30.11.06

Krummi krunkar á krummaskuðum og jafnvel í Reykjavík

Valinkunnar konur hafa á bloggsíðum sínum fjallað um ansi skemmtilegt mál
sem kynnt var í Fréttablaðinu í vikunni. Þetta er úttekt á mestu
krummaskuðum á Íslandi. Reyndar er þetta hugtak krummaskuð mjög
skemmtilegt og myndrænt hugtak sem gaman væri að fá listamenn til að túlka
með ýmsu móti.
Í könnuninni fékk Reyðarfjörður aldeilis á baukinn, kosinn mesta
krummaskuð á Íslandi. Reyndar er ég þeirri skoðun ekki sammála þó
Reyðarfjörður hafi ekki fríkkað við að byggt var risa-knattspyrnuhús í
miðjum bænum.
Mín niðurstaða er sú, að í raun sé Reykjavík mesta krummaskuðið á landinu.
Reyndar stærsta krummaskuðið og að öllu leyti það öflugasta en krummaskuð
samt.
Þegar Konni flutti aftur til borgarinnar eftir að hafa verið upp í sveit í
næstum tvo áratugi kom það honum á óvart hversu höfuðborgin var í raun
krummaskuðaleg. Reyndar eru ákveðnar kreðsur sem halda að Reykjavík sé
hipp og kúl eins og rithöfundur einn orðaði það. En fyrir venjulegt fólk
er Reykjavík bara bær þar sem það starfar og sefur.
Bónus í Reykjavík er bara eins og venjuleg Bónusverslun úti á landi. Blokkaríbúðin í úthverfinu er bara eins og blokkaríbúð úti á landi. Þú leggst í sama sófann og glápir á sama sjónvarpsefni hvort sem þú ert út á landi og í Reykjavík.
Þú neyðist til að keyra í gegnum úthverfin í Reykjavík þó þar sé ekkert sem biðji mann um að stoppa. Krummaskuðin úti á landi eru miklu stöðvunarvænni. Þar er jú allt í hnotskurn á einum bletti, örheimur í örheimi. Mörg krummaskuð búa líka yfir skemmtilegri höfn, fjallhring gamaldags verslun þar sem allt fæst. Krummaskuð úti á landi eru reyndar aðeins lengra í burtu frá umheiminum en Reykjavík en þar munar ekki miklu. Það eina sem greinir Reykjavík frá krummaskuðum á landsbyggðinni er miðbærinn. Miðbærinn er Reykjavík. Úthverfin eru svo sannarlega stór krummaskuð.
Krummaskuð eru þrátt fyrir allt dálítið skemmtilegir örheimar þannig að
íbúar þeirra krummaskuða sem lentu á lista í Fréttablaðsins geta alveg
haldið ró sinni.
Kveðja,
Konni

28.11.06

Konni getur ekki komið frekar en prinsessan ... en skellið ykkur endilega

Nú eru þjóðfélagsrannsóknir og stúdíur Konna í hinum kynlegu fræðum farnar að spyrjast út því Konni fék boð um að taka þátt í seminar á erlendri grundu. Því miður gat Konni ekki lagt land undir fót en þeir sem eru í Köben í dag ættu að skella sér á þenna fróðlega fyrirlestur um Sigmund Freud og prinsessuna sem gat ekki komið ... frekar en Konni. Prinsessur hafa nefnilega svo mikið að gera.

30. november:
Steen Kristensen
Prinsessen, som ikke kunne komme - om Sigmund Freud og Marie Bonaparte
Prinsesse Marie Bonaparte (1882-1962) var rig, begavet, berejst og en af Freuds kæreste elever. Alligevel følte hun sig som en mislykket kvinde, fordi hun ikke fik orgasme ved almindeligt samleje. Hun forsøgte at kurere sig selv ved hjælp af utroskab, sexologisk forskning, psykoanalyse og klitoriskirurgi. Men alt var forgæves. Forklaringen ligger lige for, hævder Steen Kristensen, som i foråret udgav bogen Freud har sagt - en tredobbelt biografi om prinsessen, hendes mand (prins Georg af Grækenland og Danmark) og Sigmund Freud. Sandheden var bare så grufuld, at ingen turde tænke den.


