessi tegund gleði er stundum kölluð Þórðargleði. Það er ekki það að Konni hafi haft horn í síðu þessa félags í gegnum tíðina. Þessar kenndir komu fyrst fram eftir að tveir íslenskir kaupsýslumenn keyptu félagið fyrir marga marga milljarða.
Af hverju getur Konni ekki staðið með þessum tveimur löndum sínum og haldið með West Ham? Þetta eru duglegir menn. Þeir hafa orðið ríkir fyrir eigin tilverknað. Ekki hafa þeir tekið neitt frá Konna. Ekki á Konni neitt sökótt við þá.
Samt sem áður stekkur Konni hæð sína er West Ham tapar.
Konni hefur reynt að komast til bonts í þessu vegna þessa að Þórðargleðin er byggð á öfund og vondu innræti og vont innræti veikir sennilega ónæmiskerfið, styttir lífið og er örugglega synd þar að auki.

Mikið óskaplega hlakkaði í Konna er West Ham tapaði sex núll núna um daginn.
Kannski er þetta samneyti Konna við Þórð vin sinn komið til af því að Konni er pirraður á auðmönnum sem spreða peningum í heimskuleg verkefni. Kaupin á West Ham var heimskulegt verkefni. Það kostaði þessa gæja tíu milljarða, í það minnsta, að kaupa sér aðgang að heldrimannaklúbbum í London. Síðan ætluðu þeir með sínum íslensku töfrafingrum að breyta vatni í vín og gera West Ham að svokölluðu Meistaradeildarliði á nokkrum árum. Það er hlaupin einhver oftrú í kollinn á sumum íslenskum fjármálaspekúlöntum.
Kæru vinir, ef illa fer, hver borgar þá brúsann?
VIÐ!
Þrátt fyrir það að vitleysan lendi á mér sem viðskiptavini Landsbankans, ætlum við Þórður að fagna vel og innilega við hvert tap West Ham.
Já, Konni er illa innrættur.
Kveðja,
Konni