Krummi krunkar á krummaskuðum og jafnvel í Reykjavík
Valinkunnar konur hafa á bloggsíðum sínum fjallað um ansi skemmtilegt mál
sem kynnt var í Fréttablaðinu í vikunni. Þetta er úttekt á mestu
krummaskuðum á Íslandi. Reyndar er þetta hugtak krummaskuð mjög
skemmtilegt og myndrænt hugtak sem gaman væri að fá listamenn til að túlka
með ýmsu móti.
Í könnuninni fékk Reyðarfjörður aldeilis á baukinn, kosinn mesta
krummaskuð á Íslandi. Reyndar er ég þeirri skoðun ekki sammála þó
Reyðarfjörður hafi ekki fríkkað við að byggt var risa-knattspyrnuhús í
miðjum bænum.
Mín niðurstaða er sú, að í raun sé Reykjavík mesta krummaskuðið á landinu.
Reyndar stærsta krummaskuðið og að öllu leyti það öflugasta en krummaskuð
samt.
Þegar Konni flutti aftur til borgarinnar eftir að hafa verið upp í sveit í
næstum tvo áratugi kom það honum á óvart hversu höfuðborgin var í raun
krummaskuðaleg. Reyndar eru ákveðnar kreðsur sem halda að Reykjavík sé
hipp og kúl eins og rithöfundur einn orðaði það. En fyrir venjulegt fólk
er Reykjavík bara bær þar sem það starfar og sefur.
Bónus í Reykjavík er bara eins og venjuleg Bónusverslun úti á landi. Blokkaríbúðin í úthverfinu er bara eins og blokkaríbúð úti á landi. Þú leggst í sama sófann og glápir á sama sjónvarpsefni hvort sem þú ert út á landi og í Reykjavík.
Þú neyðist til að keyra í gegnum úthverfin í Reykjavík þó þar sé ekkert sem biðji mann um að stoppa. Krummaskuðin úti á landi eru miklu stöðvunarvænni. Þar er jú allt í hnotskurn á einum bletti, örheimur í örheimi. Mörg krummaskuð búa líka yfir skemmtilegri höfn, fjallhring gamaldags verslun þar sem allt fæst. Krummaskuð úti á landi eru reyndar aðeins lengra í burtu frá umheiminum en Reykjavík en þar munar ekki miklu. Það eina sem greinir Reykjavík frá krummaskuðum á landsbyggðinni er miðbærinn. Miðbærinn er Reykjavík. Úthverfin eru svo sannarlega stór krummaskuð.
Krummaskuð eru þrátt fyrir allt dálítið skemmtilegir örheimar þannig að
íbúar þeirra krummaskuða sem lentu á lista í Fréttablaðsins geta alveg
haldið ró sinni.
Kveðja,
Konni