Sted: Psykiatrisk auditorium (Rigshospitalet), Henrik Harpestrengs Vej, opgang 61a
Tidsrum: Kl. 16-18
Målgruppe: Alle interesserede
Arrangører: Dansk Forening for Klinisk Sexologi og Sex & Samfund
Kontakt: www.klinisksexologi.dk og www.sexogsamfund.dkAdgang: Gratis

Kveðja,
Konni

26.11.06

Það rignir ekki alveg jafnt á réttláta og hina ranglátu

Nú eru menn heldur betur farnir að leika sér með milljarðana. Tveir íslenskir bubbar keyptu enskt knattspyrnufélag. Menn eru orðnir svo ríkir að þeir geta bókstaflega leikið sér með peninga. Kaup á knattspyrnufélagi eru í mínum huga ekkert annað en fjárhættuspil því öll vitum við að gengi slíkra félaga er fallvalt jafnvel þó íslensk ofursnilli sé í spilinu.
Hér í gamla daga var til hugtak sem var mikið notað en það er hugtakið arðrán. Alþýðan vissi að það var hún sem borgaði fyrir flottræfilshátt og bruðl yfirstéttarinnar. Alþýðan gerði svo byltingar til að rétta kúrsinn. Hugtakið arðrán er sjaldan eða aldrei notað nú á dögum jafnvel þó yfirstéttin á Íslandi leiki sér með milljarðana á hugvitsamlegan hátt. Fljúgi um á einkaþotum, aki um á rándýrum sérvöldum bifreiðum, byggi sér sumarbústaði á stærð við villur í Arnarnesinu, byggi sér hallir, kaupi upp sveitir landsins og eigi fiskinn í sjónum.
Hugtakið arðrán dúkkar aldrei upp á yfirborðið. Nei, alþýðan fagnar og gleðst yfir dugnaði og snilli yfirstéttarinnar.
Mikið hefur breyst síðan í gamla daga þegar menn gerðu franskar og rússneskar byltingar. Þá var svo augljóst hvar uppspretta auðsins var. Nú fagnar alþýðan því það er eins og auður þessara manna rigni af himnum ofan. Fyrst það hellirignir á hina réttlátu þá gætu líka nokkrir dropar fallið á hina ranglátu. Það er von alþýðunnar árið 2006.

Kveðja,
Konni
PS. Hvaðan koma svo milljarðarnir sem yfirstéttin leikur sér með?

24.11.06

Óravíddir mannshugans eða bernskudvöl Dr. Gunna

Dr. Gunni skrifar í gær ágæta bakþanka í Fréttablaðið. Hann er að fagna því að Georeg Clooney skuli hafa verið kosinn kynþokkafyllsti maður heims af ameríska blaðinu People. Fögnuður Dr. Gunna stafar af því að Clooney er fjórum árum eldri en hann svo Dr.Gunni telur sig eiga alla möguleika á að halda kynþokkanum í all mörg ár enn þó árin færist yfir. Ég samfagna Dr. Gunna því aldur færist líka yfir Konna og gott er til þess að vita að aldur þurrki ekki sjálfkrafa út kynþokka okkar karlmanna, eða eins og Dr. Gunni orðar það: "Það er ekki bara það að hallærislegri ungmenndýrkun sé gefið á baukinn með þessu vali heldur er mér líka gefin smá von."
En ástæðan fyrir því að ég sé ástæðu til að minnast á pistil Dr. Gunna er sú að Gunni telur það til marks um ferskleika sinn og síungt hugarfar að hann skuli ekki vera farinn að stunda golf, safna þjóðbúningadúkkum og hlusta á klassíka tónlist. Það var þetta síðasta þ.e. að hlusta á klassíska tónlist sem kom við kaunin á Konna. Dr. Gunni telur sem sé að þeir sem hlusti á klassíska tónlist missi ferskleikann. Þar datt Dr. Gunni í fúlan drullupytt. Dr. Gunni heldur sem sé að mannsandinn sé svo takmarkaður að sá sem hlusti á klassíska tónlist hafi ekki andlegt til rými til að hlusta líka á aðrar tegund tónlistar. Ég get sagt Dr. Gunna að margir þeirra sem hlusta á klassíska tónlist eru meðal þeirra ferskustu sem ég þekki. Þeir hafa nefnilega þroskast. Á meðan Dr. Gunni dvelur í hugarfarslegum æskuheimi er til fólk sem hlustar á Beethoven, Mozart, Bach, Wagner, Brahms, Feldmann, Schostakovich, Atla Heimi og Jón Leifs en hefur auk þess dálítið gaman af prumpulögum.
Kv
Konni
PS. Fyrir þá sem ekki vita þá er Dr. Gunni höfundur hins ágæta Prumpulags sem vinsælt var fyrir nokkrum árum.

22.11.06

Hver er gáfaðasti núlifandi Íslendingurinn?

Ég álpaðist til að opna könnun sem mér barst í tölvupósti í dag. Könnunin var nú þannig að mér datt í hug að einhver væri að grínast með mig. Hún hófst sakleysislega. Fyrst var ég spurður um hvaða stjórnmálaflokk ég myndi kjósa og síðan kom spurning um hvaða stjórnmálamanni ég myndi treysta best til að leiða ríkisstjórn. Þetta voru nú frekar þægilegar spurningar og þeim var auðsvarað. En síðan fóru nú málin heldur betur að flækjast, sérstaklega þar sem tveir vinnufélagar mínir stóðu yfir mér, því næsta spurning var óvænt. Hversu oft hefur þú haldið framhjá? Næsta spurning var heldur ekki þægileg með vinnufélagana á herðunum. Hversu marga rekkjunauta hefur þú átt um ævina? Ég rak vinnufélagana í burtu, þeim til mikillar gremju, svaraði spurningunum og smellti áfram. Þá kom hins vegar spurningin sem ég átti erfiðast með að svara. Ég velti því fyrir mér hvort ég gæti yfirleitt svarað henni á heiðarlegan hátt, en spurningin var: Hver er gáfaðasti núlifandi Íslendingurinn?
Ég þekki marga gáfaða Íslendinga. Reyndar eru flestir ef ekki allir sem ég þekki gáfaðir, hver á sinn hátt. En hver skyldi vera gáfaðasti núlifandi Íslendingurinn??
Ég mundi bara ekki eftir neinum svo ofurgáfuðum að hann bæri með rentu titilinn Gáfaðasti Íslendingurinn 2006.
Þegar ég var í þann veginn að koma mér hjá að svara spurningunni datt mér einn í hug ... Guðbergur Bergsson ...
Kveðja,
Konni

21.11.06

Íslendingar eru ósigrandi ... nema í íþróttum

Við Íslendingar höfum alltaf átt svolítið bágt vegna skorts á alheimsíþróttakempum, alvöru heimsmeisturum. Reyndar eigum við þrjá Olympíumeistara þó enginn landi okkar hafi hlotið gull á þeim merku leikum.
Handboltalandsliðið hefur alltaf verið veik von um heimsmeistaratign og alheimsfrægð en sá draumur hefur alltaf endað í átakanlegri þjóðarmartröð. Það hefur reyndar bjargað málunum að íslenskar konur hafa hlotið heimsmeistaratign fyrir fegurð, íslenski hesturinn þykir einstakur og Jón Páll var sterkasti maður heims en samt sem áður vantar okkur alvöru heimsmeistara og handhafa alvöru Olympíugulls.
Það gleður mig því mikið að íslenskir viðskiptamógúlar skuli nú hafa nú lagt undir sig hvert fyrirtækið á eftir öðru á erlendri grundu. Það sannar að við Íslendingar getum komist í fremstu röð hvar sem er í hverju sem er ... nema í íþróttum.
Nú hafa tveir viðskiptaspekúlantar keypt enskt knattspyrnufélag á tuttugu milljarða. Ég tel þau viðskipti séu ótvírætt afrek á heimsmælikvarða og ígildi Olympíugulls eða heimsmeistaratignar íslenska landsliðsins í handbolta. Hættum þessu streði í íþróttunum (íslenska knattspyrnulandsliðið er hvort sem er í 100 sæti á heimslistanum) sendum fulltrúa á þann vettvang þar sem sigurlíkur eru margfalt betri en í íþróttum.
Á réttum vettvangi getum við nefnilega sigrað heiminn. Við erum þjóðin ósigrandi ... í öllu nema íþróttum.
Kveðja,
Konni

20.11.06

Mamma hvar eru leiðbeingarnar með geisladiskinum sem þú keyptir?

Ég var að vafra milli stöðva í sjónvarpinu um helgina. Datt þá niður á þátt þar sem dægurlagasöngkona nokkur var að gefa áhorfendum hugmyndir um hvar og hvernig megi nota nýútkominn disk söngkonunnar. Mér þótti þetta merkileg pæling því ég hef aldrei talið mig þurfa á leiðbeiningum að halda um notkun þeirrar tónlistar sem ég kaupi. En sem sagt, söngkonan sagði að nota mætti diskinn m.a. á kvöldin við kertaljós, í teitinu, við eldamennskun og við ryksugun og tiltektir. Reyndar finnst mér ekki gott að hlusta á tónlist þegar ég ryksuga en hugsanlega getur þessi tónlist samtvinnast hávaðnum í ryksugunni á athyglisverðan hátt. En er það ekki lýsandi dæmi um hvernig tónlist er að verða neyslunni að bráð eins og flest annað að gefa þurfi út leiðbeiningar um hvar hana megi nota? Erum við að tapa áttum? Eða er markaðssetningin orðin eitthvað skrýtin? Er er þetta IKEA-væðingin?

Örleikrit
Mamma og Jón tala saman á aðfangadagskvöld
Mamma: Af hverju hlustar þú ekki á diskinn sem ég gaf þér í jólafjöf elskan?
Jón: Það vantar leiðbeiningarnar!
Mamma: Guð minn góður er diskurinn gallaður?
Jón: Já og ég hef ekki humynd um hvar ég á að spila hann.
Við verðum að fá leiðbeiningarnar.

Kv.
Konni

18.11.06

Syndin er lævís og lipur

Enn og aftur fær Konni sönnun fyrir dyggðugu líferni sínu á sjónvarpsstöðinni Ómega. Eins og sjá má hér að neðan var Konni aðeins hársbreidd frá því að skrá sig á einkamála og stefnumótalínu visis.is. Sá hann að sér á síðustu stundu ... guði sé lof.
Um miðjan dag í dag stillti Konni svo á Ómega. Þar saup innblásinn prédikari hveljur yfir holdsins fýsnum. Sagði prédikarinn að það væri eitt megin verkefni mannsins að hafa hemil á holdinu. Holdið væri nefnilega í flestum tilfellum óskaplega veikt.
Konni hefur ætíð fetað hinn mjóa veg dyggðarinnar þó hann hafi eitt andartak látið sig dreyma um að skrásetja sig á stefnumótalínu visis.is. Það var feilspor ...sem þó ekki var stigið. Bendir það ekki til góðrar og Ómegískrar holdlegrar stjórnunar og sjálfsaga?
Veiklundað fólk sem á í sífelldri baráttu við holdlegar fýsnir sínar, skráir sig á stefnumótalínur og hugsar blautlegar hugsanir í tíma og ótíma þarf nú ekki annað en að hugsa til Konna og hans dyggðuga lífs og þá mun kúrsinn réttast eða stilla bara á Ómega. Já, syndin er svo sannarlega lævís og lipur.
Verið dyggðug!
Kv.
Konni

Að eiga séns eða eiga ekki séns?

Ég hef heyrt að fólk láti fasteignasala stundum verðmeta fasteignir sínar í þeim tilgangi einum að kann ríkidæmi sitt. Þetta er svona stöðukönnun. Hvert er verðgildi eignar minnar? Mér datt þetta í hug um daginn þegar ég kíkti inn á nýja útgáfu af vefsíðunni visir.is. Á þeirri síðu er stór bleikur hnappur með fyrirsögninni einkamál/stefnumót. Þar geta þeir komið sér á framfæri sem ekki eiga í örugga hlýju hjónasængur að venda. Svo virðist vera að mikið sé til af einmanna fólki á öllum aldri með mismunandi ástríður. Á visi.is er t.d. skráð kona undir dulnefninu allfjörug. Í ljós kemur reyndar að allfjörug er ekki einsömul því hún er í raun par sem sækist eftir öðru pari með skemmtilegan leik í huga. Þar er líka dama sem skráð er undir dulnefninu strap on. Hennar auglýsing hefur verið skoðuð 622 sinnum. Strap on leitar eftir skyndikynnum svo lítil hætta er á að þeir sem heimsækja hana þurfi að ganga með henni upp að altarinu. Þar er líka Chanel sem vill tala við stráka og hefur áhuga á útiveru og hestum. Já, það er mikið af einmanna fólki á Íslandi á öllum aldri.
Eða ... getur verið að fólk sé bara að kanna hvort það eigi séns rétt eins og íbúðaeigendurnir sem eru að láta fasteignasala verðmeta íbúðir sínar þó alls ekki sé ætlunin að selja.
Nú er Konni að hugsa um að skrá sig á einkamála/stefnumótasíðuna á visi.is bara til að kanna stöðuna. Yrði ekki gaman að fá athygli hundruða eða þúsunda áhugasamra kvenna á einu bretti.

Eða ... kæmi kannski á daginn að enginn hefði áhuga? Á Konni að þora að taka þá áhættu?
Kveðja,
Konni
P.S. Annars skilur Konni ekki hvernig fólki dettur í hug að standa í þessu veseni á okkar litla landi. Í fyrsta lagi er þetta ósiðlegt og svo eru jú talsverðar líkur á að þú lendir á einhverjum sem þú þekkir ...úps! Konni er hættur við.

16.11.06

Nauðsynlegur dagur

Í Kastljósi í gær var fjallað um hvers vegna drukkið fólk fær slagandi göngulag. Rætt var við dósent í Háskólanum. Hann eða reyndar hún, því þetta var kona, sýndi stórt líkan af eyranu. Síðan fitlaði dósentinn við eyrað og útskýrði vandræðaganginn í drukknu fólki á fræðilegan hátt. Ástæðuna fyrir þessari slagandi gangtegund drukkins fólks er sem sé að finna í eyranu. Þetta fannst mér kynlegt. Þá fékk ég loksins skýringu á merkingu orðtaksins að vera á eyrunum og það á degi íslenskrar tungu. Já, þetta er svo sannarlega þarfur dagur.
Kv.
Konni
P.S. Hafa lesendur ekki líka heyrt af því að vera á perunni eða skallanum eða á felgunni? Svo geta menn verið á snúrunni þegar þeir eru búnir að fara í meðferð.

15.11.06

Þau tíðkast nú hin breiðu bökin

Í gær fjallaði ég dálítið um hinn innri og ytri mann. Ég var rétt búinn að skrifa pistilinn þegar ég rakst í fjölmiðlum á mynd af manni sem sloppið hafði úr haldi fangavarða og uppskar þjóðarathygli. Af myndinni að dæma er hér ekki um hættulegan mann að ræða. Myndin sýnir dagfarsprúðan rólyndismann. Svo kemur á daginn að lögreglan vill hafa hendur í hári hans sem fyrst því þessi góðlegi maður gæti verið hættulegur. Þetta sýnir að hinn ytri maður stendur ekki fyrir eitt né neitt. Hinn ytri maður getur gert tæknilega feila. Þessi maður gerði til dæmis þann tæknilega feil að flytja inn eiturlyf. Svo bætti hann öðrum tæknilegum feil við og strauk frá fangavörðum. Árni verðandi þingmaður segist að eigin sögn hafa gert tæknilega feila sem lentu á hans breiða baki. Verst er að strokufanginn sýnist frekar grannur. Hann gæti því kiknað undan feilunum. Kannski þingmaðurinn geti hlaupið undir bagga.
Gott er að hafa breitt bak og geta hlaupið undir bagga.
Kveðja,
Konni

14.11.06

Hinn innri maður kemur alltaf í ljós

Nú fer Árni úr Eyjum aftur á þing. Það finnst mér miður. Hann er reyndar búinn að taka út sína refsingu. Gerði það með stæl. Samt er ég ekki sannfærður um erindi hans á þing. Það er vegna þess að ég veit ekki hvort hans innri maður hefur betrast. Hinn innri maður skiptir meira máli en sá ytri. Því miður höfum við ekki aðferðir til að skoða hinn innri mann svona frá degi til dags en hann kemur í ljós fyrr en síðar.
Hinn innri maður kemur ekki fram í prófkjörsauglýsingunum. Þessar fínu brosmyndir af fólki úr öllum flokkum segja mér ekkert.
Mikið væri gaman að eiga myndavél sem myndaði hinn innri mann.
Það kom mér á óvart í fréttunum í gær hversu margir vegfarendur voru hæst ánægðir með að umræddur væntanlegur háttvirtur þingmaður skyldi vera með annan fótinn á þingi. Það sem mér finnst vera mikið álitamál finnst öðrum vera fagnaðarefni.
Er það ekki kynlegt?
Ég vona svo sannarlega úr því sem komið er, að innri og ytri menn væntalegs þingmanns mun verða þjóðinni til gæfu og sóma.

Kv.
Konni

13.11.06

Í skauti afþreyingarpostula

Mér finnst hún alltaf dálítið kynleg og leiðinleg þessi umræða að það þurfi að selja Ríkisútvarpið. Þar fara yfirleitt í fararbroddi ýmsir snillingar sem vilja íslenskri menningu svo óskaplega vel...eða svo segja þeir a.m.k.Reyndar mætti hugsanlega leggja niður Rás tvö og svo sem sjónvarpið líka en alls ekki RÁS EITT. Í Fréttablaðinu í gær er grein eftir mann, sem ég flokka í hóp plebba en sá vill selja Ríkisútvarpið ... eða bara leggja það niður. Hann segir að þá fyrst verði til fyrsta flokks íslenskur afþreyingariðnaður.
Fyrsta flokks afþreyingariðnaður?
Hann er ekki að tala um ljóðalestur, jazz, umræður um bókmenntir, umræður um heimsspeki, flutning klassískarar tónlistar, nútímatónlistar eða þjóðtónlistar, flutning alvöru leikrita eða lestur útvarpssögunnar viðtöl við skáld og merka Íslendinga sem hafa eitthvað að segja, þáttinn Hlaupanótuna eða sunnudagsmessuna eða Orð kvöldsins.
Nei, ég held að hann hafi verið að tala um Idol, Strákana, X-Factor, Knattspyrnufélgið Nörd, beinar útsendingar frá fegurðarsamkeppni Íslands og Reykjavíkur og Óskarsverðlaunafhendingunni, bullið í FM-stöðvunum, Innlit-útlit, flutning Nylonískrar dægurtónlistar og dægurmenningar eingöngu svo og endalausa enska knattspyrnu og spænska knattspyrnu og það nýjasta af Paris Hilton og Britney Spears.
Plebbar skilja ekki hugtakið menning en þetta áðurnefnda hugtak, afþreying skilja þeir vel. En það sem gerir þá viðsjálverða er að þeir hafa viðskiptavit og kunna að selja. Sitjum við ekki öll uppi með eitthvað sem tungulipur sölumaður hefur prangað inn á okkur? Í fávisku sinni halda þeir að afþreying og menning sé sama hugtakið. Í Stúdentablaðinu um daginn sagði Guðbergur Bergsson að enginn vafi léki á að til væri hámenning og lágmenning. Afþreyingariðnaður er lágmenning, þar er ég jafn viss og Guðbergur. Greinarhöfundurinn í Fréttablaðinu í gær er fulltrúi lágmenningar.En skoðum aðeins þetta hugtak afþreyingariðnaður. Það er samsett úr hugtökunum afþreying og iðnaður. Afþreying minnir mig alltaf á orðtakið að þreyja þorrann og góuna. Þ.e. reyna að þrauka. Afþreying á að létta okkur lífið, hjálpa okkur að þrauka. Lífið er nefnilega svo leiðinlegt, að mati plebba, að allt sem er alvarlegt og ígrundað gerir stundirnar lengri ... lengir lífið og það er vont. Afþreying styttir hins vegar stundirnar. Lífið verður styttra og það er gott. Við þurfum sem sagt hjálpafþreyingariðnaðarins til að lífið verði ekki allt of langt og leiðinlegt. Hugtakið iðnaður tengist svo í mínum huga BM-Vallá eða Vilko-súpum eða álframleiðslu, fyrirtækjum sem eru í færibandaframleiðslu eða fjöldaframleiðslu. Iðnaður er auðvitað bráðnauðsynlegur en þegar það hugtak fer að snerta hugtakið menningu fara mín aðvörunarljós að blikka. Fyrrnefndur greinarhöfundur er talsmaður firringar en ekki menningar. Firring er fylgifiskur afþreyingar og afþreying er fylgifiskur firringar.
Lengi lifi RÁS EITT!
Kveðja,
Konni

10.11.06

Er júróvisíón-gospel trúartónlist eða komin úr neðra?

Ég var að horfa á kristilegu sjónvarpsstöðina Omega. Þar er nú flest betra á dagskránni en á öllum hinum stöðvunum samanlagt sem (þ.e. á hinum stöðvunum) sýna afþreygingarkjaftæði að mestu. Allavega er það næringarlaust með öllu. Þó er það eitt sem ég á erfitt að sætta mig við á Omega og það er tónlistin sem er flutt á samkomum hjá þessum söfnuðum sem þar eru kynntir, íslenskum jafnt sem útlendum. Það er eins og þeir hafi ráðið alla Júróvisíón lagahöfunda heimsins til að semja þetta sem þeir kalla trúartónlist. Ef eitthvað er komið úr neðra er það Júróvisíóntónlist. Hvað er Guð að pæla? Svo þykist þetta fólk vera frelsað en að mínu mati eru þeir sem leika danstónlist í kirkjum, þó Guð og Jesús séu þar nefndir í öðru hverju orði, ekki almennilega frelsaðir. Í mesta lagi hálf-frelsaðir. Hvernig fór ekki líka með dansinn í kirkjunni í Hruna hér forðum?
Þetta fólk hefur aldrei dillað sér við Bach? Það á sko mikið eftir. Bach samdi flottustu trúartónlist sem nokkurn tíma hefur verið samin.
Svo er það annað. Þegar ég lærði sögu var mér kennt að eitt meginatriðið í siðbót Lúthers hafi verið að færa lofgjörðina yfir á mál sem venjulegt fólk skildi, þ.e. móðurmálið. Nú er þetta Júróvisíón-gospel oftar en ekki sungið á ensku hjá íslenskum söfnuðum. Það eina sem maður skilur er Djísús og hallelúja. Er þörf á nýrri siðbót? Allavega þó nokkurri bragarbót.
Kveðja til allra
Konni

9.11.06

Baðvörður rekinn upp úr

Í gær var sérkennileg grein í Blaðinu. Hún var mjög skrýtið innleg í prófkjörsbaráttu ákveðins flokks (sem ég nefni ekki hér því ég er í fýlu út í flokkinn eftir að mín kona hlaut ekki almennilegt brautargengi í prófkjöri um daginn) en í greininni segir fyrrverandi sundlaugarvörður í Vesturbæjarlauginni sínar farir ekki sléttar. Kíkjum aðeins á kafla úr greininni.

Fljótlega eftir að ég byrjaði starfið fór ég að taka eftir, að ekki var allt með felldu í sánagufu karla. Kvartaði ég við forstöðumann laugarinnar um þetta ástand og spurðist fyrir um það hjá öðru starfsfólki laugarinnar hvort það gæti verið rétt, að vændi væri stundað þar. (tilv. lýkur)

Þetta er háalvarlegt mál sem hér verður ekki haft í flimtingum. En mér er spurn var verðskrá yfir athæfið í afgreiðslu laugarinnar? Hvernig báru væntanlegir kaupendur sig að í afgreiðslunni ef þeir ætluðu að stunda þetta ógeðfelld athæfi í sánaböðum karla. Var það t.d.: Ég ætla að fara í gufu og svo gera líka þú veist... eða Ég ætla að fara í GUUUUfu! og skyldi maður hafa getað borgað fyrir þetta með klippikorti? Svo finnst mér það fyrir neðan allar hellur ef menn hafa ekki þvegið sér án baðfata áður en athæfið átti sér stað. Hver leit eftir því? Þetta er nú einu sinni opinber baðstaður. Þess ber að geta að baðvörðurinn var rekinn fyrir að vekja athygli á þessu. Er sannleikurinn ekki oft lyginni líkastur?
Kv.
Konni

8.11.06

Gott aðkast er gulli betra

Fyrir helgi var viðtal í Morgunblaðinu við þrjá einstaklinga fyrir Austan sem sannarlega höfðu orðið fyrir aðkasti og næstum ofsóknum vegna skoðana sinna á Kárahnjúkaframkvæmdum. Maður skilur vel að slíkt fólk hafi orðið fyrir aðkasti. Eiginlega er ég hissa á að þetta fólk skuli ekki hafa orðið fyrir meira aðkasti. Almenningur verður sífellt að vera á varðbergi og það var hann svo sannarlega í þessu máli. Annars hefði svona fólk getað komið í veg fyrir þetta þjóðþrifamál. Allir mega auðvitað hafa sínar skoðanir en við sem tilheyrum almenningi verðum samt að gæta þess að þessar skoðanir eyðileggi ekki fyrir okkur hinum. Við verðum alltaf að gæta þess að meiri hagsmundir víki fyrir minni hagsmunum.
Nú er það ekki bara rafmagn sem flæðir um sveitir Fljótsdalshéraðs. Nei, það er hamingja í milljónum gígavattstunda. Hvað gerir til þó þrír náttúruverndarsinnar hafi orðið fyrir smá aðkasti? Þökk sé almenningi. Hann hefur alltaf rétt fyrir sér og sigrar því að lokum. Gott aðkast er gulli betra.
Kv.
Konni

7.11.06

Engan rasisma hér takk!

Við Íslendingar eigum svo margt ólært. Stríðir straumar útlendinga munu bara verða til bóta fyrir okkur. Ég get nefnt gott dæmi. Þannig var að ég flaug fyrir nokkrum árum til London. Við hlið mér sat maður sem var á leið til Asíu í ákveðnum erindagjörðum. Á fimmta gin-glasi sagði hann mér erindi sitt til Asíu en það verður ekki tíundað hér. Hins vegar tjáði hann mér að nýlega hefði hann skilið við íslensku konuna sína og tekið svo til nærri samdægurs saman við eina asíska. Maðurinn átti ekki til orð yfir hversu gríðarlega góð breyting þetta var. Nánast bylting á högum mannsins. Asískar eiginkonur væru bara annar klassi eins og hann orðaði það. Nú sést aldrei rykkorn á heimili mannsins, maturinn er til á réttum tíma og inniskórnir alltaf á sínum stað. Segið svo að útlendingar hafi ekki jákvæð áhrif á samfélagið.
Kv.
Konni

4.11.06

Takið þingmannsefni í fóstur

aÍ gamla daga í sveitinni fór maður á kjörstað og skrifaði niður nöfn þeirra sem manni leist best á að myndu nú stjórna hreppnum skynsamlega. Ekki man ég eftir að nokkur maður hefði haft samband við mig og beinlínis beðið mig um að kjósa sig.
Nú er öldin önnur. Stjórnmálamenn auglýsa sig grimmt þessa dagana. Margir vilja á þing. Enginn veit hver borgar þessar auglýsingar. En að sjálfsögðu eru einhverjir sem sjá sér hag í því að þessi eða hinn komist á þing. Einn af þeim er ég. Ég vil alveg endilega að Jónína Rós komist á þing. Það er minn hagur. Þá þekki ég loksins almennilega einhvern þingmann. Þekki reyndar Össur og Þuríði og Einar Má, jú og auðvitað Kötu Ásgríms varaþingkonu, en ekki svona almennilega eins og Jónínu Rós. Það er málið.
Þegar ég er búinn að auglýsa hana svona mikið á síðunni minni, henni að kostnaðarlausu, þá á ég líka inni hjá henni stórgreiða. Allavega lít ég þannig á málið.
Ég gæti orðið söngstjóri í þingmannaveislum eða Samfylkingarpartíum samið leikrit fyrir ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, málað myndir í þingflokksherbergið, þjálfað hlaupaklúbb þingmanna eða orðið einkabílstjóri Jónínu þegar hún verður orðin ráðherra.
Enn eitt er víst að ef þið leggið ekki þingmannsefnum lið með einum eða öðrum hætti í prófkjörum missið þið af frábæru tækifæri til að komast til áhrifa.
Áskorun!
Takið þingmannsefni í fóstur eins og ég.
Ykkar Konni